föstudagur, 19. september 2003

Busaball MR

Sofnaði í Cösu í dag með úlpu yfir hausnum. Það hef ég aldrei gert áður. Ástæðan: Busaball í gær. Þetta var taumlaus skemmtun. Ljóst er að það er nokkuð vafasamt að biðja Jósep um reddingu á öli til drykkju. Bað ég pilt um Faxe bjórkippu, en fékk þess í stað þrjár lítersdósir (kúta?) af Faxe og fékk Tómas það sama. Síðan skemmti umræddur Jósep sér við að henda gaman að okkur drekkandi úr ferlíkjunum og vöktu dósir þessar víða athygli. Þess ber að geta að bekkjarpartý hjá nafna mínum var að minnsta kosti fimm sinnum betra en partý á sama stað um daginn og fær þetta kjallarapartý góða dóma almennt. Fyrst var haldið í teiti hjá 5.X en staldrað stutt við og þaðan í mitt bekkjarpartý. Síðan var það bara blússandi ballið á NASA. Í einhverju óðagoti fór ég með óupptekinn vodkapela í vasanum á NASA en dyravarðaómyndirnar gerðu hann upptækann. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ballið var búið að pelinn var horfinn úr vasanum. Fór ég þá umsvifalaust að ræða við dyravörð. Sagði hann að þeir hefðu hellt úr pelanum og höfðu hvorki spurt kóng né prest. Ég lét ekki bjóða mér þess háttar bull og steinrotaði dyravörðinn án tafar.

Já, síðasta línan var kannski aðeins ýkt.

Konungsins sveifla!

Ég mætti síðan að sjálfsögðu á tilsettum tíma í skólann í morgun því annað hefði verið löðurmannlegt. Í síðustu tímunum var aðeins farið að draga af mér og var ég farinn að stara hreyfingarlaus út í loftið í enskutíma, sem var næstsíðasti tími. Síðasti tíminn var íþróttatími og tók ég Tjarnarhringinn engum vettlingatökum í dag frekar en fyrri daginn og kom bara helvíti vel út. Síðan lagði ég mig að sjálfsögðu þegar heim var komið eftir langan og strangan dag.