laugardagur, 19. júlí 2003

Allsber í Öskjuhlíð

Ég fór í Nauthólsvík í fyrsta skipti í dag. Veður var ákjósanlegt til slíkrar tilraunastafsemi. Margir voru staddir þarna. Pjakkurinn og Henrik fóru með. Fyrst gengum við um til að kynna okkur svæðið og það fyrsta sem ég hugsaði var: "hér er samansafn af hálfvitum". Maður fer ekki á sólarströnd á Íslandi. En ég var þarna líka svo ég var bara einn af hálfvitunum, svo þetta slapp allt fyrir horn. Við sáum að þarna voru prýðisgóðir klefar og aðstaða til fataskipta. En einn galli var á gjöf Njarðar. Það kostaði 200 krónur að fá klefaaðstöðu. Það fannst Pjakknum óþarfa fjáraustur og vitleysa. Alltaf gott að spara. Svo við ákváðum að nýta okkur ekki aðstöðuna. Þess í stað sáum við okkur leik á borði að hafa fataskipti inni í skóginum í Öskjuhlíð, rétt hjá. Þannig að ég hljóp umsvifalaust inn í skóginn og hafði fataskipti. Þegar ég stóð þarna á Adamsklæðunum einum fata fór ég að pæla í því ef fólk sæi mig. Þá hefði ég líkast til verið talinn versti pervert. Að maður tali nú ekki um ef ljósmyndari Séð og heyrt hefði verið á staðnum og ég hefði komið á forsíðu næsta blaðs undir fyrirsögninni: "Pervert í Öskjuhlíð" og "Guðmundur leikur lausum hala!" Ég vona að það hafi ekki gerst. Maður leggur nú ýmislegt á sig til að spara tvöhundruð kall.

Ísland er án efa eina landið í heiminum þar sem maður á það á hættu að kvefast á sólarströnd. Þegar maður fer í sjóinn þarna er líka hressandi að stíga á allskonar kræklinga og renna jafnvel í mannaskít. Svo er líka gaman að synda, svo finnur maður vatnið allt í einu hitna svolítið og fer að velta því fyrir sér hvaðan þessi indælis varmi komi. Þá er líklegast að litli strákurinn rétt hjá hafi verið að míga í vatnið.