mánudagur, 17. mars 2003

Fat Burner

Íslenskt þjóðfélag er að sumu leyti mjög sjúkt. Í matvöruverslunum fer æ meira rými undir alls konar fæðubótarefni og "heilsuvörur". Það þýðir að það er markaður fyrir slíkt. Það er til próteinduft í stórum dunkum og þetta sér maður alltaf í auknu mæli í verslunum. Heilsupostular halda því fram að þetta sé hollt og gott: "Þú verður stór og sterkur ef þú færð þér Protein Blast". "Fáðu þér Carbon Hydrate Edge". Hver trúir þessu? En það sjúkasta er eitthvert stykki sem heitir Fat Burner. Það þarf enginn að segja mér að þetta stykki brenni fitu. Þetta var búið til fyrir fólk sem nennir ekki að hreyfa sig. Það er svo gott að geta sest í sófann við sjónvarpið með akfeitan hamborgara og nokkra lítra af gosi og svolgra því í sig. Svo er hægt að teygja sig í Fat Burner stykkið og gæða sér á því og þá bara brennur fitan af hamborgaranum og gosinu einn, tveir og þrír. Þetta er svona leið til að réttlæta allskonar óhollustu:"Æ, ég get alveg fengið mér Kentucky og kók ef ég fæ mér bara Fat Burner á eftir". Hvað varð um það að borða bara sæmilega hollan mat og hreyfa sig. Það virðist vera dottið úr tísku. Svona er Ísland í dag.