fimmtudagur, 30. október 2003

Óhugnanleg lífsreynsla í strætó

Það eru síst ýkjur þegar ég segist hafa óttast um líf mitt í strætó í dag. Ég settist inn í strætóinn á Lækjartorgi sallarólegur. Vagninn ók af stað og allt var í lagi. Svo á stoppistöðinni við Kringluna kom einhver snargeðveikur maður inn í strætó og settist við hliðina á mér. Hann var alltaf að kippa til löppinni og að gefa mér hnésskot (olnbogaskot nema að þetta var með hnénu). Hann kippti löppinni til á fimm sekúndna fresti. Ég var alveg að trompast á þessum manni og að því kominn að segja honum að "andskotast til að sitja kyrr!" en þá leit ég á manninn og sá að hann ríghélt í sætið fyrir framan með samanbitnar tennur og starði fram fyrir sig, svo andaði hann mjög djúpt svo allir heyrðu. Ekki hegðun sem algengt er að sjá. Ég hætti snarlega við að gera athugasemd við framferði mannsins því þetta virtist vera svona maður sem hefði ekki vílað fyrir sér að bíta af mér höfuðið eða steindrepa mig á einhvern annan hátt af minnsta tilefni. Ég yrði ekkert hissa ef einhver segði mér að þessi maður væri fjöldamorðingi. Ekki er allt búið því maðurinn fór loksins út úr strætó rétt á undan mér. Hann gekk út eins og vélmenni og starði beint fram fyrir sig. Frekar vafasamur tappi. Enginn vill mæta þessum manni í dimmu húsasundi. Nei, ónei.