föstudagur, 4. febrúar 2005

Ofsóknir Útvarpsréttarnefndar

Það nýjasta er að Skjár Einn megi ekki sýna enska boltann með enskum þulum. Útvarpsréttarnefnd komst að þeirri niðurstöðu. Þorsteinn Gunnarsson sendi þeim erindi þar sem hann spurðist fyrir um lögmæti lýsinganna.

Hvers vegna komust þeir ekki að þessu fyrr? Þessar ensku lýsingar hafa verið á leikjum síðan snemma síðastliðið haust.

Rökin fyrir þessari ákvörðun eru mjög þunn. Útvarpslög kveða víst á um að þetta sé ólöglegt. Hafa útvarpslög breyst síðan í haust? Hvernig getur þetta allt í einu verið ólöglegt núna? Ef það er rétt þá þarf einfaldlega að breyta þessum lið útvarpslaga og þó fyrr hefði verið. Svo er það málverndunarstefnan. Þau rök eru mjög ankanaleg. Nóg er nú víst fyrir af erlendu efni sem fólk horfir á óíslenskað. Þetta þarf að vera á íslensku svo allir skilji. Óþolandi bull. Þeir sem ekki skilja ensku og hafa áhuga á enska boltanum eru lítill minnihlutahópur. Á kannski næst að banna sjónvarp af því að blindir geta ekki horft á það?

Þar að auki eru ensku þulirnir oftast meiri fagmenn en þeir íslensku og skemmtilegra að hlusta á þá.