mánudagur, 27. október 2003

Sunnudagssveiflan

Það virðist hafa verið ákveðið af æðri máttarvöldum að sunnudagar ættu að vera leiðinlegir dagar. Allir hjálpast að við að gera sunnudaga leiðinlega. Það er alltaf á sunnudögum sem fólk uppgötvar heimalærdóminn. "Obbobobb, nú er kominn sunnudagur, ég á eftir að læra". Flestir ætla alltaf að vera duglegir um helgar en það klikkar alltaf. Sunnudagurinn fer í lærdóminn og önnur leiðindi. Oftast endar á því að lærdómurinn er unninn seinnipartinn á sunnudögum. En ekki halda að það sé ekki hægt að gera gott úr sunnudögum. Boðið er upp á alls konar dægradvöl. Það er hægt að skella sér í messu og brjóta þannig upp daginn á skemmtilegan hátt. "Hvaða sögur ætli presturinn segi í dag, ég iða í skinninu!". Messurnar keppa við sunnudagsmorgunleiki í enska boltanum og rúlla samkeppninni upp. Svo er hægt að heimsækja gamlar frænkur á sunnudögum og fá kaffi og með því hugsanlega og skeggræða um daginn og veginn. Aldrei er neitt í sjónvarpinu á sunnudögum. Eins og ég segi, allir taka sig saman í að gera leiðinlegan dag að veruleika: afi, amma, pabbi, mamma og líka þú. Allir leggja sitt af mörkum til sunnudagsleiðinda.

En í gær gerðist það undarlega. Það var ágætis sjónvarpsdagskrá á Skjá einum. Ég horfði á þrjá þætti í röð og slíkt hefur ekki gerst í háa herrans tíð. Þetta voru þættirnir Popppunktur, Family Guy og Atvinnumaðurinn. Allt mjög frambærilegir þættir og til yndisauka. Reyndar er sumt í Atvinnumanninum aðeins of mikil steik en á heildina er hann hressandi. Family Guy er leiðinlega teiknað en gott handrit bætir það upp.