Köttur í bóli bjarnar
Það er einhver kettlingur farinn að venja komur sínar heim til mín. Á síðustu dögum hefur hann komist fjórum sinnum inn í húsið, inn um opinn glugga eða dyr.
Flugur eru gjarnan hvimleiðar á sumrin. Ég er mjög vinsæll meðal flugna. Fátt gleður flugur meira en að fljúga inn í eyrun á mér eða augun. Stundum enda þær líf sitt á þann hátt. Síðustu daga hefur verið óvenju mikið um svona nokkuð stórar flugur með rautt á löppunum sem oft stoppa í loftinu og eru alltaf með hangandi lappir. Ég veit ekkert hvað þessi flugnategund heitir en Pjakkurinn kallar þetta hassflugur og ég ætla að gera það líka. Það er út af hegðun þeirra (hangandi löppunum og því). Það er eins og þær hafi stundað hassreykingar í mörg ár og séu verulega dofnar af þeim sökum. Í gær gómaði ég tvær svona flugur í hárinu á mér. Þær höfðu flækt sig þar og voru áreiðanlega önnum kafnar við hreiðurgerð og hugðust verpa á þessum ákjósanlega varpstað, hárinu á mér. Þegar ég varð flugnanna var drap ég þær báðar umsvifalaust. Ég veit ekki hvort þær hafa náð að koma fyrir eggjum þarna en ég kemst að því fljótlega ef ég finn að litlar hassflugnalirfur eru skríðandi í hárinu á mér. Ef það gerist verða þær miskunnarlaust teknar af lífi samstundis. Rómantískur fundur flugnahjónanna í hári mínu varð þeim að bana. Þær sem höfðu sett sér það markmið að ala ógeðfelld afkvæmi sín þarna. Allt til einskis hjá blessuðum flugunum. Ég, illa innrætta mannkvikindið, hef gert drauma þessara litlu flugna um glæsta framtíð að engu.
miðvikudagur, 16. júlí 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|