miðvikudagur, 7. maí 2003

Atvinna

Ég er búinn að fá vinnu í sumar hjá Gatnamálastjóra. Spurning hvort þetta verður jafn gott og í fyrra. Þá var ég einn af þeim sem voru ráðnir út á aukafjárveitingu frá borginni og byrjaði um miðjan júní. Á morgnana þurfti ég alltaf að mæta í Ártúnsholt. Síðan var mér og mínum hóp ekið í Seljahverfið þar sem ég bý og þar áttum við að reyta arfa úr beðum og setja sand í beð. Og fyrst þurfti að fara með annan hóp af einhverjum sauðnautum í Árbæinn. Þannig að ég var að fá slatta borgaðan fyrir að sitja í bíl á hverjum degi. Svo var einhver verkstjóri hjá okkur en hún mætti bara á morgnana til að sjá hverjir væru mættir. Svo leit hún við einu sinni yfir daginn en það var bara suma daga. Þannig að við vorum bara eftirlitslaus í einhverju bulli í trjábeðum í Seljahverfi. Svo áttum við sjálf að muna eftir kaffitímunum okkar. Það var einhverra hluta vegna mjög létt og teygðust kaffitímarnir stundum á langinn. Svo gátum við bara verið í fótbolta eða fengið okkur hænublund í sólinni. En þess má til gamans geta að okkur var hrósað fyrir að vera mjög duglegur hópur. Spurning hvort það segir ekki meira um hina hópana en okkur. Yfirverkstjórinn sagði meira að segja að hann vildi endilega fá okkur aftur í vinnu næsta sumar. Gaman að þessu.

Niðurstaðan: Af þessu er ljóst að verkstjórar í svona sumarvinnu eru alveg óþarfir og starfsmenn eru duglegri ef þeir eru ekki undir eftirliti.

Ég verð sjálfsagt undir stöðugu eftirliti í vinnunni í sumar. Sérstaklega ef einhver spekingur hjá gatnamálastjóra les þetta.