miðvikudagur, 24. nóvember 2004

Rakarinn

Ég fór til rakara í dag. Hef ekki farið í háa herrans tíð í klippingu. Lét snoða mig í júní og ekkert hefur verið skert síðan. Þetta var gamall rakari af gamla skólanum. Hann spurði um ýmislegt, m.a. hvað ég ætlaði að gera eftir menntaskólann. Það vissi ég ekkert um. Þá spurði hann hvort ég ætlaði ekki í læknisfræði eftir MR. Ég sagði að það kæmi ekki til greina því ég væri með fóbíu fyrir ýmsu tengdu spítölum. Þá hló karl hrossahlátri og sagði "Já, þig langar ekkert að sulla í blóði" "Nei, ekki sérstaklega".

Svo tjáði hann sig um rökræðukeppni framhaldsskólanna "Æi, ég sá e-n tímann svona keppni og fannst þetta ægilega heimskulegt. Einhverjar litlar stelpur skiptast á að fara í pontu og öskra á hver aðra "þú ert asni!". Ég svaraði að það væru nú kannski ekki allir ræðumenn á menntaskólaaldri þannig. Hló karl og sagði að það tækist samt mest eftir þeim. Það var mikið til í þessu hjá honum.

Svo fór hann allt í einu að tala um stoðtækjafyrirtækið Össur og sagði "magnað fyrirbæri, mannslíkaminn...sástu ekki þarna um nýja gervihnéð frá Össuri í fréttunum" "Nei" Svo lék hann fyrir mig hvernig gervihnéð virkaði og sagði að það hefði bara 30% þess sem venjulegt hné hefði.

Að lokum sagði hann mér ömurlegan ljóskubrandara sem ég hef heyrt áður, en öðlaðist hann nýtt líf í meðförum rakarans sem auðvitað rak upp hláturroku eftir að hafa sagt hann. Ég gat ekki annað en hlegið líka.

Gefið að ég fer aftur á þessa gamaldags rakarastofu í Vesturbænum.

Einkunn: 9,5.