Guð býr í garðslöngunni Amma
Ótrúlega magnaðir textar hjá Megasi: "...og á sunnudögum þegar kristur kaupir, sér kúmenbrennivín á leyndum stað"-"Ragnheiður biskups dóttir brókar var með sótt" Ég veit ekki hvaðan maðurinn fær allar þessar hugmyndir en mér segir svo hugur að hann fái eitthvað af þeim hjá Bakkusi.Sjónvarpsefni nú til dags er gjarnan mjög þunnt og leiðinlegt. Það er nýbúið að birta áhorfskönnun Gallup og kemur í ljós að Skjár Einn hefur hrapað í áhorfi. Það hlaut að koma að því að fólk yrði leitt á þessum amerísku "gaman"þáttum sem eru allir eins og ekki snefill af skemmtun í þeim. Ameríska tilgerðargrínið höfðar ekki til mín, það er víst. Aldrei hef ég heldur skilið hvað er skemmtilegt við sápuóperuna Friends. Sömu brandararnir aftur og aftur þátt eftir þátt. Dósahláturinn svokallaði er ríkjandi í þessum þáttum. Er fólk orðið svo heimskt að það þurfa einhverjir að hlæja á bak við í þáttunum til þess að fólk heima í stofu viti hvenær það á að hlæja? "Ha? Þetta er fyndið, nú á ég að hlæja: HAHAHAHAHAHAh". Ef dósahláturinn yrði fjarlægður úr Friends yrði eflaust minna um hlátur hjá fólki af því það bara einfaldlega vissi ekkert að hverju það ætti að hlæja. Allt í einu væri Friends bara orðinn drepleiðinlegur grafalvarlegur þáttur. Ég er farinn að stunda það mikið að horfa ekki á sjónvarpið, hlusta bara. Þetta hefur gefist mjög vel hingað til. Ég veit ekkert um hvað þættirnir snúast en heyri alltaf blússandi dósahlátrasköll í sjónvarpinu annað slagið, og þá hlæ ég hrossahlátri og veltist um af kátínu. Því hverjum er svosum ekki drullusama um hvað brandararnir snúast eða hvort þetta var sami brandari og oft áður, eða hvort Phoebe var að gera eitthvað ljóskulegt? Mér er svo andskotans sama. Ég heyri bara að dósahláturinn byrjar og þá get ég sko hlegið. Ég veit eins og er að það eru frískir og frumlegir Bandaríkjamenn sem semja sprenghlægilegt handrit fyrir þættina. Ég sit jafnvel við borðið mitt og læri heima, heyri dósahlátur, og hneggja af hlátri svo glymur í öllu Breiðholtinu og öskra: "BANDARÍKJAMENN ERU SVO FYNDNIR OG FRUMLEGIR!". Svo held ég bara áfram þar sem frá var horfið við lærdóminn.
Ég held að Bandaríkjamenn ættu bara að einbeita sér að því að borða hamborgara og fat free-franskar á Mc'donalds eins og þeir eru svo góðir í. Þeir mættu alveg sleppa því að framleiða meira af tilgerðardósahlátursgamanþáttum. Svo mættu þeir alveg sleppa því að bomba Írak. En það verður ekki á allt kosið.
Það eina sem horfandi er á á Skjá Einum er Jay Leno, hann er stundum ágætur. Hann sér líka heimskuna í eigin þjóðfélagi og gerir gys að. Hins vegar er annar spjallþáttastjórnandi sem sýndur var á Skjá Einum sem var mjög góður: Conan O'Brien. Ég vil gjarnan fá hann aftur á skjáinn. Svo ekki er allt sjónvarpsefni frá Bandaríkjunum alslæmt. Simpsons er líka alltaf klassískt.
Annað sem ég vil sjá meira af í sjónvarpi eru breskir gamanþættir. Þeir slá Bandaríkjamönnunum alltaf rækilega við í góðu gríni og kaldhæðni.
Fleira var það ekki.
|