föstudagur, 14. mars 2003

Innsend grein frá Henrik Garcia

Mér var að berast grein frá Henrik Garcia og óskar hann eftir að hún verði birt hér. Ég birti hana hér með í fullri lengd og óritskoðaða:

"Jæja... Net Gumma virðist vera niðri.. Hann var víst að fá sér ADSL tengingu - og svo flýr Magnús bara til Danmerkur...

Ég hef því ákveðið að blogga fyrir Guðmund garminn...

Samkvæmt minni tölvu er 18. júní á því hnerrans ári 2003. Af því leiðir að þjóðhátíðardagurinn var í gær. Ég man ekkert eftir honum.

Ég var að muna eftir því fyrr í dag og hló mikið af því að þegar ég var yngri (6-13 ára) tók ég alla auglýsingabæklinga sem ég fann í Kringlunni. Stundum kom ég með heila bunka af alveg eins auglýsingum heim. Einu sinni reyndi ég að selja auglýsingabæklinga sem ég tók úr sjoppunni ásamt eintökum af Myndböndum mánðarins. Ég græddi 200 kall og keypti körfuboltamyndir fyrir.

Í annað sinn reyndi ég að selja heilan haug af auglýsingabæklingum saman í einum bréfpoka á 1000 kr. í Kringlunni og var einn bak við stóran bás sem var þarna (hann hafði verið fyrir eitthvað annað) og beið eftir að einhver kom að kaupa. Það keypti enginn þessa fjárans bæklinga og ég er enn að velta fyrir mér af hverju ekki. Ég hélt líka oft tombólu með frænda mínum þegar ég var 10-11 ára. Gaman að því.

Ég var líka að muna eftir því að það voru tveir gosbrunnar í Kringlunni, einn stór og einn lítill. Þessi stóri var þar sem nú er kaffistaður hjá rúllustiganum og forðum var þar alltaf risapáskaegg sem er geymt annarsstaðar nú. Þá var líka Borgarkringla.

Ég á fullt af minningum úr Kringlunni vegna þess að ég bjó við hlið hennar í nokkur ár (Kringlunni 87, 2.hæð á móti útidyrahurð (ég fór reyndar þangað í sumar til að rifja upp gamlar minningar þótt ég hafi bara komist inn á stigaganginn - einhver kerling hleypti mér inn og ég sagðist vera að leita að íbúð vinar míns. Þetta er til á myndbandi.)). Ég man til dæmis þegar það var veitingarstaður á móti Hard Rock þar sem ég og vinirnir hnupluðum oft fullt af einhverjum bláum litlum gervisykurstöflupökkum sem voru þarna í vagni þjónustufólks. Inni í slíkum pakka voru 2 ógeðfelldar töflur sem við ýmist píndum ofan í okkur vegna þess að það var svo fyndið að horfa á viðbrögð hvers annars við töflunni eða settum í matvæli vina. Við keyptum einu sinni sódavatn handa tveim vinum okkar og settum þessar bragðsterku og viðbjóðslegu töflur ofan í. Það ku hafa skemmt drykkinn og skemmt okkur (en ekki neytendunum). Einu sinni setti ég slíkar töflur inn í kjúkling Pedro bróður míns og það skemmdi því miður kvöldmatinn fyrir honum og hann klikkaðist. Ég hef ekki notað þessar töflur síðan.

Og eitt að lokum í Kringlunni var einu sinni safn veitingastaða og gekk það safn undir nafninu Kvikk. Stjörnutorgið er ömurlegt.

Restina verð ég að geyma þangað til net Guðmunds (en ekki Guðmundar hahahahahahahahahahah) liggur næst niðri.

(Garmurinn getur síðan afritað þetta ofar á síðuna sem bloggfærzlu ef hann kýs. Munnlegt samþykki Skarphéðins (en þess má til gamans geta að í dag, 13. mars, er Sörlamessa svokölluð) hefur verið veitt. Tony Blair er á móti en hverjum er ekki drullusama...
"