þriðjudagur, 8. júlí 2003

Danskt FM-hnakkaspik af nýslátruðu

Í gær kom ég heim frá Kaupmannahöfn. Ferðin var stutt en skemmtileg. Ýmislegt gerði ég mér til dundurs í Danaveldi. Ég fór á Bakken á laugardaginn og prófaði ýmis tæki, Fire-ball bar hæst, en það er magnaðasta tækið á Bakken. Merkilegt var að heyra ekki í neinum íslendingum öðrum en okkur á Bakken, en svo heyrðist í þeim á fáförnum stöðum niðri í bæ. Einu tækinu sjórnaði mesti FM-hnakki sem ég hef séð. Þið kannist við íslenska FM-hnakka en þið viljið ekki vita hvernig þeir dönsku eru, þeir eru enn verri, a.m.k. þessi. Hnakkasólgleraugun og allt í stíl. Hann var gríðarlega hress og nú mun ég sérhæfa mig í að leika danska hnakka. Svo var hann að sjálfsögðu með FM-tónlist í botni meðan tækið snérist hring eftir hring.

Þegar maður fer til Danmerkur er skylda að fá sér kúluís. Hann lét ég ekki vanta í þetta skiptið. Þrjár kúlur í brauðformi með "syltetøj", klikkar ekki.

Ég fékk besta bjór sem ég hef smakkað í ferðinni, Royal Faxe, og skilst mér að hann fáist ekki á Íslandi. Magnað við Danmörku að hægt er að kaupa bjór úti í matvörubúð og það fyrir einungis fimmtíu krónur eða svo, stykkið.

Flugfreyjur eru mögnuð stétt. Í flugvélinni fylgdist ég með atferli þeirra. Og nú er komið að flugfreyjugagnrýni. Byrjum á flugfreyjunum á leiðinni til Danmerkur. Einu tók ég eftir sem ég hef ekki tekið eftir áður: Alltaf í flugi er ein yfirflugfreyja ("leading stewardesse" var það á enskunni). Yfirflugfreyjan í þessu flugi var eitthvað yfir fimmtugt á að giska. Hinar flugfreyjurnar voru ungar. Það sem var skemmtilegt var að ungu flugfreyjurnar brostu nánast allan hringinn, alla leiðina en yfirflugfreyjan brosti aldrei og var grafalvarleg. Ég veit alveg af hverju það var. Ungu flugfreyjunum fannst svo gaman en yfirflufreyjunni fannst leiðinlegt og var orðin hundleið á starfinu. Hún kallar örugglega ungu flugfreyjurnar "gemlingana" og þar sem hún var yfirflugfreyja þurfti hún að hafa hemil á þeim og mátti varla líta af þeim eitt andartak. Það olli henni eflaust þungum áhyggjum og hugarangri. Meira að segja þegar ungu flugfreyjurnar lokuðu farangurshólfunum skælbrostu þær. Það er af því að það fannst þeim svo ofsalega gaman. Þær voru örugglega búnar að hlakka til í marga klukkutíma að fá að loka farangurshólfunum enda sást á þeim að þær réðu sér vart fyrir kæti þegar þær gerðu það:"Jess, ég er að fara að loka farangurshólfum á eftir. Ég er svo spennt!". Yfirflugfreyjan lokaði aftur á móti hólfunum grafalvarleg. Henni fannst það skemmtilegt þegar hún var ung og var að byrja í bransanum en nú var hún greinilega orðin hundleið á því. Þjónustan var mjög góð.
Einkunn: þrjárog hálf stjarna af fimm mögulegum.

Flugfreyjurnar á leiðinni til baka voru rosalegar. Helga Möller söngkona var flugfreyja í þessu flugi. Það hlýtur að teljast plús. Svo voru tvær karlflugfreyjur, svokallaðir flugþjónar. Þeir voru báðir ansi hommalegir. Fátt finnst mér hommalegra en svona flugþjónar. Ég veit að það eru fordómar en þetta finnst mér nú samt. Þjónustan var hins vegar mjög góð og Helga Möller stóð sína vagt prýðisvel.
Einkunn: fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

Við erum stödd í Danmörku, nánar tiltekið í eyranu á Guðmundi nokkrum. Þar er Mia mýfluga stödd. Við hittum hana fyrir að snæðingi, en hún er að gæða sér á blóði úr eyranu og svolgrar í sig í gríð og erg. Svona byrjar kynningin á heimildarmynd um dönsku mýfluguna Miu, en ég mun framleiða þá mynd fljótlega. Já, ég slapp ekki við helvítis skorkvikindin í Danmörku frekar en fyrri daginn og einhver feit mýfluga flaug inn í eyrað á mér um nótt þegar ég var sofandi og fékk sér blóðsopa. Gaman hvað þessi kvikindi velja alltaf skemmtilega staði til að stinga mann og bíta. Einhvern tímann í annarri Danmerkurferð sem ég fór í stakk geitungur mig í augað og það var eitt það versta sem ég hef upplifað. Þvílíkur sársauki.

Ég mun hugsanlega skrifa meira um Danmerkurferðina síðar.