miðvikudagur, 5. febrúar 2003

Morgunkorn
Já, morgunkorn er hlutur sem margir éta daglega. Fjölmargir fá sér Cheerios á morgnana (eða "súrmjólk á morgnana, Cherios á kvöldin" eins og segir í kvæðinu). Aðrir fá sér Kornflex og enn aðrir Cocoa Puffs og allt þar á milli. Svo er hægt að blanda þessu öllu saman ef fólk vill. Best er að skipta alltaf um morgunkorn af og til því að annars verður maður leiður á því. (Þó eru sumir sem éta bara alltaf Cheerios á morgnana). (Skarphéðinn Pálmason stærðfræðikennari étur örugglega alltaf Cheerios á morgnana og raular fyrir munni sér "það er alltaf sama rútínan í þessu", og það er bara gott mál). Ástæða þess að ég er að skrifa um morgunkorn er sú að nú nýlega var ég að skipta um morgunkorn. Ég hætti í helvítis Kellogs Special K-inu af því að ég var orðinn hundleiður á því bölvaða sulli. Ég skipti yfir í morgunkorn sem var mikið auglýst einhvern tímann (þá fannst mér þetta afar ógirnilegt morgunkorn og ætlaði aldrei að éta það. Ég var líka viss um að enginn æti þetta nema sturlaða fjölskyldan í auglýsingunni) En nú hefur orðið hugarfarsbreyting hjá mér og ég ákvað að prófa það í fyrsta sinn: Weetabix. Ástæða þess að ég ákvað að prófa Weetabix var að ég sá í einhverju blaði að Gaui litli mælir með því. Og Gaui litli veit hvað hann syngur. Fyrir þá sem ekki vita lítur Weetabix út eins og fóðurbætiskögglar(sem gjarnan eru gefnir dýrum: kindum og svoleiðis) Þetta eru hlussustórir trefjakubbar (lengdin er einir 5 cm og breiddin 1cm), ákaflega ógirnilegir. Og þetta ét ég. Ég gæti vel trúað að ég og Gaui litli værum þeir einu sem ætum þennan fjanda. Því ekki er þetta sérstaklega bragðgott. En með smávegis rúsínum og súrmjólk er þetta fínt og ég er farinn að slafra þessu í mig á hverjum morgni.

Ef ég á að sanna efni þessarar greinar með stærðfræði hljómar það svona:
Gefið: Kindur eru dýr. Dýr borða fóðurbæti.
Sönnun: 1)Þar sem kindur eru dýr og dýr borða fóðurbæti fæst: kindur borða fóðurbæti. Oft langar kindur í fóðurbæti og ef þær fá ekki fóðurbætinn sinn hafa þær ekki orku til að takast á við daginn. "Meeeee, hvahrrrr er fóhóóðurbætirinn?".
2)Þar sem menn eru dýr (spendýr) borða þeir fóðurbæti. Af lið 1) fæst að dýr þurfa fóðurbæti til að takast á við daginn en það sýnir að menn þurfa fóðurbæti til að takast á við daginn. Þeirra fóðurbætir er Weetabix. (sem er augljóst)

Q. e. d. (sönnun lokið)

Niðurstaðan: Hættið í ruglinu og fáið ykkur Weetabix á morgnana. Hlustið á Gaua litla.

Þessi grein er algjör steypa og biðst ég velvirðingar á því.