miðvikudagur, 23. júlí 2003

Einn, tveir og elda

Gufuböð eru djöfulleg. Ég gæti ímyndað mér að það að vera í helvíti sé svipað og að vera í gufubaði. Gufubaðið í Kópavogslaug skal sérstaklega nefnt til sögunnar í þessu samhengi en það er versta gufubað sem ég hef komið í síðan ég fór í gufubaðið á Laugarvatni hérna um árið. Fyrir utan það að öndun sé illmöguleg í því gufubaði (Kópavogs) steikir það lappirnar á fólki svo um munar. Fær það gufubað hér með mínus í kladdann. Svo svitnar fólk gjarnan í gufubaði og þarf í sturtu áður en það fer í laugina aftur. Fyrir utan þetta gufubað er Kópavogslaug mjög hressandi laug. Ja, kannski líka fyrir utan það að heitu pottarnir eru gjarnan pakkaðir af gömlum konum. Þær mættu gjarnan víkja fyrir yngra kvenfólki og fara í gufubaðið. Ekki það að ég sé á móti gömlum konum eða vilji þeim illt. En ég kysi samt frekar að hafa þennan háttinn á. Ég fór í Kópavogslaugina um daginn. Þangað hef ég ekki farið síðan í hittífyrra og var eiginlega búin að gleyma því að það er góð laug. Svo í hádegishlénu í vinnunni í dag fór hópurinn í Breiðholtslaugina. Það var bara fínt þrátt fyrir rigningu. Það mun hafa verið í fyrsta skipti sem ég fer í þá laug og ekki er loku fyrir það skotið að ég fari einhvurn tímann þangað aftur.

Elvar á afmæli í dag og fær hann hamingjuóskir af því tilefni. Ég klikkaði hins vegar á gjöf til pilts. Hvernig er það. Verða engir aukatónlekar á Foo Fighters?

Ég hef verið hálfsúr síðustu daga og eru ónefndar ástæður fyrir því.

Yfir og út.