fimmtudagur, 15. apríl 2004

Maður eldist um mörg ár við að drekka kaffi. Ég er ekki lengur þessi stráklingur, allt í einu er ég orðinn gamall karl. Það kæmi ekki á óvart ef ég ætti eftir að fara á Café Paris á næstunni og ræða heimsmálin við Jörmund allsherjargoða, Thor Vilhjálmsson og fleiri gamla spekinga yfir bolla af kaffi.

Ég hef drukkið slatta af kaffi upp á síðkastið. Ég hef fordæmt kaffidrykkju harkalega hingað til. En nú er ég allt í einu farinn að linast í þeim fordæmingum, veit ekki af hverju. Þetta byrjaði allt þannig að ég fékk kaffi heima hjá Einari, rótsterkt, sem dr. Hallgrímur faðir hans, hellti upp á. Þar gat ég alls ekki afþakkað kaffi þótt ég hefði ávallt afþakkað slíkt áður. Til að byrja með ákvað ég að drekka bara kaffi sem dr. Hallgrímur hellti upp á, en svo hef ég linast í því líka. Ég er búinn að sötra kaffi á kaffihúsum og ég veit ekki hvað og hvað. Svo fékk ég rótsterkasta kaffi sem um getur á Kúbu og það var ekki bragðgott, þrátt fyrir að sykrinum væri mokað út á. Nú er ég líka kominn með mína hentisemi varðandi kaffið, það þarf að sykra það duglega svo það bragðist sæmilega, helst molasykur. Svo er nauðsynlegt að skevetta mjólkurdreitli út á líka til bragðbætingar og til að kæla brennandi heitt kaffið fljótt og örugglega. Ég veit ekki hvort ég á að vera stoltur af þessu. Eitt er víst, kaffið heldur manni vakandi og það er stundum nauðsynlegt að halda sér vakandi yfir lærdómnum. Ég reyni nú samt að sötra kaffi í miklu hófi. Kaffidrykkja verður alls ekki daglegt brauð hjá mér, a.m.k ekki á næstunni.