sunnudagur, 7. nóvember 2004

Uppþot á Landsspítala

Síðastliðið miðvikudagskvöld fór ég að heimsækja afa minn, sem nú liggur á Landsspítalanum í Fossvogi. Afi var þó nokkuð brattur og spjallaði við okkur heimsækjendur. Inni á stofunni var ansi heitt og þungt loft. Ég hef aldrei verið þekktur fyrir að hafa dálæti á spítölum, sprautum og fleira í þeim dúr.

Skyndilega leið mér illa, ég svitnaði og varð náfölur í framan og sortnaði fyrir augum. Amma (sem einnig var í heimsókn) tók eftir ástandi mínu og spurði:"Er ekki allt í lagi Guðmundur minn?" "Nei" svaraði ég. Ég dreif mig út af stofunni en komst ekki nema tvö eða þrjú skref og síðan BAMM! Það leið yfir mig og ég skall utan í afgreiðsluborð á ganginum. Rankaði hins vegar strax við mér liggjandi í gólfinu við hliðina á afgreiðsluborðinu. Hjúkrunarfólk var snöggt á vettvang. Fyrr en varði voru 10 heilbrigðisstarfsmenn komnir í kring um mig. Ég var spurður fram og aftur um líðan og hvað hefði gerst og hitt og þetta. Svo komu reynslusögur á færibandi: "Ég á tvær dætur sem eru svona" "Ég hef einu sinni lent í þessu" og fleira. Held að það hafi átt að hughreysta mig. Læknir hringdi á bráðamóttökuna og lét vita af ungum manni sem skollið hefði í gólfið eftir heimsókn til afa síns. Svo fékk ég eplasafa til hressingar. Eftir skamma stund kom maður með sjúkrarúm á hjólum og ég var studdur í það (þrátt fyrir að ég gæti labbað sjálfur). Síðan rúllaði maðurinn (sem var mjög vafasamur og angandi af reykingalykt) mér hratt um ganga sjúkrahússins og ég sá alls konar andlit fólks í hvítum sloppum stara á mig á meðan ég þaut um gangana. Minnti mig ótrúlega mikið á Bráðavaktina. Hjúkrunarkona opnaði eina stofuna, kveikti ljósið og sagði: "úbbs! Hér er sjúklingur" og lokaði aftur. Sá sjúklingur hefur sennilega gleymst.

Svo fannst tóm stofa og þangað var mér rúllað. Alls konar snúrur og nemar voru tengd við mig og blóðþrýsingsmæling gerð. Blóðþrýstingur var í lagi. Ungur læknir kom inn og bað mig að lýsa hvað hefði gerst. Allt benti til að vako vasal viðbragð væri orsök yfirliðsins. En það er fræðiheiti yfir svona sprautuspítalafóbíu (og ekkert hægt að gera við því nema passa að setjast ef áhrifa fer að gæta). Læknirinn gerði taugapróf á mér til öryggis: veifaði penna sem ég átti að horfa á, lét mig gretta mig og reka út tunguna og alls kyns vitleysu. Allt var eðlilegt. Annar læknir kom inn. Ákveðið var að taka líka hjartalínurit til öryggis. Niðurstöður voru eðlilegar. Blóðþrýstingurinn var mældur oft til öryggis. Hann var í lagi. Heimsóknin sem átti að standa í hálftíma endaði sem rúmra tveggja klukkustunda rannsókn. Ekki nóg með það. Ég var boðaður í ómskoðun í næstu viku til öryggis en ómskoðun er það sem óléttar konur eru sendar í.

Mér leið hálfpartinn eins og alheilbrigðum manni að gera úttekt á heilbrigðiskerfinu. Sérstaklega út af því hve mikið var gert til öryggis. Heilbrigðisfulltrúinn frá eftirlitinu að gera hina árlegu úttekt.

Gefið: 8,0 fær þessi langa spítalaheimsókn. Mest fyrir óvænta atburðarás og endi.