þriðjudagur, 1. febrúar 2005

Afi ökumaður

Afi minn hefur frá ómunatíð verið frábær ökumaður. Í seinni tíð hefur að vísu aðeins fjarað undan aksturshæfileikum hans. Í fyrra ók hann um vegina í sveitinni eins og hann var vanur. Allt í einu DUNK! skellur á bílinn. "Hvaða...er ég einhver trúður hér?" býst ég við að afi hafi þá hugsað. Svo steig hann út úr bílnum sem hafði drepið á sér og athugaði hvað hefði gerst. Bíddu...þarna var stór keðja sem hafði verið strengd þvert yfir veginn og skærgult skilti hengt á hana sem á stóð VEGAVINNA. Hver leggur þránd í götu afa míns? Á jeppanum eiga honum að vera allir vegir færir.

Afi ók síðan lúpulegur heim á skökkum og skældum jeppanum og blótaði sjálfsagt Vegagerðinni í hljóði. Hann sagði frá fjandans keðjunni sem var fyrir. Hún var samlit veginum og það var skærgula skiltið líka. Helvítis skærgulkeðjulituðu vegir! Sjónin í afa er fullkomin, bara eins og þegar hann var tvítugur. Sjónin bregst aldrei.

Aldrei!

Eftir þetta atvik ákvað afi eftir ráðleggingar hinna og þessara að bregða sér til augnlæknis, þó ekki væri nema til að fá staðfestingu á því að sjónin væri 100%. En annað kom á daginn. Sjónin var frekar vafasöm, afi hafði um nokkurt skeið séð ljós á bílum sem hann mætti tvöfalt (eða kannski frekar fjórfalt (fjögur framljós) þar sem ljósin eru alltaf tvö). Það á nú að vera í lagi ef hann veit alltaf hvor ljósaparanna eru raunveruleg. Nema hvorug séu raunveruleg og þau réttu séu mitt á milli hinna fjögurra.

Nú notar afi gleraugu við aksturinn og er orðinn ögn traustari ökumaður en fyrir augnlæknisheimsóknina.