mánudagur, 19. apríl 2004

Að endajaxlatöku lokinni - dofinn í kjafti og uppdópaður af verkjalyfjum

Jæja, ég fór í endajaxlatökuna kl. 11:30 í morgun hjá Sævari Péturssyni MSc. (sérfræðimenntaður). Það gekk nú á ýmsu. Merkilegt hvað þessar tannlæknastofur eru orðnar tæknivæddar, mér var boðið að setjast í stólinn, svo átti ég að velja hvað ég vildi horfa á á meðan á aðgerð stæði. Boðið var upp á Friends eða 70 mínútur. Ég valdi auðvitað ekki Friends, ég læt ekki misbjóða mér með svona dósahúmor. Þannig að það var ljóst að gónt yrði á 70 mínútur meðan helvítis tönnunum væri rykkt úr með blóðbaði og öllum græjum. Fyrsta verk tannlæknisins var að deyfa mig. Ég hélt að ég væri ekki lengur með sprautufóbíu, en það reyndist rangt. Mér finnst með því viðbjóðslegra að vera sprautaður svona með stærðarnál í tannholdið. Ekki nóg með að það hafi verið gert heldur var sprautunni aðeins juðað til, við mikinn hrylling minn (þetta var frekar sárt). Það vildi síðan ekki betur til en svo að skömmu síðar leið yfir mig. Sem betur fer var fagfólk að vinna þarna og það var enginn æsingur yfir því að ég hefði misst meðvitund heldur var talað rólega við mig og mér fært kókglas (skrýtið samt að fá kókglas á tannlæknastofu (en það var til að hækka blóðsykurinn)). Síðan var næstum liðið yfir mig í annað sinn en það slapp fyrir horn. Svo voru tennurnar röntgenmyndaðar. Eftir það var bara hafist handa við aðalmálið, að rífa endajaxlana úr. Það var ákveðið að rífa þá bara alla fjóra. Það fannst mér nú lítið mál. Einn jaxlinn var slípaður með slípirokki og það var bölvaður nístingshávaði í honum en hinir voru bara dregnir úr og það var ekkert vont. Svo þarf kjafturinn að fá sérstaka meðhöndlun næstu daga og fékk ég leiðbeiningar um það. Tannlæknirinn og aðstoðarmanneskjan hlógu að 70 mín (þetta var þarna best of diskurinn nr.1) en ég gat ekki mikið hlegið að því, svona deyfður í kjafti. Frekar fyndið að sjá tannlækni haldandi á alblóðugum endajaxli með töng og hlæjandi um leið að fíflagangi í sjónvarpi. Svo fékk ég helvítis parkódín eftir þetta og var alveg uppdópaður af því. Ég þarf að fara að leggja kaldan bakstur á þetta núna fljótlega.

Svo er það bara fljótandi fæði næstu vikuna.

Ég verð að fara að drífa mig til Dr. Phil til að láta lækna sprautufóbíuna. Ég hef aldrei skilið fólk sem er lofthrætt eða flughrætt eða jafnvel vatnshrætt. Mér hefur alltaf fundist það bara vera hrein og klár heimska. En ég get svosum ekki verið að segja mikið, því auk sprautufóbíunnar er ég með rosalega fóbíu fyrir kynsjúkdómum og slíku. Alltaf þegar sýndar eru myndir af kynfæravörtum eða þess háttar verð ég hálfmeðvitundarlaus, líka þegar talað er um svona sjitt í dálítinn tíma. Þá fer mér að sortna fyrir augum. Þess vegna hata ég þegar talað er um þetta í líffræðitímum. Þannig að ég ætti lítið að vera dæma fólk með lofthræðslu og þess háttar.