sunnudagur, 1. október 2006

Þvottafastar

Ég er ótrúlegur þvottameistari, skófla þvottinum í vélina, skelli hurðinni aftur og hviss bamm búmm stilli og ýti á takka og skrúfa frá vatni.

Þegar maður þvær þvott þurfa ákveðnir fastar að vera til staðar. Fastarnir eru sem hér segir:
  • x: setja óhreinan þvott í vél ásamt þvottaefni.
  • y: loka vél.
  • z: skrúfa frá vatni.
  • þ: stilla þvottakerfi vélarinnar eftir aðstæðum hverju sinni.
Helst þarf að framkvæma fastana í þessari röð og aðeins þessari. Klúður verður óumflýjanlegt ef röðinni er ruglað.

Ég þvoði þvott áðan og jafnvel þvottameisturum verður stundum á. Eftir tvo klukkutíma fór ég niður í þvottahús og ætlaði að hengja upp rjúkandi ferskan þvottinn en þá sá ég að ég hafði gleymt fasta z. Þetta kom sérstaklega flatt upp á mig. Hvaða áhrif skyldi þetta hafa á þvottaferlið í heild? Ég velti fyrir mér ýmsum mögulegum möguleikum:
  • A. Þvotturinn kynni að hafa legið óhreyfður í vélinni og jafn skítugur og áður
  • B. Þvotturinn kynni að hafa þvegist, en þó eingöngu með þvottaefni, engu vatni og að vera þannig mestmegnis þurr en þó löðrandi í þvottaefni.
  • C. Þvotturinn gæti verið þurr, samanbrotinn og hreinn í vélinni. Þessi möguleiki er mjög langsóttur.
  • D - Z. Aðrir möguleikar sem komu ekki upp í hugann.
Eftir að hafa velt fyrir mér möguleikunum slökkti ég á vélinni og reyndi að opna. Það var ekki hægt og túlkaði ég það sem viðbrögð vélarinnar við skorti á fasta z. Viðbrögð mín við því voru að skrúfa frá vatninu og stilla vélina upp á nýtt og viti menn, hún fór að þvo.

Ég mun fá niðurstöður þvottarins síðar í kvöld.