miðvikudagur, 9. febrúar 2005

Hlaupandi með nærbuxur á hausnum

Einu sinni þegar ég var ungur drengur, 7 eða 8 ára hélt ég afmælisveislu á heimili mínu í sveitinni. Bauð krökkunum úr bekknum og vinum. Á afmælisdaginn þegar veislan var alveg að byrja var ég frekar spenntur. Ég tók brók úr fataskúffunni minni og setti á höfuðið og ætlaði út. Mamma kallaði á eftir mér: "Hvert ertu að fara, ætlarðu ekki að taka á móti gestunum?". "Nei, ég ætla út". Svo hljóp ég út í garð með brókina á hausnum og hljóp í hringi í kringum húsið. Hring eftir hring eftir hring. Nú tóku gestirnir að streyma að einn af öðrum. Mamma fór til dyra og sagði; "Hann er ekki inni, ég held að hann sé úti í garði, gáðu bara". Svo gengu gestirnir inn í garðinn, ekki leið á löngu þar til þeir mættu afmælisbarninu á hlaupum með nýju höfuðskreytinguna. Afmælisbarnið hafði vit á því að gera hlé á hlaupunum til að heilsa gestunum en ekki hafði það vit á því að taka brókina af hausnum, ekki strax.

Þegar afmælisbarnið var orðið ögn rólegra tók það þó höfuðdjásnið niður og blandaði geði við gestina eins og er til siðs.

Þetta var óvenjulegasti afmælisdagur sem ég man eftir.