mánudagur, 23. október 2006

Hvalveiðar - með eða á móti?

Hvalur 9 veiddi sína aðra langreyði í dag. Margir eru orðnir langreiðir á ástandinu og senda mótmælabréf til íslenskra stjórnvalda snarsjóðandibandóðir. Ég set fyrirvara við mótmæli frá Greenpeace vegna þess að það eru öfgasamtök sem hafa getið sér allt annað en gott orð á undanförnum árum. Greenpeace gefa í skyn á síðu sinni að almenningur á Íslandi sé andsnúinn hvalveiðum. Nýleg íslensk Gallup-könnun sýndi að 3/4 aðspurðra sögðust hlynntir atvinnuveiðum á hval (sjá hér). Einnig set ég fyrirvara við andúð Sea Shephard samtakanna sem sökktu tveimur hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn fyrir tuttugu árum. Slíkt er ekki til að vekja samúð almennings með samtökunum.

Ýmsir forkólfar í ferðaþjónustu á Íslandi hafa lýst undrun og mikilli andstöðu við veiðarnar. Segja þeir að hvalaskoðunarbisniss muni hrynja í kjölfarið. Síðan hvalveiðar í rannsóknarskyni hófust fyrir nokkrum árum hefur gestum í hvalaskoðun hins vegar fjölgað. Skv. Magnúsi Skarphéðinssyni(í viðtali Kastljóss, miðvikudagskvöldið 18. okt.) hefur dregið úr vexti ferðamanna. Þá spyr ég, hvernig í ósköpunum getur Magnús fullyrt að það megi rekja beint til veiðanna, hvaða sannanir hefur hann fyrir því? Getur hvalaskoðunarbransinn stækkað endalaust og alltaf með jafnörum vexti?

Veiðiheimildin sem gefin hefur verið nú er ekki upp á marga hvali og ætti seint að ganga að einhverjum stofni dauðum. Hvers vegna má ekki láta á veiðarnar reyna áður en fólk stekkur upp til handa og fóta? Ef hvalaskoðunarbransinn verður fyrir verulegum skakkaföllum má alltaf hætta veiðunum og verður án vafa gert. Áður en og EF til þess kemur ættu menn að anda rólega.

Það að Hvalur 9 hafi veitt tvær langreyðar á örfáum dögum, gefur það til kynna að langreyðar séu í útrýmingarhættu? Nei, ég bara spyr, endilega segið ef þið hafið meiri vitneskju en ég. Það sem er verra og kom fram í fréttum útvarps í kvöld er að sendiherra Japans sagði að ekki væri pláss fyrir íslenskt hvalkjöt á Japansmarkaði, þeir hefðu nóg með eigið tilraunaveiðakjöt. Kristján Loftsson sagði aftur á móti að það væri tóm vitleysa, Japanir vildu kjötið. Miðað við fyrri innslög Kristjáns í fjölmiðlum veit ég ekki hvort ég á að trúa því. Ég hugsa að hvalveiðasinnar gætu fundið betri málsvara en hann.

Hvað ef ekki tekst að losna við skepnurnar? Þá er að sjálfsögðu til stórkostleg lausn, tökum innvolsið út úr þeim, fyllum skrokkana af helíum og bindum þá við Hallgrímskirkjuturn, þar gætu þeir svifið yfir eins og í þyngdarleysi, það væri stórkostlegt. Hingað mundu streyma ferðamenn til að berja hvalina svífandi augum. Líklega yrðu ófáir hasshausar í þeirra röðum og gætu látið orðin "Whoa, awsome!" falla. Hvalaskoðun fengi nýja merkingu.

Aðrir punktar sem menn hafa bent á, með og á móti:
MEÐ: Hvalir éta fullt af fiski sem sjómenn gætu annars veitt.
Á MÓTI: Þungmálmar sem safnast fyrir í dýrunum eru sérlega óhollir fyrir fólk.

Niðurstaða: Þetta er spurning.