miðvikudagur, 4. febrúar 2004

Tónlistargreining: Radiohead og Mars Volta

Jæja krakkar, í tónlistargreiningu í dag ætlum við að greina tónlist Radiohead og Mars Volta.

Radiohead: Radiohead spilar frekar dapurlega tónlist, rigningartónlist. Ég hef aldrei fílað þá hljómsveit sérstaklega vel. Hún er ágæt, ekkert mikið meira en það. Það er samt alveg eitt og eitt lag mjög gott. Mér finnst tónlist ekki eiga að draga fólk niður. Tónlist á að hressa fólk. Þó fer það að sjálfsögðu eitthvað eftir því hvernig skapi fólk er í. En almennt finnst mér tónlist eiga að hressa fólk. Það er til dæmis alveg bannað að hlusta á Radiohead í glampandi sólskini og góðu verði. Það er ekki viðeigandi. Fólk á t.d. ekkert að fara út á rúntinn í góðu veðri og hlusta á Radiohead. Það byði leiðindum heim. Ég sé hinn dæmigerða Radiohead hlustanda fyrir mér sem sköllóttan karl 25-35 ára sem er piparsveinn. Hann býr í stórborg í lítilli íbúð efst í blokk. Íbúðin er nánast alveg galtóm og með alla veggi málaða hvíta, en þó er gettóblaster á gólfinu. Hann kemur heim til sín og nær sér í tréstól og sest við glugga og horfir á rigninguna úti. Þá er einmitt rétti tíminn fyrir hann til að hlusta á Radiohead í gettóblasternum. Já, svona væri pottþétt dæmigerður Radiohead hlustandi. Ég gæti ímyndað mér að þegar maður kemur heim eftir rosalegt frí, alveg bullandi ferskur og hress sé gott að skella Radiohead í spilarann til að ná sér niður og minna á hversdagsgrámann framundan.

Mars Volta: Mars Volta leika frekar brjálæðislega tónlist, a.m.k á köflum. Mars Volta er einmitt rétta tónlistin til að hlusta á þegar maður er á harðahlaupum í frumskógi. Ef einhvern tímann er ærlegt tilefni til að hlusta á Mars Volta er það við slíkt tækifæri. Hugsanlega er tígrisdýr að elta mann í frumskóginum. Og hvað gerir maður þá? Jú, maður hleypur eins og fætur toga og skellir Mars Volta á fóninn. Hinn dæmigerði hlustandi Mars Volta er gaur með afró sem gengur ekki heill til skógar.

Ég vil bæta því við að ég er farinn að fíla ágætlega Mars Volta. Stundum getur líka verið fínt að skella Radiohead í tækið. En alls ekki í sól og sumaryl.

Þetta er ekki geðveiki. Þetta eru staðreyndir.


Gjörningur?