mánudagur, 16. febrúar 2004

Helgi Hóseasson og japönsk epli

Heimildamyndin um Helga Hóseasson var á RÚV í gær. Þessi mynd er mjög fróðleg. Gaman var að skyggnast inn í líf Helga og sjá hann útbúa mótmælaskilti og dúlla eitthvað heima hjá sér. Hann bakaði brauð í vaskinum sínum og þvoði þvott í höndunum úti á tröppum. Margt sem Helgi segir er hárrétt. T.d. stenst Biblían engan veginn þótt sjálfsagt sé einhver sannleikskjarni í henni. Það er frekar asnalegt að honum hafi ekki bara verið leyft að skrá sig úr þjóðkirkjunni, en því barðist hann fyrir í mörg ár án árangurs. Hann sletti skyri á þingmenn og sletti tjöru á Stjórnarráðið. Honum var hent inn á Klepp og þegar hann kom þaðan út fjölfaldaði hann geðskýrsluna sína þaðan og seldi fólki niðri í bæ. Þetta var mjög góð mynd um karlinn og ekki var vanþörf á að fá útskýringar á mótmælasklitunum hans því á þeim er mikið af skammstöfunum sem erfitt getur reynst að ráða úr. RÍÓ mun t.d. standa fyrir "ríkisvald íslenskra óþokka".

Nú er hafinn innflutningur á japönskum Fuji eplum. Ég efast um að Fuji ljósmyndafyrirtækið sé viðriðið málið. Ég smakkaði eplin og þau eru ótrúlega góð. Þau er mjög mjúk undir tönn og festast ekkert í tönnum. Einnig eru þau safarík. Ég held að eplin hafi einhver undarleg áhrif á mann því ég varð frekar léttur í hausnum af eplinu, erfitt að útskýra það. Smakkið eplin bara. Þau eru seld tvö og tvö í plastöskjum. Spurning hvort þetta veldur eplafíkn.