fimmtudagur, 20. febrúar 2003

Áfengisauglýsingar í útvarpi

Flestum er eflaust kunnugt um það að BANNAÐ er að auglýsa áfengi í útvarpi en auglýsa má óáfengt vín og pilsner. Áfengi er samt auglýst í stórum stíl. Maður heyrir t.d.: "Tuborg, áhyggjulausi bjórinn. Ég meina léttbjórinn" og "Miller, djús á góðu verði" Ég hef grandskoðað hillur matvöruverslana og það er enginn andskotans djús sem heitir Miller. Það verður ekki um villst að þarna er átt við áfengan drykk, ekki saklausan djús í anda Frissa fríska heldur svæsið bús. Þetta er aðeins brot af því sem maður heyrir. Auglýsingar af þessu tagi heyrast oftast ekki á stöðvum RÚV eða Bylgjunni. Þær vaða hins vegar uppi á Radio-X og hnakkastöðvunum, sem er þeim stöðvum ekki til sóma. Ung og óhörðnuð ungmenni heyra þetta og halda að áfengi sé voðalega sniðugt. Svona er Ísland í dag. Allt er á leiðinni til fjandans.

Já, þessi grein hljómar kannski eins og hún sé skrifuð af húsmóður í Vesturbænum en eins og flestum er kunnugt er ég ekki húsmóðir úr Vesturbænum heldur ungur skólapiltur úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Q. e. d.


Lalli Johns í viðtali

Í morgun þegar ég var á leiðinni í skólann hlustaði ég á Sigurjón Kjartansson & co. Sigurjón hefur verið óttalega slappur síðan Jón Gnarr hætti með honum í útvarpinu en það var ekki þannig í dag. Sigurjón fékk nefnilega ákaflega skemmtilegan viðmælanda, Lalla Johns sjálfan. Lalli sagði ýmislegt skemmtilegt eins og hans var von og vísa. Hann var meðal annars með ráðleggingar um hvernig ætti að ná í kvenfólk. Svo kom fram að Lalli byrjaði að drekka áfengi átján ára gamall. Hlustendur fengu tækifæri til að hringja inn og spyrja karlinn um það sem þeir vildu vita um hann. Einhver spurði hvenær Lalli hefði misst sveindóminn. Það sagði hann að hefði ekki gerst ennþá. Já, Lalli var líka spurður hvað hann mundi gera við hundrað þúsund krónur í dag. Hann sagðist mundu kaupa fyrir þær mat handa fátækum börnum og kaupa brauð handa öndunum á Tjörninni. (Gott að vita að því yrði vel varið). Það kom líka fram að Lalli hefur einungis fengið hundrað þúsund krónur af sjö milljón króna hagnaði af heimildarmyndinni um hann. Lalli sagði að maðurinn sem gerði myndina hefði svikið sig. En hann er sem sagt ekki á Litla - Hrauni núna og stefnir á að fara ekkert oftar þangað sem er göfugt markmið hjá karlinum.