sunnudagur, 13. febrúar 2005

Tvítugsafmæli og bull í bæ

Emil hélt tvítugsafmæli sitt í gær á heimili sínu. Þar var alveg blússandi sveifla. Dreypti ég á Royal Ceres og bollu hússins. Ýmislegt vafasamt úr Útskriftarferð I í Króatíu var rifjað upp og hlegið að. Stefnan er sett á að gera Útskriftarferð II í Portúgal að meiri sveiflu. Sing star er nú meira bullið, keppti í því nokkrum sinnum og tapaði naumlega í öll skiptin. Mjög gott afmæli.

Síðan var förinni heitið niður í bæ. Eins og venjulega var skítkalt og frekar leiðinlegt. Hírðumst í röð fyrir utan Prikið í dágóðan tíma. Einhver hálfviti kom eins og venjulega og reyndi að troðast fram fyrir. Honum var að sjálfsögðu skutlað út fyrir og varð hann þá vitlaus. Við vorum þarna dágóður hópur saman í röðinni og sögðum fíflinu (sem steytti hnefa og reif kjaft áfram) að hunskast í burtu og þegja. Augnabliki síðar var hann fjarlægður af dyraverði. Leið og beið og enn biðum við í röðinni. Stelpufífl kom og tróðst. Einhver hrinti henni í götuna og hún varð auðvitað brjáluð. Ætlaði að lemja stelpu í hópnum. Henni var haldið frá og hún gafst upp að lokum og fór. Það er ótrúlegt hve mikið er af hálfvitum sem ekki kunna snefil af kurteisi og troðast alltaf í röðum. Óþolandi hálfvitaskapur.

Loks kom röðin að okkur og öllum var hleypt inn nema mér: "Of ungur" Bull. Af hverju eru aldursmörkin ekki miðuð við fæðingarár í stað afmælisdags? Jæja, komst samt inn löngu seinna bakdyramegin. Svo var farið á Grand Rokk og Bar 11 og Ar. Þar var auðvelt að komast inn eins og oftast er. Síðan var farið á skítastaðina, De Palace, Der Boomkikker, Nelly's og lögðust menn meira að segja svo lágt að fara inn á Opus. Það var inn og síðan bara beint út aftur. Stemning engin á þeim bæjum.

Endaði ferðin á Pizza Pronto klukkan rúmlega fimm í morgun.

Niðurstaða: Gott tvítugsafmæli, glötuð bæjarferð.