mánudagur, 28. júlí 2003

Kelduhverfi og krúnurakstur

Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudaginn var það síður en svo ætlunin að keyra norður í land. Það var þó það sem ég gerði því móðir mín linnti ekki látum og heimtaði að ég færi með norður. Ég hafði ætlað að fara niður í bæ og eitthvað en það varð ekkert úr því. Þess í stað fór ég út á land í heimsókn til afa og ömmu í Lóni í Kelduhverfi. Ég fór í golf í fyrsta sinn í tvö ár. Það var á golfvellinum í Ásbyrgi. Mér hefði ekki veitt af að æfa mig því árangurinn var ekki sérstaklega góður. Svo fór ég ásamt frændum mínum í Lund í Öxarfirði og þar var bjór drukkinn og brennivín í kaffi með sykri, sem að sögn kunnugra smakkast eins og kúmenhorn. Ég drakk ekki deigan dropa þar sem ég var dræver. Það var slatti af fólki í Lundi og sæmilegasta stemning.

Ég ákvað að láta snoða mig á sunnudag þannig að nú er ég sköllóttur. Það er ákveðið frelsi fólgið í því að vera svona sköllóttur en það er samt eins og það vanti eitthvað á mann, enda vantar á mann hárið.

Alltaf erum við hressir í vinnunni, maður.Snilld. Gissur er hættur að vinna og ég náði ekki að hefna mín á honum fyrir grikkinn sem hann gerði þarna um daginn. Skandall.

Ég sá mjög gott tilboð í Bónus um daginn. Stór kippa af skemmdum bönunum á 50 kall. Þeir voru kallaðir matreiðslubananar ætlaðir til matreiðslu. Nú bíður maður bara eftir að geta keypt myglað brauð á tíkall. Hver segir að það sé hátt verð á matvörum á Íslandi?