Trylltur einstaklingur talar um öryggi
Í síðustu viku sá ég í fréttatíma að N-Kóreumenn hyggðust hefja tilraunir með kjarnorkuvopn.Þegar Bogi hafði kynnt fréttina var fréttaþulur N-Kóreska ríkissjónvarpsins sýndur að tilkynna þjóð sinni tíðindin. Hann minntist eitthvað á að þetta væri til að auka öryggi landsins. Hann var rennsveittur og gjörsamlega trylltur að flytja fréttina. Ég er frekar skeptískur á tryllta einstaklinga sem tala um öryggi. Hvers vegna í ósköpunum var maðurinn svona trylltur? Ákvað hann sjálfur að hefja þessar tilraunir? Var hann logandi hræddur? Finnst honum sprengingar frábærar og eftirvænting hans kom fram sem tryllingur og sviti?
Í kjölfarið á þessu reyndi ég að ímynda mér fréttaþul íslenska Ríkissjónvarpsins tilkynna íslensku þjóðinni svipuð tíðindi. Bogi Ágústsson með andlitið logandi og gersamlega vitstola að tala um öryggi Íslands og kjarnorkutilraunir í sömu andrá. Þrátt fyrir íterekaðar tilraunir til að sjá þetta fyrir mér, tókst það ekki. Kannski er þetta nokkuð sem gerist bara í Norður-Kóreu.
Eins og þjóðhöfðingjar Kína, Japan, Rússlands, Bandaríkjanna, Frakklands og fleiri ríkja hafa gert, fordæmi ég kjarnorkutilraunir N-Kóreumanna.
|