Fórnarlamb tannlæknagríns
Ég hugsa að flestir hafi einhvern tímann orðið fórnarlömb tannlæknagríns. Ég lenti einmitt í því um daginn. Tannlæknagrín á sér mismunandi birtingarmyndir og virðist vera í sífelldri þróun. Tannlæknar verða að passa að fólk sjái ekki við gríninu. Þá fer allt fútt úr því. Tannlæknirinn minn beitti einmitt nýrri, byltingarkenndri grínaðferð á mig um daginn og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Það var þannig að tannsi byrjaði á að skoða kjaft minn vel og vandlega og sá þá eitt sem honum fannst rosalega fyndið: "Heyrðu, það er byrjaður að vaxa endajaxl og það bara hægra megin!" og svo hló hann dátt. Það er greinilega rosalega fyndið í tannlæknaheiminum þegar endajaxlarnir vaxa ekki samtaka. En einmitt um leið og hann skellihló að fáránlegum endajaxlavexti fór hann að krukka í tannholdinu og hreinsa einhvern fokkin tannstein sem hafði grasserað í neðri gómi. Á meðan á því stóð upplifði ég vítiskvalir og öskraði af lífs og sálarkröftum en tannlæknirinn hélt áfram að skellihlæja að litla, heimska, hægri endajaxlinum, sem hafði tekið vaxtarkipp. Hann hélt líka áfram að tala um hvað þetta væri fyndið og spurði mig hvort mér fyndist þetta ekki fyndið líka. Ég gat því miður ekki samsinnt því, þótt ótrúlegt megi virðast. En þarna var ég greinilega fórnarlamb tannlæknagríns af skæðustu gerð.Svo mun tannlæknirinn minn væntanlega mæta vígreifur og sigri hrósandi á aðalþing Tannlæknafélagsins í næstu viku. Hann getur þá aldeilis komið með góða sögu úr bransanum. "Ja, ég skal segja ykkur frá fíflinu sem kom til mín í síðustu viku, með hraðsprottinn hægri endajaxl. Hann fékk nú að kenna á því, ha....".
En eins og áður kom fram á tannlæknagrín sér margar birtingarmyndir. Algengasta tegundin af því er sjálfsagt þegar tannlæknar ákveða að fara að spjalla við viðskiptavininn/fórnarlambið. Gjarnan koma spurningar á borð við "Ertu í skóla?" eða "Fórstu eitthvað í sumarfríinu?". En þeir hafa engan áhuga á að vita svör við þessu þótt þeir spyrji. Um leið og þeir hafa varpað fram spurningu byrja þeir með spúlarana og ryksugurnar upp í manni svo það er ekki nokkur leið að svara. "Fórstu eitthvert um verslunarmannahelgina?" Vrrrúúúmmmm. Borinn settur í gang og þeir byrja að bora sem óðir væru. Engin leið að svara. Tannlæknagrín eins og það gerist verst.
Varist tannlækna.
|