Strengjabrúður ákveðinna manna
"Reykjavík: Skyggni ágætt, hiti 19 stig". Ég var úti í allan dag, enda um að ræða besta veðurdag sumarsins. Eftir vinnu í dag fór ég í Laugardalslaugina og hafði meðferðis Pjakkinn, sem var ferlegur að vanda, og Garcia, sem var geggjaður að vanda. Ég var hins vegar sjálfur eðlilegur í alla staði eins og við var að búast. Margt var um manninn í lauginni. Eitt vaktri þó sérstaka athygli, en það voru tveir Danir í lauginni, annar röflaði og röflaði samfleitt í tíu mínútur og hinn kinkaði kolli á meðan af miklum áhuga og sagði ekkert. Þetta var eitthvað um "lufthavnen", hun ventede i fire timer" og svona. Þetta var fínasta sundlaugarferð en það er orðið ár síðan ég fór síðast í sund. Handklæðinu mínu var síðan stolið sem vakti gríðarlega kátínu mína og stökk ég hæð mína af gleði.
Þegar ég var staddur við vinnu mína í gær í Bökkunum, var að raka, kom þó nokkuð undarlegur gamall maður að máli við mig. Hann hafði frá ýmsu að segja, enda hafði ég aldrei hitt hann áður, og því var ýmislegt sem hann átti eftir að segja mér. Það var því alveg tilvalið að hann stiklaði á stóru í ævisögu sinni og segði mér skoðun sína á málefnum líðandi stundar. Hann sagði mér frá ferðum sínum í Moskvu og föngunum þar, sem byggðu einhvern turn og "þeir höfðu styttri vinnutíma en fólk hér á Íslandi hefur í dag" "Vinnuvikan hérna á Íslandi er allt of löng". Ég skaut svona inn í á réttum stöðum í ræðu mannsins "uss" og "ljótt að heyra" og Gissur í hópnum mínum skaut því að að þetta væri Davíð Oddsson og ríkisstjórn hans sem stæðu fyrir þessu öllu. Þá sagði gamli: "Já, ekki vera að nefna nein nöfn í þessu samhengi" og svo hélt hann áfram ræðu sinni um Moskvu og garðinn sinn: "þegar ég var að setja niður staurana hérna"(svo benti hann eitthvað út í loftið) og hvað hann hefði þurft að þola í gamla daga og hvað hann þurfti að sjá um stórt svæði og ýmislegt fleira. Ansi gaman var að því að hann labbaði í burtu svona fimm sinnum en kom síðan alltaf aftur og hélt áfram frásögn sinni. Svo hélt hann í öxlina á mér nokkrum sinnum og sagði síðan: "þú verður alþingismaður" Ég veit ekki af hverju hann dró þá ályktun. Toppurinn var samt þegar hann hóf hendur á loft og kyrjaði "Hver á sér fegra föðurland" fyrir okkur. Já, fyrst þegar hann kom skelltum við eitthvað aðeins upp úr og þá heyrðist í gamla: "Já, ekki að vera að gera grín að mér því ég veit nú hvað ég syng". Kleppur er víða.
miðvikudagur, 16. júlí 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|