laugardagur, 5. febrúar 2005

Kveikt í tunglinu

Á þriðjudagskvöld sat ég við eldhúsborðið með fjórar ristaðar brauðsneiðar með smjöri og osti og gæddi mér á. Dyrabjallan hringdi. Tveir geðveikir menn (Henrik og Tómas) stóðu í dyrunum og sögðu mér að koma út, þeir væru að verða of seinir á stjörnufræðifyrirlestur. Ég skildi ekki æsinginn yfir slíku en samþykkti þó að fara.

Náðum á fyrirlesturinn í tæka tíð. Veitingar voru í boði; kaffi og hraunbitar. Svo hófst fyrirlesturinn og Sverrir Guðmundsson talaði um stjörnufræði af áhuga og kunnáttu. Frábært var að sjá hve mikinn áhuga fundarmenn höfðu á þessu. Ég setti upp gleraugun og spekingssvipinn og þóttist hafa gríðarlegan áhuga líka. Margir fundarmanna réttu upp hönd og komu með fróðleiksmola sem þeir höfðu sankað að sér. Svo var einn sem punktaði meira að segja niður hjá sér það markverðasta og hlógum við að honum. Á eftir Sverri kom Sævar og hélt áfram stjörnufræðitali. Hann var mjög fyndinn af því að hann var svo geðveikur. Hann skaut því m.a. að hve heimskulegt stríð Bandaríkjamanna í Írak væri og að milljarðar á milljarða ofan hefðu farið í stríðsreksturinn. Þessum milljörðum væri miklu betur varið í geimrannsóknir, það væri svo mikið sem ætti eftir að kanna þarna uppi. "Þegar ég verð orðinn yfirmaður NASA..." sagði hann og var greinilega með háleit markmið. Önnur frábær setning frá honum: "Ef það væri meira súrefni á tunglinu væri rosalega gaman að prófa að kveikja í því". Ýmsir draumórar og hlógum við að því öllu saman. Þeir félagar höfðu líka miklar áhyggjur af ljósmengun í borginni og þótti hún nú alveg vera búin að skíta á sig í þeim efnum og að stjörnuskoðunarmenn hefðu ekkert almennilegt athvarf í borginni. Sævar hvatti síðan fundarmenn til að mæta á fund um ljósmengun sem yrði á næstunni.

Þetta var frábær fundur og sérstaklega var gaman að sjá fólkið sem sótti hann.´Ég setti inn tengla á kappana tvo.Posted by Hello

Svona var umhorfs á fyrirlestrinum.