þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Dr Pepper og rauðar tannlæknatöflur

Margir kannast við rauðu tannlæknatöflurnar. Gömlu góðu dagarnir í grunnskóla þegar "tannverndarfulltrúinn" mætti og fræddi nemendur um tannhirðu. Svo fengum við blöð og við blöðin var heftuð rauð tafla sem tyggja mátti til að fylgjast með tannhirðu sinni. Nema hvað, töflur þessar voru frábærar á bragðið. Ég lá eins og gammur í þessum töflum á þessu aldri. Hnuplaði jafnvel töflum annarra í bekknum. Fleiri voru hrifnir af töflunum. Töflurnar voru mjög eftirsóttar á sínum tíma, a.m.k. í sveitinni, þar sem ég bjó.

Um daginn bragðaði ég á gosdrykknum Dr Pepper í fyrsta skipti. Aldrei hafði ég þorað að bragða á þessum drykk því ég hélt alltaf að þetta væri gos með piparbragði, sem hljómar mjög illa. Svo var mér boðinn slíkur drykkur um daginn sem ég þáði með þökkum. Viti menn, bragðaðist ekki líkt pipar heldur einmitt líkt bragðinu af gömlu góðu rauðu tannlæknatöflunum. Djöfulsins sveifla eins og menn segja.