föstudagur, 28. febrúar 2003

MS-árshátíð

Ég fór því miður ekki á ballið en við kíktum eitthvað þarna fyrir utan Broadway þegar verið var að hleypa inn. Einu tók ég strax eftir (það er auðvelt að taka eftir ýmsu bláedrú): fólk var haugdrukkið. Þetta minnti mig mikið á eitthvað, ég áttaði mig ekki strax á hvað. Svo fattaði ég það: réttir. Já, fólkið var rollurnar ráfandi um í réttinni (biðröðinni fyrir utan) með tilheyrandi jarmi og það var að bíða eftir að vera dregið inn í dilkinn (inn á Broadway). Svo voru auðvitað einhverjir svartir sauðir sem höfðu gleymt miðanum eða týnt og þá máttu þeir ekki fara í þennan dilk. Þær rollur voru greinilega frá öðrum bæ og áttu að fara í einhvern annan dilk. Já og dyraverðirnir voru að sjálfsögðu fólkið í réttinni sem dregur rollurnar í dilkana. En flestar rollurnar komust þó í sinn dilk sem var Broadway.

Óttaleg vitleysa.

Lélegasta kvikmynd sögunnar

Já, í gær fór ég á lélegustu mynd sem ég hef séð í bíó. Það var myndin Punch-Drunk Love. Hún á að vera gamanmynd. Þetta var ekki gamanmynd. Ég held að ég hafi ekki hlegið að einu atriði í myndinni. Þetta var Undirtónaforsýning og ég fór frítt á myndina sem og aðrir í salnum. Það var eins gott að maður borgaði sig ekki inn á þetta helvíti. Ég var einmitt búinn að sjá að myndin fékk 8 í einkunn hjá hinum "virta" kvikmyndavef imdb.com og að hún hafði hlotið "lof gagnrýnenda um allan heim". Þetta var liður í því að plata fólk á þessa ömurlegu mynd.

Söguþráðurinn: Aðalpersónan (Adam Sandler) var stórskrýtinn og vann hjá einhverju litlu skítafyrirtæki. Hann átti sjö systur sem voru alltaf að hringja í hann í vinnuna og hafa áhyggjur af honum. Svo stal hann litlu píanói. Hann keypti líka fullt af búðingi til að safna tilboðsmiðum á flugferðir sem voru á pökkunum. Og svo einn daginn hringdi hann í einhverja klámlínu. Stelpan sem hann talaði við þar fékk hjá honum krítarkortnúmer og ýmsar aðrar upplýsingar og fór síðan að taka villt og galið út af kortinu hans. Hann var fátækur og mátti ekkert við því. Já, svo var hann alltaf að brjóta rúður í æsku af því margir kölluðu hann homma. En svo kynntist hann einhverri konu og þau enduðu saman.

Vægast sagt grúthrútleiðinleg mynd og endilega farið EKKI á hana.

Einkunn: mínus tvær stjörnur af fimm mögulegum

fimmtudagur, 27. febrúar 2003

Skítamórall

Jei! Skítamórall eru að koma saman aftur. Hverjum er ekki andskotans sama. Nú getur Einar Ágúst farið að syngja "ertu þá farin" í hvítu pilsi sem er án efa gaman fyrir hann.

Humm? Þegar þetta er skrifað (kl. 9:09) eru þrettán manns búnir að heimsækja síðuna og tólf þeirra frá útlöndum. Þetta krefst skýringa. Hvað er í gangi? Oft koma tólf manns á síðuna á einum degi en þessi stefnir í met.

Info Black
Your Heart is Black


What Color is Your Heart?
brought to you by Quizilla

Ussususs

miðvikudagur, 26. febrúar 2003

I am 36% Evil Genius

I want to be evil. I do evil things. But given the opportunity, and a darn good reason I may turn to the good side. Besides I am probably a miserable evil genius.

Take the Evil Genius Test at fuali.com

SVEI ATTAN!

þriðjudagur, 25. febrúar 2003

Æði runnið á kennara MR

Það er voðalega vinsælt hjá kennurunum að setja okkur mikið fyrir heima þessa dagana. Það eru próf og ritgerðaskil dag eftir dag. Í síðustu viku voru mörg próf og heimaverkefni og ekki er það minna þessa vikuna. Nú væri gott að vera á kokkabraut í MK en ég ætlaði einmitt í kokkinn. Þá væri örugglega lítið að læra heima. Maður gæti bara verið í góðu glensi að skera gúrkur og sveppi og henda því á pönnu og steikja það og þyrfti ekki að bræða úr heilanum yfir strembnum stærðfræðidæmum og hrútleiðinlegri frönsku. Já, það væri nú aldeilis munur. En ég valdi víst MR og stefni á að klára hann. Það er líka nokkuð ljóst að það er enginn Skarphéðinn Pálmason í MK sem er ekki gott. En Magnús faðir minn kennir þar. Það væri örugglega skrýtið ef pabbi kenndi mér.

fimmtudagur, 20. febrúar 2003

I am 19% Geek

I wanna be a geek. But I'm not. Why would I even want to be one. Do I think it's fun? I should try writting an online test application at 1 am in my underwear

Take the Geek Test at fuali.com

Iss!

Áfengisauglýsingar í útvarpi

Flestum er eflaust kunnugt um það að BANNAÐ er að auglýsa áfengi í útvarpi en auglýsa má óáfengt vín og pilsner. Áfengi er samt auglýst í stórum stíl. Maður heyrir t.d.: "Tuborg, áhyggjulausi bjórinn. Ég meina léttbjórinn" og "Miller, djús á góðu verði" Ég hef grandskoðað hillur matvöruverslana og það er enginn andskotans djús sem heitir Miller. Það verður ekki um villst að þarna er átt við áfengan drykk, ekki saklausan djús í anda Frissa fríska heldur svæsið bús. Þetta er aðeins brot af því sem maður heyrir. Auglýsingar af þessu tagi heyrast oftast ekki á stöðvum RÚV eða Bylgjunni. Þær vaða hins vegar uppi á Radio-X og hnakkastöðvunum, sem er þeim stöðvum ekki til sóma. Ung og óhörðnuð ungmenni heyra þetta og halda að áfengi sé voðalega sniðugt. Svona er Ísland í dag. Allt er á leiðinni til fjandans.

Já, þessi grein hljómar kannski eins og hún sé skrifuð af húsmóður í Vesturbænum en eins og flestum er kunnugt er ég ekki húsmóðir úr Vesturbænum heldur ungur skólapiltur úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Q. e. d.


Lalli Johns í viðtali

Í morgun þegar ég var á leiðinni í skólann hlustaði ég á Sigurjón Kjartansson & co. Sigurjón hefur verið óttalega slappur síðan Jón Gnarr hætti með honum í útvarpinu en það var ekki þannig í dag. Sigurjón fékk nefnilega ákaflega skemmtilegan viðmælanda, Lalla Johns sjálfan. Lalli sagði ýmislegt skemmtilegt eins og hans var von og vísa. Hann var meðal annars með ráðleggingar um hvernig ætti að ná í kvenfólk. Svo kom fram að Lalli byrjaði að drekka áfengi átján ára gamall. Hlustendur fengu tækifæri til að hringja inn og spyrja karlinn um það sem þeir vildu vita um hann. Einhver spurði hvenær Lalli hefði misst sveindóminn. Það sagði hann að hefði ekki gerst ennþá. Já, Lalli var líka spurður hvað hann mundi gera við hundrað þúsund krónur í dag. Hann sagðist mundu kaupa fyrir þær mat handa fátækum börnum og kaupa brauð handa öndunum á Tjörninni. (Gott að vita að því yrði vel varið). Það kom líka fram að Lalli hefur einungis fengið hundrað þúsund krónur af sjö milljón króna hagnaði af heimildarmyndinni um hann. Lalli sagði að maðurinn sem gerði myndina hefði svikið sig. En hann er sem sagt ekki á Litla - Hrauni núna og stefnir á að fara ekkert oftar þangað sem er göfugt markmið hjá karlinum.

þriðjudagur, 18. febrúar 2003

Amma fer ekki í MR

Já, ég var að læra fyrir efnafræðipróf í gær. Amma og afi voru í heimsókn. Allt í einu kemur amma og sér að ég er eitthvað að læra. Hún leit á blaðsíðuna í bókinni hjá mér, rak upp stór augu og sagði hneyksluð: "Guð minn almáttugur að þurfa að læra þetta! Það er eins gott að vera með höfuðið í lagi." Af þessu dreg ég þá ályktun að amma sé ekki á leiðinni í MR á næstunni.

Q. e. d.

mánudagur, 17. febrúar 2003

Allt sem mig vantar

Það er ótrúlegt hvað maður fær mikið af ruslpósti á hotmail. Og af ýmsum toga. Það er mikið um að verið sé að reyna að selja mér fasteignir í Bandaríkjunum. Svo hafa þeir greinilega frétt að mig vantar nýtt kreditkort. Já og viagra töflur á sérstökum kjörum, einmitt það sem ég var að leita að. Já, að ekki sé talað um nýjan farsíma á ofurtilboði. Og að ógleymdum öllum klámauglýsingunum. Og oftar en ekki fylgir með: "For U.S. residents only" þannig að ég get ekki einu sinni nýtt þessi frábæru tilboð. Já, og ég hef aldrei skráð mig á alla þessa djöfulsins ruslpóstlista. Ekki einn einasta. Í dag fékk ég til dæmis póst með þessu heiti: "I'm bored of my husband, come flirt with me" og sendandinn var Linda (já, ef einhver hefur áhuga á Lindu þá var þetta sent úr netfanginu: linda@mx3.savoradvertising.com). Og í póstinum stendur m.a. : "Read their profiles, see their photos, and then flirt with them while their husband is out of town" - "100% REAL bored and lonely women looking for a flirt". Hvurs konar djöfulsins rugl er þetta. Ef þessi Linda er að lesa þetta þá bendi ég henni á að ég hef engann áhuga. Og mér er andskotans sama þótt hún sé leið á manni sínum og þess háttar. Þessi auglýsingamennska í dag gengur gjörsamlega út í öfgar. Einhverra hluta vegna er Sjónvarpsmarkaðurinn hættur. Humm?

Týpískt Eourovisionlag

Það er búið að velja framlag Íslands í Eurovision. Það er eitthvað lag sem Birgitta Haukdal syngur sem fer í keppnina. Það kemur ekki á óvart þar sem Birgitta og hljómsveit hennar Írafár hafa verið mjög vinsæl upp á síðkastið. Þau hafa selt vænan slatta af fyrstu plötu sinni og því er ekki lokið ennþá. Það hefði ekki skipt nokkru máli hvað Birgitta hefði sungið í forkeppninni, hún hefði unnið með hvaða lag sem er, slíkum vinsældum á hún að fagna þessa dagana. Þetta lag er alls ekkert sérstakt. Það er ekkert sérstakt við það. Þetta er bara mjög venjulegt lag en Birgitta söng það og þess vegna vann það. Ég hefði viljað sjá Eurovísu piltanna í Botnleðju vinna. Það er öðruvísi, nokkuð sérstakt, og hefði átt fullt erindi í keppnina í Eistlandi. Lagið sem Birgitta syngur er allt of venjulegt og ég spái því 15.sæti eða neðar. En ég verð samt að halda með Birgittu og félögum því að Birgitta er frá Húsavík eins og ég (Ég fæddist á Húsavík og bjó þar þangað til ég var tveggja ára þannig að ég get með réttu talist sannur Húsvíkingur). Svo sagði frænka mín mér að höfundur sigurlagsins er ansi skyldur mér: langamma mín og amma hans eru systur. Já, og ég og Birgitta erum auðvitað áttmenningar. Þannig að ég er tilneyddur til að halda með þessu lagi þótt það sé ekkert sérstakt.

sunnudagur, 16. febrúar 2003

Fríið fokið út í veður og vind

Já, nú er farið að síga á seinni hlutann á hinu svokallaða vorhléi Menntaskólans í Reykjavík. Einhverra hluta vegna virðist ég hafa misst af þessu fríi. Ég sem ætlaði að vera voðalega duglegur að læra og svona í fríinu. En nei, nú er fríið að verða búið og ég er eiginlega ekkert búinn að vera duglegur. Ég ætlaði að klára Hitzhikker (The Hitchiker´s Guide To The Galaxy) og svo ætlaði ég að lesa eitthvað í Snorra - Eddu en það hefur eitthvað misfarist. Ég er a.m.k búinn að gera smávegis í efnafræði og dönsku. Svo er þetta grábölvaða veður úti: rok og rigning. Þannig að fríið hefur bara fokið út í veður og vind.

föstudagur, 14. febrúar 2003

Ekki veit ég af hverju í fjandanum ég vaknaði klukkan sjö í morgun eftir að hafa farið að sofa eitthvað um fjögur þegar ég var búinn að drekka ótæpilegt magn af einhverju bölvuðu glundri. Jæja, en ég á eftir að leggja mig í dag. Og ég er alveg laus við höfuðverk og aðra fylgikvilla.

Ingileif eða Inga sem var með mér í bekk í 3.bekk er með blogg. Það er alveg gefið að ég linka á hana. Ég er einmitt skyldur henni í 7. og 8.lið.

þriðjudagur, 11. febrúar 2003

Ég fékk mér Weetabix í gær og fann hvað það er viðbjóðslegt á bragðið. Ég er strax orðinn leiður á því. Nú bið ég um uppástungur að einhverju nýju morgunkorni sem ég get farið að skófla í mig. Sendið það á gummifm@hotmail.com

Hvar er Friður 2000?
Það hefur ekki heyrst í Friði 2000 um skeið. Ástþóri Magnússyni og félögum tókst ekki að koma á alheimsfriði fyrir árið 2000 eins og þeir ætluðu sér. Svo voru líka einhver sauðnaut sem héldu uppi átakinu "Ísland án eiturlyfja 2002". Það heppnaðist ekki heldur. Þeir ættu kannski að setja raunhæfari markmið.

mánudagur, 10. febrúar 2003

Liverpool eru ekki að standa sig sem skyldi þessa dagana. Þeir hafa verið nokkuð slappir í töluverðan tíma. En þeir eru kannski að rétta úr kútnum. Unnu West Ham 3-0 en svo kom jafntefli við Middlesbro. Ég heyrði mjög athyglisverða umræðu um Liverpool liðið á BBC. Þeir sögðu að Owen væri búinn að vera lélegur svo lengi að þ.að ætti bara að selja hann. Svo sögðu þeir að El Hadj Diouf virtist ekki vita hvar markið væri heldur hlypi bara um með boltann eins og hauslaus kjúklingur. Ég verð að viðurkenna að það var nokkuð til í þessu.

miðvikudagur, 5. febrúar 2003

Morgunkorn
Já, morgunkorn er hlutur sem margir éta daglega. Fjölmargir fá sér Cheerios á morgnana (eða "súrmjólk á morgnana, Cherios á kvöldin" eins og segir í kvæðinu). Aðrir fá sér Kornflex og enn aðrir Cocoa Puffs og allt þar á milli. Svo er hægt að blanda þessu öllu saman ef fólk vill. Best er að skipta alltaf um morgunkorn af og til því að annars verður maður leiður á því. (Þó eru sumir sem éta bara alltaf Cheerios á morgnana). (Skarphéðinn Pálmason stærðfræðikennari étur örugglega alltaf Cheerios á morgnana og raular fyrir munni sér "það er alltaf sama rútínan í þessu", og það er bara gott mál). Ástæða þess að ég er að skrifa um morgunkorn er sú að nú nýlega var ég að skipta um morgunkorn. Ég hætti í helvítis Kellogs Special K-inu af því að ég var orðinn hundleiður á því bölvaða sulli. Ég skipti yfir í morgunkorn sem var mikið auglýst einhvern tímann (þá fannst mér þetta afar ógirnilegt morgunkorn og ætlaði aldrei að éta það. Ég var líka viss um að enginn æti þetta nema sturlaða fjölskyldan í auglýsingunni) En nú hefur orðið hugarfarsbreyting hjá mér og ég ákvað að prófa það í fyrsta sinn: Weetabix. Ástæða þess að ég ákvað að prófa Weetabix var að ég sá í einhverju blaði að Gaui litli mælir með því. Og Gaui litli veit hvað hann syngur. Fyrir þá sem ekki vita lítur Weetabix út eins og fóðurbætiskögglar(sem gjarnan eru gefnir dýrum: kindum og svoleiðis) Þetta eru hlussustórir trefjakubbar (lengdin er einir 5 cm og breiddin 1cm), ákaflega ógirnilegir. Og þetta ét ég. Ég gæti vel trúað að ég og Gaui litli værum þeir einu sem ætum þennan fjanda. Því ekki er þetta sérstaklega bragðgott. En með smávegis rúsínum og súrmjólk er þetta fínt og ég er farinn að slafra þessu í mig á hverjum morgni.

Ef ég á að sanna efni þessarar greinar með stærðfræði hljómar það svona:
Gefið: Kindur eru dýr. Dýr borða fóðurbæti.
Sönnun: 1)Þar sem kindur eru dýr og dýr borða fóðurbæti fæst: kindur borða fóðurbæti. Oft langar kindur í fóðurbæti og ef þær fá ekki fóðurbætinn sinn hafa þær ekki orku til að takast á við daginn. "Meeeee, hvahrrrr er fóhóóðurbætirinn?".
2)Þar sem menn eru dýr (spendýr) borða þeir fóðurbæti. Af lið 1) fæst að dýr þurfa fóðurbæti til að takast á við daginn en það sýnir að menn þurfa fóðurbæti til að takast á við daginn. Þeirra fóðurbætir er Weetabix. (sem er augljóst)

Q. e. d. (sönnun lokið)

Niðurstaðan: Hættið í ruglinu og fáið ykkur Weetabix á morgnana. Hlustið á Gaua litla.

Þessi grein er algjör steypa og biðst ég velvirðingar á því.