föstudagur, 31. október 2003

Hænublundur

Fokk, ég missti af Sólbjartsopnunarkeppninni niðri í skóla í dag. Steingleymdi henni. Ég lagði mig fljótlega eftir að ég kom úr skólanum, vaknaði síðan við símann, síhringjandi núna rétt fyrir sjö. Ég var búinn að berja vekjaraklukkuna sem átti að vekja mig eftir klukkutímablund tvisvar sinnum niður. Gott að það er sterkt í þessu. Síðan er ég allur hálfruglaður núna. Einhvern veginn þarf ég að reyna að koma mér almennilega á lappir. Ég er handónýtur núna. Voðalegt að lenda í svona.

Helgi Hós í bíó á eftir. Ég mæti þangað.

fimmtudagur, 30. október 2003

Ferð til fjár

Fór í MR í kvöld. Hlustaði á karl. Fékk pitsu. Tók próf. Fékk tíu. Varð dómari.

Óhugnanleg lífsreynsla í strætó

Það eru síst ýkjur þegar ég segist hafa óttast um líf mitt í strætó í dag. Ég settist inn í strætóinn á Lækjartorgi sallarólegur. Vagninn ók af stað og allt var í lagi. Svo á stoppistöðinni við Kringluna kom einhver snargeðveikur maður inn í strætó og settist við hliðina á mér. Hann var alltaf að kippa til löppinni og að gefa mér hnésskot (olnbogaskot nema að þetta var með hnénu). Hann kippti löppinni til á fimm sekúndna fresti. Ég var alveg að trompast á þessum manni og að því kominn að segja honum að "andskotast til að sitja kyrr!" en þá leit ég á manninn og sá að hann ríghélt í sætið fyrir framan með samanbitnar tennur og starði fram fyrir sig, svo andaði hann mjög djúpt svo allir heyrðu. Ekki hegðun sem algengt er að sjá. Ég hætti snarlega við að gera athugasemd við framferði mannsins því þetta virtist vera svona maður sem hefði ekki vílað fyrir sér að bíta af mér höfuðið eða steindrepa mig á einhvern annan hátt af minnsta tilefni. Ég yrði ekkert hissa ef einhver segði mér að þessi maður væri fjöldamorðingi. Ekki er allt búið því maðurinn fór loksins út úr strætó rétt á undan mér. Hann gekk út eins og vélmenni og starði beint fram fyrir sig. Frekar vafasamur tappi. Enginn vill mæta þessum manni í dimmu húsasundi. Nei, ónei.

þriðjudagur, 28. október 2003

Snilldarfrétt á Baggalúti

Maður hló nú dátt að þessu enda mjög sniðugt. Ódámarnir að sulla gosi á atkvæðagreiðsluhnappana hjá drengnum. Þetta er bara alveg eins og að stela sleikjó frá smábarni.

Ís og popp

Það er orðið hart þegar menn eru orðnir háðir Maxi poppkorninu sem fæst í Hallanum og éta poka á dag hið minnsta. Það gildir einmitt um mig. Rosalega gott popp. Og svo er það líka gott fyrir heilann. Svo sullar maður þessu um allt í tímum, sjálfsagt við lítinn fögnuð skúringakonunnar sem þrífur bekkjarstofuna mína. Hún hefur örugglega blótað þessu helvítis andskotans popphænsni oft og lengi. Einnig vekur slíkur sóðaskapur og popppokaskrjáfur lítinn fögnuð hjá Önnu Arinbjarnar enskukennara, mjög lítinn fögnuð. En ég er farinn að bæta mig og sulla minna poppi. Það er bara svo gaman í tímum í MR, bara eins og bíó þannig að popp er nauðsynlegt. HA! Kennararnir endalaus uppspretta skemmtunar. Segðu.

Jájá. Svo er ég síétandi ís þessa dagana, ekki þó í MR. Súkkulaðiís og vannuiluís eru vinsælir. Þessu verður að linna. Það vantar meðferðarúrræði fyrir svona menn.

Ég skelli í mig tveimur pokum af poppi á morgun.

Bíóferð

Fór á þessa Kill Bill sem allir eru að tala um um síðustu helgi. Ágæt mynd. Mjög flott (leikmynd og uppsetning) en handrit ekki alveg að dansa. Tæmdu alla blóðbanka í austurlöndum fjær væntanlega fyrir myndina. Boðskapur myndarinnar: ofbeldi leysir engan vanda.

Svo verður maður að skella sér á Mótmælandann um Helga Hós. á næstunni.

mánudagur, 27. október 2003

Sunnudagssveiflan

Það virðist hafa verið ákveðið af æðri máttarvöldum að sunnudagar ættu að vera leiðinlegir dagar. Allir hjálpast að við að gera sunnudaga leiðinlega. Það er alltaf á sunnudögum sem fólk uppgötvar heimalærdóminn. "Obbobobb, nú er kominn sunnudagur, ég á eftir að læra". Flestir ætla alltaf að vera duglegir um helgar en það klikkar alltaf. Sunnudagurinn fer í lærdóminn og önnur leiðindi. Oftast endar á því að lærdómurinn er unninn seinnipartinn á sunnudögum. En ekki halda að það sé ekki hægt að gera gott úr sunnudögum. Boðið er upp á alls konar dægradvöl. Það er hægt að skella sér í messu og brjóta þannig upp daginn á skemmtilegan hátt. "Hvaða sögur ætli presturinn segi í dag, ég iða í skinninu!". Messurnar keppa við sunnudagsmorgunleiki í enska boltanum og rúlla samkeppninni upp. Svo er hægt að heimsækja gamlar frænkur á sunnudögum og fá kaffi og með því hugsanlega og skeggræða um daginn og veginn. Aldrei er neitt í sjónvarpinu á sunnudögum. Eins og ég segi, allir taka sig saman í að gera leiðinlegan dag að veruleika: afi, amma, pabbi, mamma og líka þú. Allir leggja sitt af mörkum til sunnudagsleiðinda.

En í gær gerðist það undarlega. Það var ágætis sjónvarpsdagskrá á Skjá einum. Ég horfði á þrjá þætti í röð og slíkt hefur ekki gerst í háa herrans tíð. Þetta voru þættirnir Popppunktur, Family Guy og Atvinnumaðurinn. Allt mjög frambærilegir þættir og til yndisauka. Reyndar er sumt í Atvinnumanninum aðeins of mikil steik en á heildina er hann hressandi. Family Guy er leiðinlega teiknað en gott handrit bætir það upp.

laugardagur, 25. október 2003

blessadurkarlinn.blogspot.com eins árs

Nú er liðið nákvæmlega eitt ár frá því að hér var ritað fyrst. Kransar afþakkaðir.

föstudagur, 24. október 2003

Breytingar enn og aftur

Nýr bakgrunnur. Endilega segið skoðun ykkar á þessum nýja bakgrunni í "Shout out". Hvað er besta litasamsetningin(bakgrunnur-texti)?Ég var að uppgötva núna að það er skítlétt að breyta litasamsetningu á þessu.
***
Í dag fékk ég hæstu einkunn á lesnu stærðfræðiprófi á ferli mínum í MR, 9,0 sem er mjög gott.

fimmtudagur, 23. október 2003

Heimspeki

Hvers vegna?
Til hvers að sofa? Maður vaknar hvort sem er aftur.
Til hvers að vakna? Maður fer hvort sem er að sofa aftur.
Til hvers að borða? Maður verður hvort sem er svangur aftur.
Til hvers að taka til? Það þarf hvort sem er að taka til aftur.
Til hvers að fara í sturtu? Maður verður hvort sem er skítugur aftur.
Til hvers að fara í skólann? Maður fer hvort sem er heim aftur.
Til hvers að fara úr skólanum? Maður fer hvort sem er aftur í skólann.
Til hvers að fara í frí? Maður þarf hvort sem er að vinna aftur.

Hver veit? Það veit enginn.
***
Já, ég veit að þetta er steikt færsla. Þetta er nýja heimspekiljóðið mitt. Ég er kannski eitthvað illa að mér í líffræði og almennri skynsemi.

Lenging framhaldsskóla

Mikið hefur verið þusað og þrasað um styttingu framhaldsskóla á alþingi. Tómas Ingi Olrich styður það og fleiri þingmenn því það virðist vanta herslumuninn upp á að þetta gangi í gegn. Þetta er á þeim forsendum að það vanti fólk fyrr út í háskóla og þannig fyrr út í atvinnulífið til þess að auka framleiðni. Þeir ætla að ná fram sparnaði með því að þjappa námsefninu niður á þrjú ár í stað fjögurra. En vantar fólk í atvinnulífið einu ári fyrr? Nei, ég hef ekki heyrt um verulegan skort á fólki í vinnu undanfarin ár. Atvinnuleysi hefur hins vegar verið nokkuð. Það virðist vera tilhneiging hjá stjórnendum fyrirtækja til að ráða alltaf ungt fólk í vinnu frekar en eldra þrátt fyrir að sama menntun sé til staðar hjá báðum. Þeir eldri hafa líka oftast meiri reynslu en yngri. Talað er um að nágrannaþjóðirnar hafi þetta bara þrjú ár og þess vegna eigum við líka að stytta hjá okkur. Svo halda þeir því fram að brottfall nemenda minnki nái tillögurnar fram að ganga. Ég sé ekki alveg hvernig það getur staðist. Það féllu líkast til bara fleiri einhvern tímann í framhaldsskóla þar sem meira námsefni væri kennt á hverju skólaári en nú er.

Það er mikil tilhneiging til að vilja gera eitthvað af því að nágrannaþjóðir hafa gert það "með góðum árangri". Hvað með að leita nýrra leiða? Mætti ekki alveg láta grunnskóla byrja við fimm ára aldur í stað 6 ára eða jafnvel stytta grunnskólann um ár. Þar er miklu betra tækifæri til styttingar og hagræðingar en á framhaldsskólastigi því námið er miklum mun léttara. Þar er voðalegt dúll í gangi og 1.bekkur grunnskóla er t.d. mikið til bara leikur "út að sippa" "allir í beina röð" "nú er litatími" og "nú er tannburstamánuðurinn og allir eiga að koma með tannbursta og tannkrem í skólann". Það var rosalegt rugl þetta með tannburstana og að tannbursta í skólanum þegar ég lít til baka. Það er alveg á hreinu að krakkar gætu lært meira í 1.bekk. Ég er viss um að flestir gætu vel hoppað yfir eitt ár á fyrstu árum grunnskólans.

Ef framhaldsskólinn verður styttur legg ég til að allir nemendur falli í mótmælaskini og lengi þannig námið aftur upp í fjögur ár.

miðvikudagur, 22. október 2003

Johnny karlinn

Hann Johnny Cash er rosalega góður. Ég held að ég verði að fá mér munnhörpu, gítar og kúrekahatt og setjast að í villta vestrinu.

Slordónar og hyski

Alls konar slordónar og hyski virðast flækjast inn á þessa síðu ef marka má teljari.is. Ég var að kíkja á teljarann minn á teljari.is. Það er einhver fítus þarna sem gerði mér kleyft að sjá hvaðan fólk hafði komið inn á þessa síðu (af hvaða síðum) með því að smella á tengla. Einnig var hægt að sjá þegar fólk hafði villst inn á síðuna eftir að hafa slegið orð eða setningar inn í leitarvélar. Þá var unnt að sjá hverju hafði verið flett upp á leitarvélunum. Meðal annars höfðu einhverjir flett upp "allsber sturtu", "sigurður kári keyrir fullur", "hemmi gunn dáinn" og "davíð oddsson lag" og allir höfðu þeir flækst inn á mína síðu eftir slíka leit. Svo var mjög algengt að fólk hafði slegið inn "kebab" á franska leitarvél og lent á mína síðu eftir það.

Það er greinilega rannsóknarefni hvað fólk slær inn í leitarvélar.

þriðjudagur, 21. október 2003

Plötugagnrýni

Í plötugagnrýni í dag er nýjasta plata rokkbandsins Muse, Absolution, til umfjöllunar. Um er að ræða hagleikssmíð frá piltunum. Platan rúllar hnökralaust í spilaranum. Ef ekki, er spilarinn bilaður. Melódískir rokkslagarar prýða diskinn. Ein af fáum plötum sem ég kann að meta strax við fyrstu hlustun og er það ekki amalegt. Ef þessi diskur er ekki snilldarverk, skal ég hundur heita.

Mæli sérstaklega með lagi nr. 8, Hysteria, rosalegt kvikindi. Alveg svakalegt félagi.

Einkunn:fjórar og hálf stjarna af fimm að minnsta kosti. Rokkar á bilinu fjórar og hálf til fimm.

Á að reka Gerard Houllier?

Já, nú er mælirinn fullur.

laugardagur, 18. október 2003

Fórnarlamb tannlæknagríns

Ég hugsa að flestir hafi einhvern tímann orðið fórnarlömb tannlæknagríns. Ég lenti einmitt í því um daginn. Tannlæknagrín á sér mismunandi birtingarmyndir og virðist vera í sífelldri þróun. Tannlæknar verða að passa að fólk sjái ekki við gríninu. Þá fer allt fútt úr því. Tannlæknirinn minn beitti einmitt nýrri, byltingarkenndri grínaðferð á mig um daginn og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Það var þannig að tannsi byrjaði á að skoða kjaft minn vel og vandlega og sá þá eitt sem honum fannst rosalega fyndið: "Heyrðu, það er byrjaður að vaxa endajaxl og það bara hægra megin!" og svo hló hann dátt. Það er greinilega rosalega fyndið í tannlæknaheiminum þegar endajaxlarnir vaxa ekki samtaka. En einmitt um leið og hann skellihló að fáránlegum endajaxlavexti fór hann að krukka í tannholdinu og hreinsa einhvern fokkin tannstein sem hafði grasserað í neðri gómi. Á meðan á því stóð upplifði ég vítiskvalir og öskraði af lífs og sálarkröftum en tannlæknirinn hélt áfram að skellihlæja að litla, heimska, hægri endajaxlinum, sem hafði tekið vaxtarkipp. Hann hélt líka áfram að tala um hvað þetta væri fyndið og spurði mig hvort mér fyndist þetta ekki fyndið líka. Ég gat því miður ekki samsinnt því, þótt ótrúlegt megi virðast. En þarna var ég greinilega fórnarlamb tannlæknagríns af skæðustu gerð.

Svo mun tannlæknirinn minn væntanlega mæta vígreifur og sigri hrósandi á aðalþing Tannlæknafélagsins í næstu viku. Hann getur þá aldeilis komið með góða sögu úr bransanum. "Ja, ég skal segja ykkur frá fíflinu sem kom til mín í síðustu viku, með hraðsprottinn hægri endajaxl. Hann fékk nú að kenna á því, ha....".

En eins og áður kom fram á tannlæknagrín sér margar birtingarmyndir. Algengasta tegundin af því er sjálfsagt þegar tannlæknar ákveða að fara að spjalla við viðskiptavininn/fórnarlambið. Gjarnan koma spurningar á borð við "Ertu í skóla?" eða "Fórstu eitthvað í sumarfríinu?". En þeir hafa engan áhuga á að vita svör við þessu þótt þeir spyrji. Um leið og þeir hafa varpað fram spurningu byrja þeir með spúlarana og ryksugurnar upp í manni svo það er ekki nokkur leið að svara. "Fórstu eitthvert um verslunarmannahelgina?" Vrrrúúúmmmm. Borinn settur í gang og þeir byrja að bora sem óðir væru. Engin leið að svara. Tannlæknagrín eins og það gerist verst.

Varist tannlækna.

föstudagur, 17. október 2003

Árshátíð Skólafélagsins

Árshátíðin í gær var sú allrabesta á ferli mínum í MR. Papar léku fyrir dansi og það var snilld."Við drekkum Jameson" og fleiri stuðlög voru leikin í rífandi stemningu.

Ég byrjaði á því að mæta í mat hjá Óla þar sem slatti af fólki var saman kominn. Étnar voru pizzur undir dúndrandi dinnermúsík og spjalli og drukkinn var bjór með. Síðan var ætlunin að skella sér í partí hjá Gretti og þaðan í mitt bekkjarpartí sem var í Stúdentakjallaranum með tveimur öðrum bekkjum. En áætlanir breyttust eitthvað og endaði þannig að ég fór í partí hjá Tinnu en hvorki til Grettis né í Stúdentakjallarann. Það var mjög gott partí og á Tinna hrós skilið fyrir viðvikið. Þar slurkaði ég í mig lítersFaxe og nokkrum litlum Föxum (500mL bjórar heita núna "litlir" síðan ég uppgötvaði lítersFaxann). Allir voru hressir og kátir. Svo var ferðinni heitið á Broadway á ballið. Þar var mjög leiðinleg dyragæsla sem spurði alla um skilríki (í fyrsta sinn sem það er gert) og orsakaði teppu og algjört öngþveiti fyrir utan. Ég komst inn bara rétt áður en hætt var að hleypa fólki inn klukkan eitt. Loksins þegar inn var komið tók frábær stemning við sem Papar héldu uppi. Sungið var og dansað og fólk lék á als oddi eins og við var að búast. Besta árshátíð sem ég hef komið á. Ballið var búið klukkan að verða þrjú. Þá var Taxi tekinn upp á Select í Breiðholti þar sem ég, Tómas og Grettir áttum óuppgerð mál við einhverja meli (segi svona). Sko, þegar Gummi skalli, Tómas tönn og Grettir sterki mæta á Select í gettóinu skal fólk vara sig. Grillaðar pylsur með kartöflusalati eru alveg nauðsynlegar eftir svona skrall. Síðan kom ég heim klukkan rúmlega fimm eftir frábærlega heppnað kvöld. Konungsins sveifla! Setning kvöldsins hjá mér var "Hvaða siðferði hefur þú?" en hún er fengin frá Árna Johnsen úr frægu Kastljósviðtali við hann sem ég sá á spólu um daginn. Hann sagði reyndar "Hvaða siðfræði hefur þú?" en hverjum er ekki sama. Ég gat augljóslega ekki notað nákvæmlega sömu setningu, það hefði verið heimildastuldur. Setninguna notaði ég við hvert tækifæri en hún naut mismikillar hylli og var t.d. ekki vinsæl hjá dyravörðunum. Maður var svolítið laminn og svona. Nei,nei.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem gerðu magnað kvöld að veruleika: Óli fyrir matinn, Tinna fyrir partíið, Papar fyrir músík, Skólafélagið fyrir vel skipulagða árshátíð, Árni Johnsen fyrir setningu kvöldsins og Select fyrir pylsur. Sjálfsagt gleymi ég einhverjum en ekki er hægt að nefna alla í stuttri samantekt sem þessari.

Myndir af árshátíðinni má finna á eftirfarandi stöðum:
Heilabú.net
Rugl.is
flass.net

miðvikudagur, 15. október 2003

Kakóland í beinni

Mæli með vefmyndavél Kakólands fyrir hressa krakka.

þriðjudagur, 14. október 2003

HGH PRO FORMULA

* Look and Feel 20 Years Younger
* Reduce Body ft by 82%
* Wrinkle Reduction by 62%
* Increase Energy Level by 84%
* Increase Sexual Potency by 75%
* Increase Memory by 62%
* Increase Muscular Strength by 88%
* Increase Emotional Stability by 67%

Click Here to Learn More About HGH


Fékk þetta á Hotmail áðan. Sko, mig langar ekki að líta út fyrir að vera 20 árum yngri en ég er og því síður að upplifa það. Ég er ekki einu sinni orðinn 20 ára. Þá liti ég væntanlega út fyrir að vera okfruma og upplifði mig sem slíka. Ég segi Nei, takk. Íslenskt Já takk.

Leikjanámskeið MR

Ekki hugðist ég blogga í dag en get ekki á mér setið. Þannig er mál með vexti að ákveðið málefni hefur legið á mér eins og mara og þjakað mig mjög. Og nú verð ég einfaldlega að láta þetta gossa. Það er þannig að ég sit í kennslustundum í stofu 10 í Casa Christi í Menntaskólnum í Reykjavík. Sú stofa er bekkjarstofan mín. Á sama gangi eru tveir máladeildarbekkir, annar að nafni 5.A og er sá bekkur einmitt ástæða skrifa minna nú. Nú hef ég haldið síðan ég byrjaði í MR að þar ætti fólk að læra og þroskast og jafnvel komast til vits og ára. En ég er farinn að efast svolítið um þetta því alltaf þegar ég sit í tíma óma hlátrasköll og dólgslæti inn í stofu mína. Þar eru á ferðinni nemendur, ekki kennarar. Ekki vil ég bendla kennara við svo ósæmilega hegðun. Nemendurnir koma undantekningalaust úr máladeildarbekknum 5.A sem hefur stofu þarna á ganginum. Alltaf þegar ég kem fram á gang sé ég stóð nemenda úr 5.A með ólæti. Þar má finna Harald, Frikka, Andrés, Gulla, Hemma og stundum fleiri. Þessir menn virðast aldrei þurfa að sækja kennslustundir eins og aðrir siðprúðir skólafélagar þeirra. Oft má sjá Frikka grýta "hacky sack"-bolta í Halla og undantekningalaust er allur hópurinn skellihlæjandi. Mætti ætla að þar væri á ferðinni einhvurskonar leikjanámskeið eða jafnvel fjöllistarhópur en ekki skólapiltar úr Menntaskólanum. Í dag var annað uppi á teningnum þegar ég gekk út úr stofu minni. Engin óhljóð eða hlátrasköll bárust mér til eyrna. Allt var með kyrrum kjörum. "Ha?" hugsaði ég, "5.A í tíma?". Það gat ekki verið að ærslabelgirnir væru farnir að læra eitthvað. Ég leit inn í stofuna þeirra og það var eins og fyrri daginn, enginn þar, 5.A í fríi. En þeir höfðu þó farið eitthvað annað með sín ólæti. Og ég ætla ekkert að afsaka það að ég er oft í fríi, enda fallisti, útskrifaður úr einhverjum fögum og með a.m.k eina eyðu á dag og þess vegna tek ég betur eftir máladeildarskæruliðunum.
Um daginn lagði ég mig niðri í Cösu í einni af mínum fallistaeyðum. Vaknaði ég skyndilega við hávaða mikinn. Viti menn,fjöllistarhópurinn úr 5.A mættur, Frikki með hakkíboltann, Halli með drumbur sem hann barði á, Andrés með banjó, Steindór með munnhörpu, Gulli syngjandi með og hinir í hópnum með afmælisflautur, og allir skellihlæjandi og með afmælishatta. "hrmpf...fjöllistarhópurinn enn eina ferðina" hugsaði ég. Síðan fór ég í hakkí með þeim.

Það hefur alltaf verið svona léttur rígur milli máladeildar og náttúrufræðideildar. Ég hef aldrei haft neina ástæðu til að halda að máladeildin sé eitthvað miklu auðveldari fyrr en núna. Síðustu vikur hef ég orðið vitni að þessu öllu saman. Maður hefur heyrt að þau séu í strembinni latínu en það er án efa bara þjóðsaga. Einu tímarnir sem ég hef séð 5.A mæta í er líffræði. Því hef ég tvisvar orðið vitni að.

Í skáletruðu efnisgreininni er aðeins farið frjálslega með staðreyndir en þó er hún byggð á raunverulegum atburði og lýsir hún máladeild mjög vel.

Ég íhugaði að senda þessa grein í Velvakanda en það hefði verið aðeins of kreisí.

mánudagur, 13. október 2003

Johnny Cash og Muse

Mér áskotnuðust tveir geisladiskar í dag. Muse-Absolution og Johnny Cash-Johnny Cash's Greatest Hits Volume 1.
.

Það eru komnar glæsilegar skreytingar niðri í Cösu fyrir árshátíðina næsta fimmtudag. Þemað er Heimur Faraós þannig að allt er skreytt í Egypskum stíl. Það sem mér finnst verst við þetta er að skreytingarnar eru alltaf teknar niður strax eftir árshátíð. Þær kosta nú ekki lítið þessar skreytingar þannig að það mætti alveg leyfa þessu að tóra lengur en gert er. Fólk verður nú ekki þreytt á þessu alveg strax. Það ætti frekar að láta þetta hanga, þangað til einn mánudagsmorguninn að nokkrir nemendur eru handónýtir eftir helgi og fúlir og leiðir á öllu, þá berja þeir í einhverja mynd af Faraó tautandi "Fokking Faraó" og hrifsa þetta niður af veggjunum. Það væri mun skynsamlegra og náttúrulegra en að láta fólkið sem skreytti svona vel rífa afraksturinn niður eftir eina viku. Það er sóun.

Ný síða hefur litið dagsins ljós úr smiðju Ólafs Þórissonar og félaga. Hitti ég pilt í strætó 111 áðan og var hann hress að vanda og mælti m.a. með nýrri síðu og slíku.

laugardagur, 11. október 2003

Punggrip og stærðfræðikeppni

Íslendingar töpuðu leiknum gegn Þjóðverjum og eru dottnir út. Dæmt var af þeim mark sem virtist löglegt sem Hermann Hreiðars skoraði, smá tog, en aðallega bara barátta um boltann. Hermann sagði eftir leikinn að Þjóðverjinn hefði líka gripið í punginn á honum þegar hann skoraði. Helvítis melurinn. Svo var þessi Hinkel melur líka. Braut illa á Indriða. Fuss!

Ég mætti í stærðfræðikeppni niðri í MR í morgun. Maður þarf að vera eitthvað andlega vanheill til þess að láta hafa sig í að keppa í stærðfræði klukkan 10 á laugardagsmorgni. En hitt er annað mál að mér gekk bara sæmilega, enda tók ég neðra stig. En það er ekki spurning að þetta er ágætis þjálfun og það er fyrir öllu. Veitir ekki af enda ætla ég að ná 4.bekk núna, helst með þokkalegar einkunnir.

Nói albínói rakaði að sér Edduverðlaunum. Ekki að undra. Ég held svei mér þá að það sé besta mynd sem ég hef séð. Ég vona að hún verði tilnefnd til Óskarsverðlauna líka.

föstudagur, 10. október 2003

Málefnadagar Samfylkingarinnar og bleikt Stjórnarráð

Ég rak upp stór augu þegar ég sá í Mogganum í dag auglýsingu: "Málefnadagar Samfylkingarinnar, 11. og 12. október" ég nennti ekki að lesa meira af þeirri auglýsingu en geri fastlega ráð fyrir því að nú ætli Samfylkingin aldeilis að ferskja sig upp og vera með einhver málefni í tvo daga. Fyrir kosningarnar í vor voru þeir svona eitthvað tvístígandi varðandi það að finna sér málefni og fóru svolítið mikið eftir því sem kom út úr könnunum. Svona "60% þjóðarinnar eru hlynnt aðild að myntbandalagi Evrópu" og þá stendur Össur upp á fundi hjá flokknum og segir: "Já, Samfylkingin er greinilega með myntbandalagsaðild. Sáuð þið ekki könnunina maður, JÖSS!" Og svo var ekkert mál að breyta því ef næsta könnun sýndi eitthvað annað. Bara skútsa þessu til og frá. Mér finnst mjög gott hjá Samfylkingunni að ákveða að brydda upp á einhverjum málefnum, og þótt það sé ekki nema í tvo daga, það er þó byrjunin. Laglegt þetta. "Málefnadagar", þetta mun slá í gegn. Össur, ég kýs ykkur næst. Það er gefið. Ég mæli með að flokkurinn bryddi upp á tveggja daga "Málefnadögum" á hverju ári hér eftir. Djöfull verður það vinsælt. Já,já,já.

Ef ekið er framhjá Stjórnarráðinu í myrkri má sjá fagurbleika lýsingu sem varpast upp á það. Mun það vera til að vekja athygli á brjóstakrabbameini. Nú hef ég fengið aldeilis góða afsökun fyrir að ganga í bleiku sokkunum mínum (sem áður voru hvítir) sem pabbi litaði óvart í þvottavélinni um daginn. Ég er augljóslega bara að vekja athygli á brjóstakrabbameini.

Brjótum það sem brotnar, skiptir engu hvað það er!

200.000 Naglbítar héldu útgáfutónleika á Nasa í gærkvöldi og kíkti ég á herlegheitin. Þeir ollu smá vonbrigðum. Öll lögin á nýrri plötu, Hjartagull, voru spiluð. Inn á milli slæddust nokkuð þéttir slagarar. Upphaf tónleikanna og endir var það besta. Þar á milli var hálfgert miðjumoð. Titillagið, Hjartagull, er til dæmis ekki alveg að dansa. En lög á borð við "Láttu mig vera" og "Sól gleypir sæ" eru nokkuð öflug. Svo tóku þeir bestu gömlu lögin "Stopp nr. 7" og "Brjótum það sem brotnar" og það síðarnefnda var hápunktur tónleikanna, enda lokalagið. En eins og ég segi, smá vonbrigði.
Einkunn: þrjár og hálf stjarna af fimm

fimmtudagur, 9. október 2003

Með tossastimpil á rassgatinu

Haraldur veðurfræðingur hefur verið í fréttum síðustu daga eftir að hann gagnrýndi harðlega stærðfræðikennslu í grunnskólum landsins. Hann sagði að stór hluti nemenda útskrifaðist úr grunnskóla með "tossastimpil á rassgatinu". Ég held að hann hafi bara blússandi rétt fyrir sér og kerfið sé gagnrýnisvert að þessu leyti. Það þarf að endurskoða námsskrána. Meiri reikningsþjálfun og minna rugl.

En svo má líka benda á það að stór hluti nemenda eru hreinlega húðlatir og nenna ekki að læra og eiga ekkert heima í bóknámi. Þetta spilar allt saman.

Fullt af sjónvarpsstöðvum á Íslandi

Voru Norðurljós ekki að skera niður og segja upp fólki fyrir mjög stuttu? Núna eru þeir bara að fara að skella upp nýrri sjónvarpsstöð eins og ekkert sé sjálfsagðara. Stöð 3 er nýja trompið frá fyrirtækinu. Svo er nýbúið að hefja útsendingar á Skjá 2. Stöð 3 verður grínstöð, einhver grínarinn hefur uppgötvað að það vantaði grínstöð á Íslandi. Skjár 2 tekur "bestu" þættina af Skjá Einum og sýnir: Will & Grace og eitthvað í bland við "sígildar og góðar" kvikmyndir. Gott að þeir fá ekki talsettan Malcolm In The Middle. Þá get ég haldið ró minni. Fíflagangur? Já. Hver á að kaupa þessar stöðvar? Veit það ekki.

Um daginn horfði ég á Joyce Meyer á Omega í mótmælaskini. Þannig mótmælti ég nýjum stöðvum.

þriðjudagur, 7. október 2003

Fyrsti haustdagur í dag

Í dag er fyrsti haustdagur. Skítakuldi og bandbrjálað rok. Stinningskaldi væri það sjálfsagt kallað á veðurmáli. Þegar ég var í skólanum áðan féllu fyrstu þrjú snjókornin þetta haustið sem þýðir að veturinn er á næstu grösum. Þegar ég kom heim óð ég í nýföllnum laufum framan við húsið. Þau þyrluðust um í hringi og settu stein í götu mína á leið minni að húsinu. Skömmu eftir að ég kom inn heyrði ég háværan skell á rúðunni:"BAMM!". Garðhúsgögnin höfðu fokið í allar áttir og skellurinn kom þegar garðborðið skall á rúðuna. Svo lá það eftir á hvolfi og sömuleiðis allir garðstólarnir. Einn þeirra hafði meira að segja fokið einhvert lengst inn í garð og lá illa leikinn í trjánum. Plastbrot voru um allt. Þetta er dagurinn sem markar endalok sumars og upphaf hausts.

laugardagur, 4. október 2003

Liverpool-Arsenal

Liverpool tapaði fyrir Arsenal í dag 1-2. Ég sá tvö fyrstu mörkin í leiknum. Liverpool virtust mun sókndjarfari. Fyrra mark Arsenal kom upp úr aukaspyrnu sem var ranglega dæmd. Þetta eykur pressuna á Houllier. Tveir tapleikir í röð. En ég er algjörlega á því að Libbar hefðu átt að vinna þennan leik en þeir nýttu ekki sín færi og því fór sem fór.

MR-ví dagur og ræðukeppni

MR vann vesló þriðja árið í röð á MR-ví deginum. Sjaldan hefur munurinn verið meiri en núna. Þetta var burst. Í Hljómskálagarðinum var mexíkanahlaup og langhlaup og hitt og þetta.

Ræðukeppnin í verstló vannst um kvöldið en það var tæpt. Munaði 16 stigum á liðunum sem var nokkuð undarlegt miðað við hvernig keppnin var. Af verslingum bar Björn Bragi af að mínu mati. Einn keppandi versló bar líka af í lélegri ræðumennsku, Hildur frummælandi þeirra. Báðar ræðurnar hennar voru svona "Ha?Loftbor?"-ræður eins og Stefán Pálsson talaði um á ræðunámskeiðinu um daginn. En það eru ræður sem ná engan veginn að fanga athygli áhorfenda og athygli þeirra fer að beinast að einhverju allt öðru. Henni tókst frekar illa að halda áhorfendum við efnið og þrátt fyrir að enginn væri með loftbor fyrir utan húsið fór ég óneitanlega samt að hugsa "Ha?Loftbor?". Það voru svona einn til tveir ágætis punktar í hvorri ræðu hjá henni en ekkert meira. Hjá MR-liðinu voru menn jafnari en vil ég þó nefna að Ásgeir Pétur kom mér á óvart og var betri en ég bjóst við. Hilmir var líka nokkuð góður og Frikki stóð sig vel sem liðsstjóri. Jói var ræðumaður kvöldsins og vel að því kominn.

Klappliðsfólk verslinga veifaði rauðum spjöldum að okkar klappliði og setti einhverja viðvörunarbjöllu í gang um leið og endurtók það nokkrum sinnum. Það fannst mér ósköp smánarlegt.

Ekki má gleyma því að sýndar voru MR-ví-myndir skólanna. Myndin frá versló var lélegasta og metnaðarlausasta MR-VÍ mynd sem ég hef séð. Algjört bull. Myndin frá MR byrjaði illa en skánaði svo þegar á leið og var bara nokkuð fín þegar upp var staðið.

MR-ví sigur þriðja árið í röð og það þýðir bikar til eignar sem er mjög gott.

föstudagur, 3. október 2003

Hvaða siðferði hefur þú?

MR-víííí dagurinn er í dag. Gaman að því. Þar mun MR keppa við west-low í ýmsum greinum. Sigur er viðbúinn. Það verða væntanlega fréttir um það á morgun eða hinn.

Hvaða fífli datt í hug að láta talsetja þáttinn Malcolm in The Middle? Ég horfi reyndar aldrei á það hvort sem er. En þvílík leiðindi. Steinn Ármann talar fyrir pabbann. Hann var miklu betri sem Keli köttur í Stundinni okkar. Ég held að hann ætti bara að halda sig við það. Annars liggur leiðin bara beint niður á við hjá honum.

fimmtudagur, 2. október 2003

Morgunmatur

Þetta nýja morgunkorn frá Kellog's, Just Right er besta morgunkorn sem ég hef smakkað. Já, það er líka betra en Cocoa Puffs.