þriðjudagur, 6. maí 2003

Glatt á hjalla í Valhöll

Hvað ætli kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar muni kosta? Þeir hafa auglýst flokka mest þótt Samfylkingin fylgi fast á eftir. Ég heyrði einhvern speking í Silfri Egils skjóta á að baráttan hjá þeim kæmi til með að kosta u.þ.b. þrjúhundruð milljónir og hljómar það ekki ósennilega. Mér skilst t.d. að heilsíðuauglýsing í Mogganum kosti um 500 þúsund. Og hverjir borga brúsann? Það væri gaman að fá að vita það. En Sjálfstæðismenn ætla nú aldeilis ekki birta bókhald um kosningabaráttuna. Nei, nei. Það væri alveg ómögulegt. Það eru bara litlu aumingjaflokkarnir sem birta bókhald. Svoleiðis er löngu dottið úr tísku að mati Sjálfstæðismanna. En samt þykjast þeir ekkert hafa að fela varðandi bókhaldið og ég heyrði Geir H. Haarde segja í einhverjum þætti:"Jú, jú, við gætum alveg birt bókhald. Við teljum þess bara ekki þörf". Ég held að það sé einmitt þörf á því á þeim bænum, enda ekki um neinar smáupphæðir að ræða. En það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt við það að auglýsa fyrir þrjúhundruð milljónir. Nei, nei, nei, nei, nei. Þess má geta að áðan kom afar veglegur bækligur frá Sjálfstæðisflokknum inn um bréfalúguna. Þar er greint frá góðum verkum Sjálfstæðisflokksins og því að þeir ætla að gera enn betur á næsta kjörtímabili.

Svona var það: Þetta var örugglega þannig að rétt áður en kosningabaráttan byrjaði hélt Davíð fund í Valhöll með ungum Sjálfstæðismönnum. Þar hefur hann væntanlega verið uppáklæddur sem töframaður, með skikkju, svartan pípuhatt og töfrasprota. Svo hafa töfrabrögðin byrjað: Davíð tók niður hattinn og setti hann á borðið. Hann byrjaði á að draga þorska upp úr hattinum, einn af öðrum, svo húsið var orðið fullt af þorskum áður en langt um leið. Svo flæddu þorskar út á götu og fólk tók því fagnandi og hirti með sér nokkur stykki til að haf í soðið. Já, já, það er hægt að auka þorskkvótann um þrjátíuþúsund tonn. Svo, allt í einu, fór hann að draga seðla út úr erminni, ekki einhverja smápeninga. Onei, þrjúhundruð milljónir. Og Sigurður Kári og Guðlaugur Þór, lærlingar Davíðs, hlógu hrossahlátri og klöppuðu sem mest þeir máttu. Já, þá var nú glatt á hjalla í Valhöll.

Af einhverjum ástæðum efast ég um að þetta hefi verið alveg svona. Þótt ótrúlegt megi virðast finnst mér óeðlilegt að flokkurinn birti ekki bókhald. Það skyldi þó ekki vera af því að þeir hafi eitthvað að fela. Mér finnst ekki ólíklegt að kvótakóngar séu að styrkja Sjálfstæðisflokkinn um vænar fúlgur fjár. Eða er þetta bara vitleysa í mér?