laugardagur, 27. nóvember 2004

Simpsons samanborið við Friends

Ég þurfti að horfa á einhvern helvítis þrefaldan Friends lokaþátt í enskutíma í gær. Þetta eru svo lélegir þættir að mig sundlar. Það fer í mig að þetta sé jafn vinsælt og raun ber vitni. Flestum öðrum í bekknum fannst þetta æðisgengið en ég kaus að detta út í tíma og ótíma á meðan horbjóðurinn var í gangi. Í þau skipti sem ég datt inn var eitthvað hundleiðinlegt að gerast. "Ooo, Phoebe er svo fyndin!" Þessi fokkin Lisa Kudrow (phoebe) er ömurleg leikkona og fæ ég alveg upp í kok af persónunni í þættinum. Þessi aulalegi Ross er ekki mikið skárri, jafnvel verri, ofsalega heimskur og ofsalega leiðinlegur með lélegan húmor. Húmorinn í þessari sápuóperu er ömurlegur almennt og út yfir allan þjófabálk. Það er fyrir löngu kominn tími á að senda Friends í bað og helst að láta þá hafa brauðrist með sér.

Simpsons á það sameiginlegt með Friends að vera afar vinsæll um gjörvallan heim. Það er skiljanlegt, þetta eru mjög góðir þættir og húmorinn oft geggjaður. Margar persónurnar í þættinum samsvara persónum sem maður kannast við úr raunveruleikanum eða eiga margt sameiginlegt með þeim. Skemmtilega teiknaðir líka. Þetta hef ég horft á frá því ég var 5-6 ára og alltaf eru þeir jafngóðir. Man að ég tók mjög snemma eftir að síðhærði dökkhærði skólarútubílstjórinn minnti mig töluvert á einn frænda minn.