mánudagur, 29. nóvember 2004

Gagnrýni:Bridget Jones 2

Nei, ég fór ekki á Bridget Jones 2 um helgina. Það var yfirdrifið nóg að sjá trailerinn um daginn. Trailerinn fær 0,0.

sunnudagur, 28. nóvember 2004

Besti leikur Liverpool í mjög langan tíma

Ég hef sjaldan verið ánægðari með spilamennsku Liverpool en í dag. Þeir unnu smjörkúkana í Arsenal verðskuldað 2-1. Á síðustu mínútu leiksins var staðan enn 1-1, ég staðinn upp úr stólnum af spenningi, síðan kom Mellor litli og bombaði helvítinu neðst í netið fram hjá Lehmann. Menn ærðust úr fagnaðarlátum.

Staða liðsins í deildinni er samt ekkert beisin, en gott að bregða fæti fyrir Arsenal í meistarabaráttunni.

laugardagur, 27. nóvember 2004

Setti inn tengil á þá þingeyinga, Svenna og Kára. Þeir eru ferskir. Mun breyta og bæta enn frekar einn daginn.

Simpsons samanborið við Friends

Ég þurfti að horfa á einhvern helvítis þrefaldan Friends lokaþátt í enskutíma í gær. Þetta eru svo lélegir þættir að mig sundlar. Það fer í mig að þetta sé jafn vinsælt og raun ber vitni. Flestum öðrum í bekknum fannst þetta æðisgengið en ég kaus að detta út í tíma og ótíma á meðan horbjóðurinn var í gangi. Í þau skipti sem ég datt inn var eitthvað hundleiðinlegt að gerast. "Ooo, Phoebe er svo fyndin!" Þessi fokkin Lisa Kudrow (phoebe) er ömurleg leikkona og fæ ég alveg upp í kok af persónunni í þættinum. Þessi aulalegi Ross er ekki mikið skárri, jafnvel verri, ofsalega heimskur og ofsalega leiðinlegur með lélegan húmor. Húmorinn í þessari sápuóperu er ömurlegur almennt og út yfir allan þjófabálk. Það er fyrir löngu kominn tími á að senda Friends í bað og helst að láta þá hafa brauðrist með sér.

Simpsons á það sameiginlegt með Friends að vera afar vinsæll um gjörvallan heim. Það er skiljanlegt, þetta eru mjög góðir þættir og húmorinn oft geggjaður. Margar persónurnar í þættinum samsvara persónum sem maður kannast við úr raunveruleikanum eða eiga margt sameiginlegt með þeim. Skemmtilega teiknaðir líka. Þetta hef ég horft á frá því ég var 5-6 ára og alltaf eru þeir jafngóðir. Man að ég tók mjög snemma eftir að síðhærði dökkhærði skólarútubílstjórinn minnti mig töluvert á einn frænda minn.

Fór á fimmtudagsfokk Hins hússins á fimmtudagskvöld.

Orð sem koma upp í hugann:
Vafasamt.
Fúskarar.
Skítamix.
Óhljóð.

Síðhærðir menn garga í míkrafón. Síðhærðir menn berja gítara. Síðhærðir ofvirkir menn berja trommur.

Ekki aftur.

miðvikudagur, 24. nóvember 2004

Klúður í pontu

Gaman að rifja upp atburð úr minni fyrstu ræðukeppni, sem var í fyrra:
Andstæðingarnir höfðu sagt samhengislaust bull í sínum ræðum, gjörsamlega ótengt umræðuefninu. Ég hafði mína punkta á blaði sem ég ætlaði að tala út frá (sem mistókst herfilega og ég las bara punktana og síðan voru þagnir á milli). Andstæðingarnir töluðu um hamstrafjölskyldu í Breiðholti og gíraffa og e-ð en umræðuefnið var mömmur. Ég hugsaði upp svar við bulli andstæðinganna en þegar komið var upp í pontu mundi ég ekert hvað það var. Útkoman var:

"Þeir hafa ruglað tóma steypu í dag, hamstrafjölskylda og gíraffar o.fl. vafasamt og.............ég hef bara ekkert svar við þessu"

Þetta orsakaði að salurinn sprakk úr hlátri. Uss.

Rakarinn

Ég fór til rakara í dag. Hef ekki farið í háa herrans tíð í klippingu. Lét snoða mig í júní og ekkert hefur verið skert síðan. Þetta var gamall rakari af gamla skólanum. Hann spurði um ýmislegt, m.a. hvað ég ætlaði að gera eftir menntaskólann. Það vissi ég ekkert um. Þá spurði hann hvort ég ætlaði ekki í læknisfræði eftir MR. Ég sagði að það kæmi ekki til greina því ég væri með fóbíu fyrir ýmsu tengdu spítölum. Þá hló karl hrossahlátri og sagði "Já, þig langar ekkert að sulla í blóði" "Nei, ekki sérstaklega".

Svo tjáði hann sig um rökræðukeppni framhaldsskólanna "Æi, ég sá e-n tímann svona keppni og fannst þetta ægilega heimskulegt. Einhverjar litlar stelpur skiptast á að fara í pontu og öskra á hver aðra "þú ert asni!". Ég svaraði að það væru nú kannski ekki allir ræðumenn á menntaskólaaldri þannig. Hló karl og sagði að það tækist samt mest eftir þeim. Það var mikið til í þessu hjá honum.

Svo fór hann allt í einu að tala um stoðtækjafyrirtækið Össur og sagði "magnað fyrirbæri, mannslíkaminn...sástu ekki þarna um nýja gervihnéð frá Össuri í fréttunum" "Nei" Svo lék hann fyrir mig hvernig gervihnéð virkaði og sagði að það hefði bara 30% þess sem venjulegt hné hefði.

Að lokum sagði hann mér ömurlegan ljóskubrandara sem ég hef heyrt áður, en öðlaðist hann nýtt líf í meðförum rakarans sem auðvitað rak upp hláturroku eftir að hafa sagt hann. Ég gat ekki annað en hlegið líka.

Gefið að ég fer aftur á þessa gamaldags rakarastofu í Vesturbænum.

Einkunn: 9,5.

þriðjudagur, 23. nóvember 2004

Ómetanlegt

Vorum sendir út í slabbið í fótbolta í leikfimi. Runnum á rassgatið. Kvennóstelpurnar vildu ekki vera með þrátt fyrir boð þar að lútandi. Bíði þær þar til við bjóðum þeim næst.

mánudagur, 22. nóvember 2004

Tap síðasta ársfjórðungs

Lestur síðunnar hefur minnkað í réttu hlutfalli við minni tíðni færslna. Einu sinni voru 30 manns að meðaltali á dag. Nú er það orðið mun minna. Ég hef ekki verið með netið heima í marga mánuði og er það aðalorsök hnignunar.

Eftirmáli uppþots á Landsspítala

Nú er ég búinn að í ómskoðun. Var ekki ólettur. Rukkaður 8000 krónur. Nokkrum dögum seinna fór ég í læknisviðtal. Læknirinn vissi ekkert en rukkaði engu að síður 3500 krónur. Ég sagði honum eins og ég hafði þurft að segja öllum hinum, hvað hefði gerst í spítalaheimsókninni örlagaríku til afa. Ekkert að mér.

Niðurstaða: Útskrifaður alheilbrigður en tæpum 20.000 krónum fátækari.

fimmtudagur, 18. nóvember 2004

Keppti í Sólbjarti í gær. Var búinn að skrifa sæmilega færslu hérna en hún eyðilagðist út af Blogger. Góð keppni. Var í liði með Frikka Hirst, sterkasta manni heims (Hauki) og Gummi P var liðsstjóri. Frikki ræðumaður skammdegisins verðskuldað. Átti bestu svörin í keppninni. Ég skeit ekki illilega á mig eins og í fyrra. Klúðraði samt aðeins flutningnum á fyrri ræðunni út af stressi sem gerði vart við sig þegar helvíts ræðupúltið datt í sundur. Ótrúlega mörg stig gefin í keppninni. Björn Leó og Jón Eðvald í liði andstæðinganna voru með lélegan húmor í sínum ræðum en fluttu þær vel. Pajdak tók "d-d-d-d-d-dDJ Amma" sem fáir föttuðu en ég, Henrik, Birkisson Bisniss og Grettir hlógum allavega að því. Einkahúmor.

Dólgarnir í hinu liðinu unnu því miður. Hefði gjarnan viljað keppa aðra keppni. Dólgarnir reyndari í að flytja en ræðurnar þeirra voru ekki betri á heildina þó það hafi kannski ekki munað miklu.

Samtal - áhugamál

Eftirfarandi samtal átti sér stað milli tveggja manna.
Maður1: "Hver eru áhugamál þín?"
Maður2: "Klám."
Maður1: "Eitthvað fleira?"
Maður2: "Nei."

Skemmtilegur, þessi Maður2. Fólk vill strax vita meira.

DJ Nöldró

Djöfulsins stólar hérna í tölvustofunni. Hver stillir stólbakið þannig að það halli 170°. Djöfulsins helvíti ,ég fékk 6,6 fyrir íslenskuritgerð hjá Ásgerði. Mér er gjörsamlega misboðið. Aldrei lægra. Á ég að þurfa að senda þessa ritgerð með atvinnuumsókn í framtíðinni? Djöfulsins andskotans helvíti. Djöfulsins tannlæknirinn rukkaði mig 5500 krónur. Bíddu, rán um hábjartan dag?

DJ Nöldró, alltaf í stuði.

Það verður ekki mikið meira um þann mann á þessari síðu.

sunnudagur, 14. nóvember 2004

Big Lebowski er ekki slæm mynd.

Bakþankaritarar Fréttablaðsins eru margir ótrúlega lélegir. Þráinn Bertelsson er í uppáhaldi hjá mörgum. Það finnst mér óskiljanlegt. Maður sem skrifar endalaust um "Bússa" og "Dóra" og sandkassa þeirra og allt í þeim dúr. Fíla ekki Þráinn.

Guðmundur Steingrímsson er aftur á móti frábær bakþankaritari. Góður pistill um nef um daginn og oft sér hann skemmtilegar hliðar á málum.

Guðbergur Bergsson er oft góður.

Jón Gnarr er brokkgengur. Stundum góður en á til að detta í eitthvað rugl.

Sigurjón M. Egilsson er held ég hættur enda var hann með lélegustu pistlana.

Kristín Helga er ekki i uppáhaldi.

laugardagur, 13. nóvember 2004

Kínverjar

Kínverjar eru fyndnir. Á föstudagskvöldið var bjór drukkinn á heimili nafna Líndals áður en farið var á Gauk á stöng. Horft var á B-mynd á SkjáEinum sem heitir Dragon: story of Bruce Lee og sonur Bruce leikur aðalhlutverkið. Söguþráðurinn var lítill sem enginn en skemmtanagildið þeim mun meira. Aðalhetjan var svakabardagahetja og lumbraði á hinum og þessum með kung-fu.

Maus í Austurbæ, Kopps og Mors Elling

Fór á bestu tónleika sem ég hef farið á um daginn, útgáfutónleika Maus í Austurbæ. Tóku sín vinsælustu lög og meira til. Upphitunaratriðið var reyndar hörmung. Trúbadorinn Þórir steig á stokk. Hann var stressaður og söng ótrúlega illa og leiðinlega, en gat svosum glamrað á gítarinn. Eftir tvö eða þrjú lög sagði hann hve mikill heiður þetta væri fyrir hann, að hita upp fyrir Maus, eitt af stærstu og bestu böndum landsins því hann væri "bara einhver aumingi út í bæ". Hann hefði ekki getað náð betur því sem áhorfendur hugsuðu og uppskar hlátur. Maus voru frábærir og hljóðkerfið gott. Nýju lögin lofa góðu og órafmagnaði kaflinn var mjög góður. Innslög Bigga milli laga lögðust vel í lýðinn.

Einkunn: 9,87.

Kopps er sænsk gamanmynd sem hefur fengið góða dóma og er sýnd á norrænum kvikmyndadögum í Háskólabíói, sem lýkur á mánudagskvöld. Fjallar um löggur í sænsku Fáskrúðsfirði sem taka til sinna ráða þegar á að loka stöðinni þeirra út af 0% glæpatíðni á svæðinu. Frá Fares Fares sem gerði Jalla! Jalla! Mjög góð.

Einkunn: 9,0.

Mors Elling er sjálfstætt framhald Elling og fjallar um för hins léttþroskahefta Ellings með móður sinni til Spánar. Stórkemmtileg.

Einkunn: 8,91.

Nákvæmt.

Biðtónlist og leiðindi á Aktu taktu

Fyrir skömmu fór ég á Aktu taktu en ók þó ekki og tók heldur át inni á staðnum, sem er vafasamt. Afgreiðslukerlingin rukkaði 800 krónur fyrir illa þefjandi, sóðalega og vonda smloku með osti og kokteilsósu ásamt smá frönskum og smá pepsi. Hvað á þessi biðtónlist á staðnum að þýða? Þetta þurfti ég að þola á meðan ég reyndi að svæla hroðbjóðnum.

Ég held að Aktu taktu séu með þroskaheftan mann í vinnu sem spilar á trekant, eða kannski "My first"- hljómborð frá Sony. Nei, þetta var ljótt.

Biðtónlistin er ekki vinsæl.

sunnudagur, 7. nóvember 2004

Uppþot á Landsspítala

Síðastliðið miðvikudagskvöld fór ég að heimsækja afa minn, sem nú liggur á Landsspítalanum í Fossvogi. Afi var þó nokkuð brattur og spjallaði við okkur heimsækjendur. Inni á stofunni var ansi heitt og þungt loft. Ég hef aldrei verið þekktur fyrir að hafa dálæti á spítölum, sprautum og fleira í þeim dúr.

Skyndilega leið mér illa, ég svitnaði og varð náfölur í framan og sortnaði fyrir augum. Amma (sem einnig var í heimsókn) tók eftir ástandi mínu og spurði:"Er ekki allt í lagi Guðmundur minn?" "Nei" svaraði ég. Ég dreif mig út af stofunni en komst ekki nema tvö eða þrjú skref og síðan BAMM! Það leið yfir mig og ég skall utan í afgreiðsluborð á ganginum. Rankaði hins vegar strax við mér liggjandi í gólfinu við hliðina á afgreiðsluborðinu. Hjúkrunarfólk var snöggt á vettvang. Fyrr en varði voru 10 heilbrigðisstarfsmenn komnir í kring um mig. Ég var spurður fram og aftur um líðan og hvað hefði gerst og hitt og þetta. Svo komu reynslusögur á færibandi: "Ég á tvær dætur sem eru svona" "Ég hef einu sinni lent í þessu" og fleira. Held að það hafi átt að hughreysta mig. Læknir hringdi á bráðamóttökuna og lét vita af ungum manni sem skollið hefði í gólfið eftir heimsókn til afa síns. Svo fékk ég eplasafa til hressingar. Eftir skamma stund kom maður með sjúkrarúm á hjólum og ég var studdur í það (þrátt fyrir að ég gæti labbað sjálfur). Síðan rúllaði maðurinn (sem var mjög vafasamur og angandi af reykingalykt) mér hratt um ganga sjúkrahússins og ég sá alls konar andlit fólks í hvítum sloppum stara á mig á meðan ég þaut um gangana. Minnti mig ótrúlega mikið á Bráðavaktina. Hjúkrunarkona opnaði eina stofuna, kveikti ljósið og sagði: "úbbs! Hér er sjúklingur" og lokaði aftur. Sá sjúklingur hefur sennilega gleymst.

Svo fannst tóm stofa og þangað var mér rúllað. Alls konar snúrur og nemar voru tengd við mig og blóðþrýsingsmæling gerð. Blóðþrýstingur var í lagi. Ungur læknir kom inn og bað mig að lýsa hvað hefði gerst. Allt benti til að vako vasal viðbragð væri orsök yfirliðsins. En það er fræðiheiti yfir svona sprautuspítalafóbíu (og ekkert hægt að gera við því nema passa að setjast ef áhrifa fer að gæta). Læknirinn gerði taugapróf á mér til öryggis: veifaði penna sem ég átti að horfa á, lét mig gretta mig og reka út tunguna og alls kyns vitleysu. Allt var eðlilegt. Annar læknir kom inn. Ákveðið var að taka líka hjartalínurit til öryggis. Niðurstöður voru eðlilegar. Blóðþrýstingurinn var mældur oft til öryggis. Hann var í lagi. Heimsóknin sem átti að standa í hálftíma endaði sem rúmra tveggja klukkustunda rannsókn. Ekki nóg með það. Ég var boðaður í ómskoðun í næstu viku til öryggis en ómskoðun er það sem óléttar konur eru sendar í.

Mér leið hálfpartinn eins og alheilbrigðum manni að gera úttekt á heilbrigðiskerfinu. Sérstaklega út af því hve mikið var gert til öryggis. Heilbrigðisfulltrúinn frá eftirlitinu að gera hina árlegu úttekt.

Gefið: 8,0 fær þessi langa spítalaheimsókn. Mest fyrir óvænta atburðarás og endi.

Esso

Dældi á bílinn áðan á Esso. Nú hefur mikið verið fjallað um verðsamráð olíufélaganna. Allir eru rosalega hneykslaðir og fussa. 95 oktan var held ég á 106 og e-ð lítrinn. Öll þessi læti út af forstjórunum sem töluðu sig saman. En er andskotans verðsamráðið ekki ennþá í gangi? Engum hefur dottið það í hug. Allir halda að þetta sé búið spil eftir lætin undanfarið. Verðsamráðið er pottþétt ennþá í gangi og mun festa sig í sessi sem órjúfanlegur þáttur bensínmarkaðarins.

þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Smíðakennarinn trallandi

Um daginn kenndi forfallakennari mér efnafræði. Hann var afar ferskur og lá í bröndurunum. Þegar hann las upp hóf hann skyndilega upp raust sína eftir að haf lesið nafn einnar bekkjarsystur minnar og söng hástöfum um hana. Hress tappi.

Forfallakennarinn minnti mig á smíðakennara sem ég hafði í grunnskólanum í sveitinni. Sá söng í hverjum einasta tíma um nemendur. Alltaf þegar ég rétti upp hönd og ætlaði að fá hjálp við smíðisgrip minn hóf karlinn að syngja. Hann söng "Hann heitir Guðmundur og segir doijoijoijoij, hann er úr járni og segir doijoijoijoijoij" Þeir sem þekkja þetta lag vita að maðurinn í laginu heitir Árni en ekki Guðmundur. En smíðakennaranum trallandi var skítsama um það. Ein bekkjarsystir mín hét Margrét. Þegar hún bað um aðstoð söng maðurinn "Magga, í bragga læðist út um glugga..." og ef hún endurtók aðstoðarbeiðni sína söng smíðkennarinn bara sem aldrei fyrr "..í vetur betur gekk henni...".

Það var nokkuð erfitt að eiga við kennarann á köflum en samt sem áður skemmtilegur maður.

Dr Pepper og rauðar tannlæknatöflur

Margir kannast við rauðu tannlæknatöflurnar. Gömlu góðu dagarnir í grunnskóla þegar "tannverndarfulltrúinn" mætti og fræddi nemendur um tannhirðu. Svo fengum við blöð og við blöðin var heftuð rauð tafla sem tyggja mátti til að fylgjast með tannhirðu sinni. Nema hvað, töflur þessar voru frábærar á bragðið. Ég lá eins og gammur í þessum töflum á þessu aldri. Hnuplaði jafnvel töflum annarra í bekknum. Fleiri voru hrifnir af töflunum. Töflurnar voru mjög eftirsóttar á sínum tíma, a.m.k. í sveitinni, þar sem ég bjó.

Um daginn bragðaði ég á gosdrykknum Dr Pepper í fyrsta skipti. Aldrei hafði ég þorað að bragða á þessum drykk því ég hélt alltaf að þetta væri gos með piparbragði, sem hljómar mjög illa. Svo var mér boðinn slíkur drykkur um daginn sem ég þáði með þökkum. Viti menn, bragðaðist ekki líkt pipar heldur einmitt líkt bragðinu af gömlu góðu rauðu tannlæknatöflunum. Djöfulsins sveifla eins og menn segja.

Súmóglíma

Nú er nýbúið að fá gervihnattardiskinn á nýja heimilinu til að virka. Datt ég líka ekki inn á dúndurgóða súmóglímu á þýska Eurosport. A.m.k 20 belgir voru að keppa. Vinsælt var að veðja á annan keppenda í hverri glímu "veðja á rauðbróka" eða "veðja á blábróka" eftir litum brókanna. Þrír þeirra voru ekki með nein brjóst, eða á súmómælikvarða "aumingjar". Þeim var svoleiðis dúndrað út í áhorfendastúkur þegar þeir kepptu við drumbana.

Það var líka frábært að sjá að þetta voru ekki allt heilalausir hlunkar. Nokkrir voru með frábæra tækni og smeygðu sér undan þegar andstæðingurinn ætlaði að þruma þeim niður eða út úr hring.

Auðvitað voru öll fíflin með eins hárgreiðslu og maður spyr sig: er skylda að vera um hausinn eins og kínversk kerling? Af hverju er enginn súmókappi snoðaður. Laga þetta.

mánudagur, 1. nóvember 2004

Mesti dólgur ensku úrvalsdeildarinnar er tvímælalaust Robbie Savage, Birmingham. Síðhærður slubbi sem skeit einu sinni á dómaraklósetti fyrir leik og skildi eftir sig suddalykt. Svo hefur hann víst látið hafa eftir sér að henn dýrki að pirra andstæðinga sína.

Hljómar eins og lýsing á hálfvita.