mánudagur, 16. október 2006

Wolfmother

Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég mér frumburð áströlsku rokkhljómsveitarinnar Wolfmother sem ber heiti sveitarinnar. Þarna er á ferð lúxusrokkplata. Þó þarf hún tímann sinn til þess að síast almennilega inn. Þegar ég heyrði tvö lög plötunnar í útvarpinu fyrir nokkrum mánuðum, Woman og Dimension hélt ég að það væru klassísk rokklög með e-m gömlum hundum, þótt ég kæmi flytjanda engan veginn fyrir mig. Þau voru bara svo voða mikið þessleg. Bæði eru þau alveg dúndrandi góð.

Þessir menn ryðjast inn um dyrnar eins og stormsveipur, slíta hurðina af hjörunum, stökkva upp á borð, rífa upp hljóðfærin og svo bara rokk.*

Önnur lög sem vert er að gefa sérstakan gaum eru Love Train, White Unicorn, Whitchcraft o.fl.

Fyrir þá sem taka ekkert mark á mér og lýsa frati á minn tónlistarsmekk, mætti kannski nefna að hinn frægi Thom Yorke (söngvari Radiohead) hefur lýst mikilli velþóknun á hljómsveitinni. Þeir sem taka hvorki mark á mér né Thom Yorke í slíkum efnum geta etið það sem úti frýs.

*Ég varð að koma með einhverja svona fáránlega gagnrýnendaspeki.

Einkunn: 8,5.

[Annars er margt í gangi í músíkinni að venju. Hér væri kjörið að birta þurra upptalningu á vænlegum nýlegum lögum og flytjendum en ég nenni ekki að tína það til.]