laugardagur, 21. október 2006


Manchester United - Liverpool

Á morgun eigast stórveldin við í ensku deildinni. Manchester United hafa byrjað deildina fáránlega vel eftir að Alx Ferguson gerðist svo djarfur í sumar að selja aðalmarkahrók liðsins, Ruud Van Nistelrooy, og ekki nóg með það, heldur fékk hann engan í staðinn fyrir hann. Það sem hefur hins vegar hjálpað M.U.-mönnum mikið nú í byrjun deildarinnar er að Ole Gunnar Solskjaer birtist allt í einu í byrjun leiktíðar eins og þruma úr heiðskíru lofti, eftir að hafa legið einhvers staðar meiddur í þúsund ár, og hefur farið á kostum, gamli melurinn. Louis Saha hefur einnig verið drjúgur í framlínunni. Liðið hefur staðið sig fáránlega vel miðað við mannskap.

Liverpool hefur hins vegar skitið upp á bak í byrjun leiktíðar í deildinni og er um miðja deild. Þó virðast menn þar smám saman vera að koma til og unnu þeir ágætan sigur á Bordeaux í Meistaradeild í vikunni. Liðið einfaldlega verður að sigra á morgun, en United mega við tapi.

Ég ætla að spá því að United fái sinn fyrsta skell á tímabilinu og tapi þessum leik 3-0. Sá spádómur er að sjálfsögðu mjög blandaður óskhyggju. Ég tippa á að annar hvor mestu hálfvita þess liðs (Wayne Rooney eða Rio Ferdinand) verði rekinn út af og það geri útslagið í skellinum mikla. Peter Crouch mun skora tvö mörk fyrir Liverpool en alls óvíst er hver smellir því þriðja.

Leikurinn verður í opinni dagskrá á SkjáEinum klukkan 12:00 á hádegi.