föstudagur, 13. október 2006

Ódýrt bensín

Fyrr í kvöld tók ég eftir að bensíntankurinn var tómur. Ég fór með kvíðahnút í maganum á næstu bensínstöð, því ég vissi að nú þyrfti ég að taka upp sjóði mína og pyngjur og sturta klingjandi gullinu á afgreiðsluborð samráðsmafíunnar.

Svo renndi ég að tankinum, tók fram dæluna og leit á verðið fyrir lítrann af 95 oktan, rúmar 116 kr. "Vá, ódýrt" hugsaði ég og mundi eftir að hafa séð töluna 132 á slíkum tanki fyrr á þessu ári. Glaður dældi ég bensíninu og fyllti tankinn, það gerðu samtals 4.632 kr. "Vá, ódýrt" hugsaði ég aftur "Ætli þeir séu með tilboð í dag?"

Fullkomlega sáttur rétti ég afgreiðslumanninum kreditkortið mitt. "Vá, sparnaður".

Þegar ég ætlaði að setjast inn í bíl aftur var eins og ósýnileg hönd slægi mig fast í hnakkann. Þá loksins áttaði ég mig, 116 kr. lítrinn er ekki ódýrt, það er svínslegt okur! Svona verður maður ruglaður þegar þessir andskotar hafa haldið verðinu uppi yfir öllum velsæmismörkum í mörg ár og gera enn.

Hér væri viðeigandi að klykkja út með spakmæli. En mér dettur ekkert viðeigandi spakmæli í hug.

Sjaldan launar kálfurinn ofeldið?
Árinni kennir illur ræðari?
Fíll í postulínsbúð?
Fleira er matur en feitt kjöt?
"Vér eplin með" sögðu hrossataðskögglarnir?

Nei, ekkert af þessu, ég er að leita að spakmæli sem á við til að enda þessa færslu en það finnst greinilega ekki.