sunnudagur, 28. september 2003

Top Gangsta' boss in da hood

Breiðholtið hefur látið að sér kveða í glæpamenningunni undanfarið. Átök hafa blossað upp milli hópa við bensínstöðina Select, sjoppuna King Kong og víðar og ekki sér fyrir endann á brjálæðinu. Búið að rústa einni íbúð. Maður opnar blaðið og sér fyrirsagnirnar: "Hnífsstunga í Breiðholti", "Datt á línuskautum í Breiðholti og fékk tönn í vör", "Skemmdarverk á íbúð í Breiðholti", "Enginn verður óbarinn biskup á planinu fyrir framan King Kong", "Skotárás í Seljahverfi", "Handónýtur hasshaus úr Hólunum brýst inn í sjoppu" og svo mætti áfram telja.

Einhverjir komu á Select á föstudagskvöld með íslenska fánann, sjálfsagt er það hluti af átökum kynþátta sem hafa grasserað í gettóinu undanfarið. Afi segir mér frá Gúttóslagnum '34 en þegar ég verð afi mun ég væntanlega segja barnabörnunum frá Gettóslagnum '03. Svona breytast tímarnir.

Mér finnst mjög lélegt á bensínstöðinni Select hérna í Breiðholtinu hvað starfsfólkið er illa upplýst. Til dæmis ef fólk kemur þarna inn og spyr:"Hvenær byrja slagsmálin?". Að geta ekki svarað því er frekar slappt. Fólk fer bara að beina viðskiptum sínum annað ef starfsfólkið getur ekki haft svona grundvallaratriði á hreinu. Svo finnst mér að þeir hjá Select gætu nú staðið ögn betur að kynningarmálum og hugsanlega sett smáauglýsingu í Fréttablaðið svo hljóðandi:
SLAGSMÁL-SLAGSMÁL!
Allir sem vettlingi geta valdið mæti framan við Select, Breiðholti. Mæting stundvíslega klukkan 24:00 föstudagskvöld. Samkvæmisklæðnaður ekki áskilinn. Eggvopn áskilin. Frítt inn og opið öllum aldurshópum. Gos og SS-pylsur í boði fyrir alla.

Select gæti grætt á því. Já, maður.

...nah.