miðvikudagur, 28. maí 2003

Triple-Endurtökupróf

Triple-Endurtökupróf. JACKPOT!!!

Nei, það er enginn vinningur fyrir að lenda í 3 endurtökuprófum.

Ég var á einkunnaafhendingu í dag og einkunnirnar voru ekki beinlínis fagnaðarefni. Ég féll á 3 prófum og mun fara í þrjú endurtökupróf. Ég vissi ekki einu sinni að það mætti taka þrjú endurtökupróf. En það er óneitanlega gleðiefni að það má. En samt ekki gleðiefni. Nú eru flestir að byrja í sumarfríi eða að fara að vinna í léttu flippi. Á meðan mun ég sitja með sveittan skallann og lesa Egils sögu gaumgæfilega. Svo verð ég að taka allhressilega upprifjun í stærðfræði því ég féll bæði á ólesinni og lesinni stærðfræði. Það eru sem sagt endurtökupróf í Íslensku og tvö í stærfræði. Knútur íslenskukennari sagði mér að hann skyldi éta hattinn sinn ef ég næði ekki endurtökuprófunum. Svo sagði Hannes portner að nú væri bara að "drullast til að ná" eins og hann orðaði það. Hann sagði líka að menn uppskæru eins og þeir sáðu og það er ekki spurning að það er rétt. Reyndar var hann á þeirri skoðun að stærðfræðin væri mjög erfið. Það þarf ekkert að deila um það. Nú væri gott að hafa lesið Egils söguna því það var hún sem felldi mig á íslenskuprófinu. Ég sleppti heilli síðu á prófinu úr Egils sögu, sem gilti 13 stig. En ég ætla að lesa söguna núna, þótt mér finnist mest af þessum íslensku fornbókmenntum óheyrilega leiðinlegt.