laugardagur, 22. mars 2003

Bréf frá bankanum

Mér barst bréf í pósti í dag frá Landsbankanum. Það hljóðaði svo:

"Tilkynning um arðgreiðslu Landsbanka Íslands hf

Ágæti hluthafi,
Á aðalfundi Landsbankans hf. sem haldinn var þann 14. febrúar s.l., var samþykkt að greiða hluthöfum um 685.000.000 kr. í arð, eða sem svarar til 10% af nafnverði hlutabréfa.

Samkvæmt hluthafaskrá Landsbanka Íslands hf. var hlutafjáreign þín í lok dags þann 14.febrúar sl. að nafnvirði kr. 1.000. Arður af nafverðseign þinni er kr. 100. Fjárhæðin, eftir að fjármagnstekjuskattur (10%) hefur verið dreginn frá, er kr. 90 og hefur sú fjárhæð verið lögð inn á ráðstöfunarreikning sem tengdur er VS reikningi þínum.

Með bestu kveðju
LANDSBANKI ÍSLANDS HF."


Takk, Landsbanki. Þeir hefðu nú alveg mátt spara sér það að senda mér bréfið og bæta 50 kr. við upphæðina. Ég veit ekki alveg tilganginn með því að senda mér þetta bréf en eitthvað hlýtur að vaka fyrir þessu fólki. Og það skemmtilegasta er þetta með arðinn upp á hundrað kall en þá á eftir að draga tíkall af í skatt. Svona er þetta nú skemmtilegt. Þess ber að geta að ég fékk þetta hlutabréf í fermingargjöf frá Landsbankanum og þetta hefur verið að gefa vel í aðra hönd. Við erum að tala um 90 kall á ári síðan um fermingu sem er samtals 360 krónur sem er mjög gott. Það er alveg gefið að þessar 90 krónur verða nýttar til góðra verka.