Nú er ég búinn að prófa að leika jólasvein ásamt Henrik og Pajdak á jólaballi Lyfjafræðingafélagsins. Það var ágætt. Rifja upp barnajólalögin og svona og dansa kringum jólatré. Krakkarnir á þessu jólaballi voru á aldrinum 1-5 ára. Og a.m.k. tveir krakkar voru hræddir við þessa jólasveina. Og einn krakkinn fór að grenja strax þegar við komum og grenjaði svo í dágóða stund. En flestir krakkarnir þarna virtust hafa gaman að þessu. Svo komum við að sjálfsögðu með góðgæti í poka handa krökkunum. Við fengum engin laun fyrir þetta í peningum en það var gríðarlegur afgangur af góðgætinu (nammipokum einhvurskonar) og við jólasveinarnir fengum að hirða það. Svo fengum við líka að hirða nokkrar óáteknar gosflöskur og smákökur í tonnatali. En ég veit ekki hvort ég á að leggja jólasveinsstarfið fyrir mig. Held ekki. Já, þess skal að sjálfsögðu getið hvaða jólasvein hver okkar lék. Ég var Gluggagægir, Pajdak var Gáttaþefur og Henrik Kertasníkir.
sunnudagur, 29. desember 2002
föstudagur, 27. desember 2002
Stöð eitt er eitthvað nýtt fyrirbæri sem er "alveg að fara í loftið". Já, þetta er allt að gerast hjá þeim. Fyrst auglýstu þeir að stöðin mundi hefja útsendingar í október. Það tókst greinilega ekki alveg en síðan þá hefur hún verið alveg bara rétt að fara í loftið mjög lengi. Síðasta útspilið hjá þessari mögnuðu stöð var að segja "dagskrá í desember" Já, þetta er allt að skella á góðir hálsar. NÚ byrja þeir. En nei, ég stillti á þessa stöð áðan og nú eru þeir hættir að auglýsa dagskrá í desember. Æ, þetta tefst víst aðeins. Fólk fyrirgefur það nú býst ég við. Nei, þetta hefur tafist aðeins núna síðan í október. Tæknin er sennilega eitthvað að stríða þeim. Eru þetta algjörir fávitar? Svo eru þeir bara að selja auglýsingar og læti. Ha, Daníel Edelstein sjóntækjafræðingur og eithhvað fasteignarugl. En þeir virðast vera hættir að auglýsa hjá þeim núna. Skrýtið. Svo fer þetta sjálfsagt bara á hausinn hjá þeim.
Omega er rosalega skemmtileg stöð. Sérstaklega þegar hann Guðlaugur Laufdal tekur upp gítarinn og fer að syngja. Það er himneskt. NEI. Svo er allltaf gaman að sjá þegar áhorfendur hafa sent inn bréf þar sem þeir vilja láta biðja fyrir einhverju eða þakka fyrir eitthvað. "Já, góði Guð þakka þér fyrir Omega" sögðu þau um daginn. Já, þetta vita nú ekki allir en hann Guð blessaður, hann stofnaði einmitt Omega á sínum sokkabandsárum. Stundum eru þessir predikarar bara að bregða sér í Guðslíki. Og sumt sem þeir segja þarna á stöðinni getur varla flokkast undir annað en guðlast. Það er líka gaman að sjá þennan Benny Hinn. Fólk kemur upp á svið til hans og hann læknar það af hinum ótrúlegustu kvillum. "Hún Jenna hefur verið í hjólastól í tíu ár, en nú ætlar Benny að lækna hana" og svo snertir Benny Hinn ennið á henni og hún líður út af. PAFF! Hún er læknuð og þarf aldrei framar að vera í hjólastól. Ég veit ekki með aðra en ég trúi alls ekki á kraftaverk Benny Hinn.
Ég vil samt sjá meira á Omega, eins og beinar útsendingar frá himnaríki og á gamlársdag þegar hinar stöðvarnar sýna ávarp forsætisráðherra gæti Omega bryddað upp á nýjung og sýnt ávarp Guðs þar sem Guð fengi einstakt tækifæri til að ávarpa þegna sína.
Fyrst var það Benny Hill en nú er það Benny hinn. Hvar endar þetta?
miðvikudagur, 25. desember 2002
Nú er ég því miður búinn að kveðja steinþursana sem voru hérna í bakgrunni en það var út af rugli á síðunni. (tæknin eitthvað að stríða mér).
Ég óska öllum gleðilegra jóla.
Ég fékk fjórar jólagjafir. Þær voru þessar:
1. Bókin LoveStar eftir Andra Snæ Magnason
2. Peysa
3. Litla lirfan ljóta á myndbandi
4. Rúmföt (satínrúmföt, gaman að því)
Ég fékk þrefalt fleiri gjafir þegar ég var yngri. Annars fór ég í hið árlega jólakaffi hjá ömmu og afa í dag þar sem allir ættingjarnir í föðurættinni voru saman komnir. Amma er alltaf að tala um að ég sé of horaður. Áðan í kaffinu var amma að spyrja mig hvað ég vildi að drekka og ég vildi bara vatn. Það fannst ömmu nú alls ekki ganga, nei ekki vatn á jólunum! "Það eru nú jól, Guðmundur minn!" sagði hún (Þá á maður að troða í sig sætindum og óhollustu) . Ég átti nú aldeilis að fá heitt súkkulaði í bolla eða jólablöndu eða eitthvað annað gos. Já, já. Svo er amma líka oft að tala um að það væri nú best ef hann frændi minn gæti nú gefið mér nokkur kíló (frændi minn er í þéttari kantinum) mér mundi nú ekkert veita af því. Svona eru þessar ömmur.
Svo er ég byrjaður að lesa bókina LoveStar og hún byrjar bara vel. Reyndar er þetta óttaleg vitleysa en það er fínt fyrir mig.
Svo þarf ég að horfa á Lirfuna. Hún er besta íslenska tölvuteiknimyndin. Hún er reyndar ein af bestu íslensku myndum sem ég hef séð.
Jólamaturinn var ekki jafn góður og venjulega. Kalkúnsfjandi. Hann er engin önd en hann er sosum ágætur, greyið. Öllum í fjölskyldunni þótti kalkúnninn betri eða jafngóður og önd nema mér. Ég mun samt sjá til þess að það verður önd á næsta ári.
Ég las frétt í dag um að fimmtán manns hefðu verið fluttir með sjúkrabíl á slysadeild vegna brjótssviða í nótt. Orsökin var að fólkið hafði étið yfir sig af feitu og söltu kjöti. (Manni bara dettur í hug lína úr einhverju jólalagi: "Svoooona eru jóóólin, svona eru jólin....")
Ég er búinn að ákveða að vera ekkert að éta eins og svín þessi jólin. Það endar alltaf illa.
sunnudagur, 22. desember 2002
Æ,æ,æ,æ,æ. Það verða engin jól hjá mér. Pabbi kom áðan heim úr verslunarferð og tilkynnti sorgarsöguna. Önd fæst hvergi. Það var honum sagt í búðinni sem hann fór í. Það hefur verið önd í jólamatinn hjá okkur frá því að ég man eftir mér og ég efast um að ég lifi það af að fá enga önd. Maður neyðist kannski til að fara út að Tjörn og slátra einni. Nei, uss! Það er ljótt. Í staðinn verður kalkúnn í jólamatinn. Hörmungarástand. Svona er þetta á þessum síðustu og verstu tímum. Ég sem var búinn að hlakka til að fá önd síðan á síðustu jólum. Þannig að það verður grátur og gnístran tanna hér í kotinu á jólunum. Nei, það verða engin jól. Jæja ég er hættur að blogga og farinn að gráta.
fimmtudagur, 19. desember 2002
Já, loksins eru þeir farnir að selja Mountain Dew á Íslandi. Þeim drykk kynntist ég fyrst á för minni um Kanada og Bandaríkin fyrir þrem árum og það voru sannarlega fagnaðarfundir. Síðan hef ég látið senda mér drykkinn frá Kanada með fólki sem kemur þaðan til Íslands en nú er því veseni lokið og ég get keypt þetta úti í næstu búð sem er mjög gott. En, já Ingibjörg Sólrún er að fara í þingframboð. Ég ætla ekki að dæma hvort það er gott eða slæmt. En hún var í Kastljósi í gær og þeir létu rigna yfir hana rosalegum spurningum en ekkert virtist bíta á henni. Hún er rosaleg í rökræðum og alltaf er jafn fyndið þegar hún mætir Birni Bjarnasyni í fjölmiðlum. Hún rústar honum alltaf, aumingja kallinum. Hann virkar svona eins og fimm ára krakki sem er að gera eitthvað af sér en hún virkar eins og mamma hans sem segir: "Vertu ekki með þessa vitleysu, Björn minn." Enda er Björn ömurlegur í að færa rök fyrir máli sínu.
þriðjudagur, 17. desember 2002
Fjandans vitleysa. Við komumst ekki inn á tónleikana. Nei, nei, það þýddi ekkert. Allir voru beðnir um skilríki. Margir urðu frá að hverfa að þeim sökum. Þar á meðal ég og Henrique. En fleiri MR-ingar voru þarna sem ekki komust inn en það voru einhverjir þriðjubekkingar. Við rákumst á tvo MR-inga úr fjórða bekk en það voru þeir Hlynur og Eiki og þeir komust inn, ekki af því að þeir væru með fölsuð skilríki eða eitthvað, nei...mamma Hlyns var með þeim og þeir komust inn í fylgd með forráðamanni. Hún er án efa mikill rokkhundur. Svo voru líka MR-ingar 18 ára og eldri og þeir komust að sjálfsögðu inn. Vitleysingarnir sem auglýstu þetta í útvarpi gátu ekki drullast við að segja frá aldurstakmarkinu. Þannig að ég seldi einhverjum hlunki miðann minn og hann er vafalaust smjattandi á eðaltónlist einmitt núna.
Í hnotskurn: ÖMURLEG FÝLUFERÐ.
föstudagur, 13. desember 2002
Afdrifarík ferð til rakarans
Tíu ára frændi minn fór til rakara um daginn til að láta klippa sig. Það sem var óvenjulegt við það var að rakarafjandinn klippti bita úr kinnini á blessuðum drengnum, svo að hann var með vænsta sár eftir klippinguna. Svo þegar móðursystir mín, móðir tíu ára frændans kom að sækja hann til rakarans varð rakarinn að segja hvurs kyns var, að hann hefði klippt bita úr kinninni á drengnum. Frænka mín þurfti því að borga minna en ella fyrir klippinguna eða 1200 krónur í stað fjórtánhundruð króna, þannig að verðgildi kinnbitans var 200 krónur (1400-1200). Rakarinn tók greinilega bara kinnbitann upp í verðið á klippingunni. Ef frænka mín hefði nú verið aðeins hagsýnni kona og beðið rakarann að klippa kannski svolítið stærri bita af kinninni og kannski slíta smávegis af eyranu og rétt aðeins að klippa af nefinu þá erum við að tala um ókeypis klippingu. Frænka mín hefði getað sparað 1200 kjell og þá erum við að tala um bissniss. Ég veit því miður ekki hvaða rakarastofa þetta var en annars mundi ég að sjálfsögðu hvetja alla sem vilja spara soldið fyrir jólin til að drífa sig í klippingu þarna. Ég meina, þó að þeir verði af nokkrum kinn- og eyrnabitum. Hvað er það á milli vina? Þessi rakari á eftir að fá þokkalega mikinn bisniss ef þetta spyrst út. Svo getur hann hengt upp auglýsingu:
Komið í klippingu til mín! Ótrúlegt verð á klippingu, og ýmsum vörum. Verðdæmi:
Klipping á 8-12 ára Verð: 4 kinnbitar og einn eyrnabiti
Klipping á eldri en 12 ára: 5 kinnbitar, einn eyrnabiti og rétt smá snefill af nefinu.
Og svo fjölskylduTILBOÐ mánaðarins!, BOMBA:
Ef þú kaupir klippingu á alla fjölskylduna hjá mér kostar hún aðeins tvö eyru og eitt nef. (Miðað er við fjögurra manna fjölskyldu)
Þinn rakari.
Já, eins og þið heyrið er þessi rakari frábær. Tékkið á honum. Ég held að hann sé með stofu einhvers staðar í Kópavoginum.
sunnudagur, 8. desember 2002
Skarpagullkorn
Þar sem stærðfræðiprófið er ekki langt undan finnst mér tilvalið að koma með nokkur SKARPA-gullkorn:
"Þið verðið að vera svolítið leikin í þessu" (Lang algengasta gullkornið, helst notað í hverjum einasta tíma)
Þegar Skarpi var búinn að útskýra eitthvað í annað eða þriðja sinn voru einhverjir í bekknum sem skildu ekki ennþá hvernig þetta var. Þá sagði Skarpi: "Nú veit ég ekkert hvað ég á að gera við ykkur"
"Ja, sko, hann Guðni sem var hérna rektor hefði nú aldrei leyft svona lagað"
"Óttalegt mas er þetta"
Svo þegar einhver spurði um eitthvað, og einhverjir voru að masa á meðan: "Bíddu! Ég heyri ekki neitt. Það er svo mikill kliður hérna inni."
"Nú er ég alveg paff!"
"Æ,æ,æ,æ,æ"
"All right! (eða Oll ræht)
Í tilefni af því að skipt hafði verið um töflu í kennslustofunni, það var komin tússtafla í staðinn fyrir krítartöfluna:
"Æ, ég kunni nú betur við gömlu töfluna"
"Æ, verið ekkert að skrifa þetta. Þetta stendur allt í bókinni"
Svo einu sinni var hann búinn að skrifa langa og frekar flókna reglu á töfluna, skrifaði hann í lokin "sem er augljóst".
Og stundum var hann nýbúinn að skrifa eitthvað á töfluna og margir voru enn þá að skrifa það niður:
"Jæja, nú stroka ég þetta út!"
"Þetta dæmi kemur oft á vorprófi"
"Æ, verið ekki að masa!"
"Nú nenni ég þessu ekki lengur"
"Æ, þetta er svo létt, þarf ég nokkuð að vera að útskýra þetta"
Svo var hann að skrifa á töfluna en penninn var lélegur: "Þessi penni er ómögulegur" Þá prófaði hann næsta:"Þessi penni er líka ómögulegur". Svo prófaði hann þriðja: "Nei, þessi penni er líka ómögulegur! Allir pennar eru ómögulegir!"
Skarpi:"Þú þarna! Hættu þessu masi"
Nemandi:"Ég er að útskýra dæmi"
Skarpi:"Það er alveg sama!"
Ég man ekki fleiri í bili en þau skipta tugum eða hundruðum, gullkornin frá Skarpa. Sum eru kannski þannig að fólk hefði þurft að vera á staðnum. En að öllu gamni slepptu er hann sérdeilis góður kennari. Hann ætti að fá Fálkaorðuna.
föstudagur, 6. desember 2002
Djöfulsins sveifla! Í dag var enskupróf. Það var endemis vitleysa og létt með eindæmum. En svo verður stærðfræði á mánudag og það verður vafalaust erfitt.
En hrós vikunnar fá eftirtaldir:
SKARPI: það er sjálfsagt að hann fái hrós vikunnar í hverri viku. Og þá er ég ekki að tala um Plat-Skarpa heldur Skarphéðinn P. , stærðfræðikennara. Hann er bestur.
Flatkökur: það jafnast ekkert á við flatkökur með osti. Og flatkökur hjá ömmu eru að sjálfsögðu bestar.
Frikki (4.Y): já, maður! Jóla"fokkin"prófin í fullum gangi.
Jóladagatal Sjónvarpsins, Hvar er Völundur?: Þetta jóladagatal er það besta sem ég man eftir. Reyndar voru Pú og Pa líka í lagi og Klængur sniðugi. Blámi var hins vegar frekar slappur og baðkarsjóladagatalið sem ég man ekki hvað hét.
Kiddi peppó: Já, vinur minn, hvað get ég gert fyrir þig? "Ég ætlaði fá eitt Elitesse" Og þá segir Kiddi: "alltaf hress með Elitesse", klassískur.
Sigurður í 10-11: Hann er magnaður.
Skömm í hattinn fá:
Þátturinn Sigurjón Kjartansson og co.: Sigurjón er bara ekkert án Jóns Gnarr. Um daginn var hann að tala um hvað Spaugstofan væri léleg. Ég held að hann ætti að líta í eigin barm. Þátturinn hjá honum er suddalega leiðinlegur.
Innlit/Útlit: Vala Matt og Frikki Weisz. Að þau séu leiðinleg? Nei, hættu nú alveg. Jú, Vala Matt er svo tilgerðarleg að það hálfa væri nóg. Ég held að hún hafi aldrei sagt að eitthvað væri ljótt í þessum þáttum. Bara eitthvað: "En hvað þetta er skemmtilegt. Það tóna líka svo vel saman vínrauði liturinn í eldhúsinu og þessi skerandi appelsínuguli á ganginum". Vægast sagt tilgerðarlegt. Og Frikki Weisz., hann er alltaf að smíða eitthvað. Og bá segir Vala: "O, hann er svo handlaginn hann Frikki" Já, þau eru hress. Þau hljóta að fá Edduverðlaunin næst.
Fólk með Sirrý: Annar ömurlegur þáttur á SkjáEinum. En sumir virðast hafa gaman að þessu. A.m.k Saumaklúbburinn Særún.
fimmtudagur, 5. desember 2002
Það var ekki laust við að það væri sögupróf hjá fjórða bekk Menntaskólans í dag. Þetta próf var ansi skemmtilegt að því leyti að það var hægt að sleppa við allar spurningar úr Örlygsstaðabardaga, sem var ekki verra. Á prófinu voru líka 30 krossaspurningar. Einhvern veginn fannst mér ég vera kominn í þáttinn Viltu vinna milljón? þegar ég var að svara þessum krossaspurningum. Ég las þær í huganum eins og Þorsteinn J. hefði lesið þær. Svo merkti ég kannski við einhvern möguleikann og þá kom svona í hausnum á mér: "Þannig að þú ert að segja mér að....Sturla Sighvatsson hafi drepið Þórð kakala" (eins og Þorsteinn J. mundi orða það)
"Nei, ætli ég fái ekki bara að útiloka tvo möguleika" "Já, tökum burtu tvö röng svör og sjáum hvað stendur eftir". En það hurfu engir svarmöguleikar. (Þorsteinn J. var bara að ljúga! Nei, annars. Þetta var bara ímyndun hjá mér)
Þá var ég að hugsa um að spyrja salinn (en þá hefði mér örugglega bara verið hent út úr stofunni og ég hefði væntanlega fyrirgert rétti mínum til að þreyta fleiri próf á námsárinu). Og ekki gat ég hringt því að símar eru bannaðir í prófstofum. Þannig að söguprófið var í rauninni bara erfið útgáfa af Viltu vinna milljón? Ömurlegt, ég hafði ekki einu sinni möguleika á að fá einhvern pening fyrir að skjóta á rétt svör. Svona er nú skólinn ósanngjarn.
mánudagur, 2. desember 2002
Áðan var ég í strætó. Á einni stoppistöðinni komu inn sjö piltar. Ég heyrði á tal þeirra. Þeir voru meðal annars að skipuleggja hvað þeir ættu að gera þennan daginn. Það hljómaði etthvað á þessa leið: "Hei, ég er búinn að búa til geðveikt start fyrir stormþömberið" "Já, ég gæti nú samt böstað þig í heddstartinu". og svo... " Hei, eigum við kannski að fara til Sindra, hann er ge'eikur geim-master" "ég vann nú Sindra um daginn í þöndervissjon" "Kjeftæði" ...stuttu síðar: "Hei strákar, ég kemst ekki á skákæfingu á eftir, ég er að fara að spila döndjons end dragons við frænda minn"...eftir meira hjal í þessum dúr komust piltarnir svo að niðurstöðu: "förum bara á skákæfinguna og höngum þar í klukkutíma áður en hún byrjar"
Þegar ég heyrði þessar umræður velti ég því fyrir mér hvort þarna væru komnar geimverur frá plánetunni Zxarkxius eða hvort þetta væru bara íslenskir piltar (stormþömber? Hvað ætli það sé) . En hvað sem því líður þá voru greinilega þarna á ferðinni mjög upptekinir menn.
Tekið af nulleinn.is:
"Frakkar graðastir!
Það kemur kanski fáum á óvart að Frakkar eru graðastir allra. En þetta kom fram í könnun sem smokka-framleiðandinn Durex lét gera á dögunum.
Í fyrsta sæti eru það Frakkar eins og áðir sagði en meðal Frakki gerir það 167 sinnum á ári, í öðru sæti eru síðan Þjóðverjar sem liggja flatir 158 sinnum á ári, í þriðja sæti eru það svo Danir sem gera dodo 152, þar á eftir Kanadamenn með 150 holdris og Bretar eru svo í fimta sæti með 147 skipti.
Singapor er á botni listans en þar er meðaltalið um 100 skipti sem hlýtur að teljast ansi slapt.
Flestar konur fantasera um Brad Pit í bólinu eða um 33% en karlarnir hugsa til Ástralíu og lenda á nágrannanum Kylie Minouge en 18% njóta ásta og hugsa um hana. Skrýtið!"
Og ég sem er að læra frönsku, það er bara tungumál einhverra graðhesta og sóða.
laugardagur, 30. nóvember 2002
Þessir NATO-fundir eru frekar óþægilegir fyrir þig. Það er svo sem ágætt að kjósa alltaf eins og Bandaríkin og halda með Bush, en það er samt miklu skemmtilegra að vera bara heima á Íslandi.
Þar ert þú aðalkarlinn og þarft ekki að tala útlensku.
Taktu "Hvaða stríðsæsingamaður ert þú?" prófið
fimmtudagur, 28. nóvember 2002
Alltaf þegar ég fór út að leika þegar ég var lítill sagði pabbi við mig "Passaðu þig á bílunum" áður en ég fór. Reyndar sagði hann þetta alveg þangað til ég var orðinn 12 eða 13 ára. Þá bjuggum við uppi í sveit þar sem komu aldrei neinir bílar (kannski einn bíll á tveggja tíma fresti eða eitthvað) en samt átti ég að passa mig. Ég hélt að hann væri hættur að segja þetta núna en þar skjátlaðist mér. Í gær var ég að fara á æfingu með ÍR sem fara átti fram á Leiknisvelli. Ég ætlaði að skokka á æfinguna, en á leiðinni þarf að fara yfir Breiðholtsbrautina. Þá sagði pabbi enn eina ferðina "Passaðu þig nú á bílunum."Þá sagði ég: "Æi, pabbi...""Já, það er hættuleg umferð á Breiðholtsbrautinni.""Ég veit það, pabbi" Ætli pabbi haldi að ef hann segi mér ekki að passa mig þá passi ég mig ekki og lendi í slysi. FRÉTTIR:"17 ára piltur liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landsspítala í Fossvogi eftir að ekið var á hann á Breiðholtsbraut" og þá segir pabbi "Ooo, allt af því að ég gleymdi að segja honum að passa sig, hann er soddan sauður, drengurinn"
laugardagur, 23. nóvember 2002
Ekki má gleyma því að ég er kominn með bílpróf eftir mikið strit. Ég féll tvisvar á bóklega prófinu, með naumindum þó í bæði skiptin og á fimmtudaginn tók ég verklega prófið og náði í fyrstu tilraun, en með naumindum. Þannig að ég er kominn með ökuskírteini (eitthvað bölvað bráðabirgðabréfsnifsi).
Ég man þegar ég var lítill og fór í sunnudagsbíltúra með fjölskyldunni. Það var kannski sunnudagur og pabbi kom og spurði "Jæja sonur sæll, langar þig ekki í sunnudagsbíltúr?" "Jú, pabbi, hvert ætlum við?" "Ætli við förum ekki bara í Borgarnes." "Jibbí! Þangað hef ég aldrei komið! Eru risaeðlur í Borgarnesi?" "uhm...neeeeiiii." og svo fór öll fjölskyldan í sunnudagsbíltúr upp í Borgarnes.
Já, einu sinni var ég svona lítill og vitlaus.
En nú er ég orðinn stærri....og vitlausari. Og kominn með bílpróf. Nú get ég sjálfur farið í sunnudagsbíltúr upp í Borgarnes, alla sunnudaga! Geð'eikt!! Nei, vonandi get ég nýtt þetta bílpróf í eitthvað gáfulegra en svoleiðis bölvaða vitleysu.
föstudagur, 22. nóvember 2002
Í Morgunblaðinu í dag (fös. 22.nóv.) er grein sem heitir Fingurnir koma upp um persónuleikann sem fjallar um rannsókn sem vísindamenn frá Liverpool gerðu. 200 manns, karlar og konur tóku þátt í rannsókninni. Persónuleiki þessa fólks og eiginleikar voru bornir saman við lengd fingranna og niðurstöðurnar voru skýrar:
KARLAR:
1. Karlar með baugfingur lengri enn vísifingur hafa mikla fótboltahæfileika, glíma við samskiptaörðugleika og hafa mikla frjósemi.
2. Karlar með baugfingur og vísifingur svipaða að lengd eru orðheppnir og mælskir en hafa takmarkaða getu til að stunda íþróttir.
KONUR:
1. Ef baugfingur og vísifingur kvenna eru svipaðir að lengd bendir það til taugaveiklunar, hræðslu við að taka áhættu en viðkomandi á auðvelt með að umgangast annað fólk.
2. Séu baugfingur kvenna hins vegar lengri bendir það til samskiptaörðugleika, en ákveðni, einbeitni og hugrekki.
Kenningin var síðan sannreynd af blaðamanni Moggans á Ásgeiri Sigurvinssyni, einum besta knattspyrnumanni sem íslendingar hafa átt. Baugfingur Ásgeirs var talsvert lengri en vísifingurinn, sem renndi frekari stoðum undir kenninguna.
Þetta þótti mér merkileg grein og þar sem ég er nokkuð auðtrúa athugaði ég finguna á sjálfum mér. Í ljós kom að á vinstri hönd hef ég baugfingur lengri en vísifingur en á hægri höndinni voru þessir fingur jafnlangir. Ég hlýt þá að vera sér rannsóknarefni. Kannski er ég bara með miðlungsskammt af þessum hæfileikum/"ó"hæfileikum. Kannski er ég alveg hæfileikalaus.
Flokkur/flokkar: Almennt
föstudagur, 25. október 2002
Guðmundur er mættur til leiks og nú verður ekkert gefið eftir. Það er alveg gefið. Á þessari síðu verður allt nýjasta nýtt og jafnvel eitthvað gamalt líka.
Flokkur/flokkar: Almennt