fimmtudagur, 22. maí 2003

Martröð

Ég er greinlega ekki búinn að átta mig á því að prófin eru búin. Í nótt dreymdi mig að bekkurinn væri í munnlegu prófi í íslensku. Þetta var furðulegt í alla staði. Ég hefði getað ímyndað mér að munnlegt próf í íslensku væri úr Egils sögu og Snorrra-Eddu sem við höfum lesið eftir jól. En þetta próf var ekki þannig. Knútur, íslenskukennari var mættur með einhverjar gamlar ljósmyndir og prófið var einfaldlega fólgið í því að segja Knúti hvað væri á myndunum. Hljómar auðvelt. En þetta var ekkert sérstaklega auðvelt því ein myndin var úr einhverju bekkjarferðalagi sem ég fór í þegar ég var 6 eða 7 ára. Svo voru svarthvítar myndir af einhverju fólki og torfbæum í baksýn. Við áttum að segja hvað fólkið á myndunum hét. Ég veit ekkert hvernig við áttum að vita það. Svo kallaði ein stelpan í bekknum Knút mömmu. Það kom ekki fram hvort það væri út af því að hún væri eitthvað klikkuð eða hvort Knútur var í alvöru mamma hennar. Mér finnst samt líklegra að hún hafi bara verið eitthvað klikk. En ég afskrifa ekki hinn möguleikann því allt virðist vera mögulegt í svona draumum.

Vægast sagt algjör sýra og ég vona að mig dreymi ekki eitthvað árans próf aftur.