fimmtudagur, 18. september 2003

Sauður

Karlinn eyddi bara síðustu helgi með rollum og ættingjum norður í Kelduhverfi. Þar gerðist ég smali, en göngur í Kelduhverfi eru árviss viðburður hjá mér. Ég fór ekki í réttir. Ég læt ekki hafa mig að fífli við svoleiðis bull. Réttir nú til dags eru mjög heimskulegar því sauðfé hefur fækkað svo mikið og fólki í réttunum að sama skapi fjölgað. Þannig að venjan núna er að fólk sé fleira í réttum en fé. Þannig að það er orðið rökréttara að kindurnar dragi fólkið í dilka í stað þess að fólk dragi þær í dilka. Fólk af sama sauðahúsi færi þá í sama dilk. Til hvers að fara í réttir til að draga eina rollu í dilk? Eða 1/3 rollu, það er örugglega u.þ.b. meðaltalið á mann. Svo var líka engin rétt að kvöldi til, bara að morgni og miðjum degi og þá er augljóslega minna fútt í þessu.

Göngurnar sjálfar gengu bara ágætlega. Það versta sem getur komið fyrir í göngum er að gleyma kindum. Þær eiga það til að vera lúmskar og fela sig bakvið hóla eða að þykjast vera snjóskaflar eða því um líkt. Fátt er leiðinlegra en að líta aftur á bak í göngum og sjá rollu fyrir aftan sig. Hún stendur þá og glottir og kjamsar á ljúffengu grasi. Þá á maður að segja við rolluna eitthvað á þessa leið:
"Jæja, þú heldur að þú sért sniðug. Þú munt ekki glotta svona þegar hausinn á þér verður orðinn að sviði og búkurinn á þér að lambahrygg.". Þá segir rollan:"Heyrðu, á ég að stanga þig, melurinn (meee-lurrh) þinn?" Þá segir maður "Bíddu, ertu að reyna að stofna til vandræða hérna" og sendir hund á eftir rollunni til að sækja hana. Þá segir rollan "Bíddu bara, ég mun hefna mín" og það þýðir að hún getur orðið enn erfiðari viðureignar í næstu göngum og á jafnvel eftir að stanga mann niður síðar. Ég var einmitt einu sinni þegar ég var yngri stangaður niður af hrút og það var alls ekki gaman.

Ég vil endilega geit á skólalóðina framan við MR eins og Tomasz P. Jack lagði fram tillögu um á skólafundi í fyrra. "Betra er geit en Gádinn" eins og Ari Eldjárn sagði á ræðunámskeiðinu. Og þetta er ekkert andskotans grín. Vonandi kemur tillagan aftur á næsta skólafundi og verður þá samþykkt og ekki væri ónýtt ef rektor samþykkti slíkt. Svo í frosthörkum og hríðarbyljum á veturna mætti geyma geitina í kjallaranum undir Gamla skóla. Og þessi 6500 kall sem maður borgar í Skólafélagið, ég held að eitthvað af honum mætti fara í fóður handa geitinni.