laugardagur, 7. febrúar 2004

Forsetaembættið verði lagt af

Ég er afar hlynntur því að forsetaembættið verði lagt niður (örugglega það eina sem ég er sammála Hannesi Hólmsteini um). Forsetinn er á okurlaunum frá ríkinu en gerir ekki neitt gagnlegt. Forsetinn flytur nýársávarp og heimsækir staði úti á landi þar sem krakkar taka á móti honum veifandi fánum. Hann klappar börnunum á kollinn. Forsetinn er að mörgu leiti eins og fegurðardrottning eða einhvers konar prímadonna. Hann heimsækir hin og þessi lönd og klappar krökkum á kollinn og talar um hitt og þetta sem mundi bæta heiminn. Hann rabbar við þjóðhöfðingja austurs og vesturs. Svo eru fluttar fréttir af heimsóknum hans, t.d. til Kína: "Ólafur og Shung Shai Dong voru sammála um að efla samstarf Íslands og Kína". En svo er ekkert gert meira enda er forseti Íslands nánast valdalaus og hefur ekkert um það að segja hvort samstarf við aðrar þjóðir er eflt eða ekki. Svo kemur forsetinn í slúðurblöðin. Þetta er bara snobbembætti og engum til gagns. Forsetinn á að kynna landið erlendis. Landið þarf enga sérstaka forsetakynningu erlendis. Það fær nóga kynningu nú þegar, s.s. með útrás tónlistar, bisnissmanna og afreksfólks íþróttum. Ferðaskrifstofur eru líka duglegar við að kynna útlendingum landið. Burt með forsetaembættið.

Það er sífellt þráttað um þjóðkirkjuna, sumir vilja aðskilnað ríkis og kirkju en aðrir ekki. Ef ríki og kirkja verða skilin að er hætta á að kirkjan verði alltaf að betla af fólki, sem mundi angra fólk verulega til lengdar. En með því að hafa hana á fjárlögum er tekið af öllum skattgreiðendum. Það er vandratað meðalhóf í þessum efnum. Nú hafa Íslendingar ekki verið frægir fyrir góða kirkjusókn nema á jólum og páskum. Þess vegna mætti hæglega skera verulega niður hjá kirkjunni. Það ætti að fækka kirkjunum í landinu verulega, nóg væri að hafa tvær kirkjur í Reykjavík og fjórar úti á landi. Á jólum og páskum væri það að sjálfsögðu of lítið. En þá mætti anna eftirspurn með því að eiga uppblásnar kirkjur á lager. Um jól og páska gæti fólk skellt uppblásnu kirkjunum upp. Þær mætti hafa með svipuðu sniði og hoppukastala (sem vinsælir eru meðal barna). Þetta mundi spara þjóðarbúinu stórfé. Ég legg samt alls ekki til að húsin sem nú eru nýtt til messuhalds verði rifin. Þau mætti nýta sem kartöflugeymslur eða handverkssölur, jafnvel bændagistingu. Svo væri líka hægt að messa í félagsheimilum á stórhátíðum ef uppblásnu kirkjurnar virkuðu ekki. Kostnaður við svona kirkjustarfsemi væri lítill og þá væri kirkjan að sjálfsögðu á fjárlögum eins og nú er.