mánudagur, 8. september 2003

Krakkaóféti og skitið í sandkassa

Þessir krakkar nú til dags. Áðan kom eitthvað stórt sendibréf inn um bréfalúguna, fullt af mold og laufblöðum. Á bréfinu stóð skrifað með krakkaskrift Gudmundur. Prakkarastrik? Þessi krakkar halda að þeir séu svo sniðugir. En þeir eru ekkert sniðugir. Það er ekkert gaman að lenda í svona prakkarastrikum. En ég var hins vegar sniðugur þegar ég var lítill og gerði prakkarstrik. Gömlu tímarnir. Ég man nú þegar við krakkarnir tróðum heyi inn um gluggana á húsinu hjá Guðlaugi og Höllu og þegar við rifum upp hríslur í garði hjá einhverju fólki og hentum inn í annan garð. Svo ekki sé minnst á þegar við fengum lánaða tómatsósu hjá Möggu og Jobba og egg hjá Guðlaugi og Höllu og lugum því að þeim að mömmur okkar vantaði efni í baksturinn. Síðan drullumölluðum við úr öllu klabbinu. Best af öllu var samt þegar ég var þriggja ára og fór á leikvöllinn og skeit í sandkassann. Ég sá að kettirnir voru oft að skíta þarna og hugsaði: "Af hverju ekki ég?" og svo skeit ég. Þarna erum við að tala um fyndin og skemmtileg prakkarastrik. Mömmu fannst hins vegar ekki fyndið þegar ég skeit í sandkassann og þreif skítinn upp. En það er bara af því að hana skortir alla kímnigáfu.

En þessi börn nú til dags eru bara illa upp alin óféti. Minnstu ekki á það ógrátandi.