fimmtudagur, 25. september 2003

Hlandbrunnið braggabarn í barnavagni (vælir úti í veðri og vindum)

Já, ég ætti kannski að nefna það að titillinn er fenginn úr textabrunni Megasar.

Gunnar í Krossinum var á Stöð 2 áðan og fór mikinn. Mætti hann Þórhalli nokkrum miðli í kappræðum. Gunnar þóttist vita allt um það hvað væri Guði þóknanlegt og hvað ekki. Hann gekk meira að segja svo langt að kalla Þórhall útsendara djöfulsins þar sem Þórhallur teldi sig ná sambandi við æðri öfl. Gunnar þykist vera mjög heilagur og á Guðs vegum. Ég held að hann ætti þá ekkert að vera að dæma einhverja menn útsendara djöfulsins bara si svona. Gunnar var á því að það sem Þórhallur gerði væri Guði ekki þóknanlegt. Ég spyr: Er það sem Gunnar gerir eitthvað frekar Guði þóknanlegt?

Svo talaði hann um það að ef Þórhallur hætti í sínu starfi og iðraðist fyrirgæfi Guð honum. Það var nú aldeilis munur fyrir Þórhall.

Einhvurn tímann sá ég Gunnar í Krossinum á bensínstöð á Hvolsvelli með fjölskyldu sinni á stórum jeppa. Eru Guðs vegir kannski ekki færir nema á stórum jeppum? Gunnar ætti kannski að svara því. Gunnar ætti nú að geta lesið það út úr Biblíunni því flest virðist hann geta túlkað með henni. Já, ég reikna alveg eins með því að greinin um að Guðs vegir séu bara færir jeppum og að Þórhallur sé útsendari djöfulsins sökum starfa síns sé í Matt. 4:2, en ég þori ekki alveg að fara með það. Gunnar veit sjálfsagt meira um það.