þriðjudagur, 14. október 2003

Leikjanámskeið MR

Ekki hugðist ég blogga í dag en get ekki á mér setið. Þannig er mál með vexti að ákveðið málefni hefur legið á mér eins og mara og þjakað mig mjög. Og nú verð ég einfaldlega að láta þetta gossa. Það er þannig að ég sit í kennslustundum í stofu 10 í Casa Christi í Menntaskólnum í Reykjavík. Sú stofa er bekkjarstofan mín. Á sama gangi eru tveir máladeildarbekkir, annar að nafni 5.A og er sá bekkur einmitt ástæða skrifa minna nú. Nú hef ég haldið síðan ég byrjaði í MR að þar ætti fólk að læra og þroskast og jafnvel komast til vits og ára. En ég er farinn að efast svolítið um þetta því alltaf þegar ég sit í tíma óma hlátrasköll og dólgslæti inn í stofu mína. Þar eru á ferðinni nemendur, ekki kennarar. Ekki vil ég bendla kennara við svo ósæmilega hegðun. Nemendurnir koma undantekningalaust úr máladeildarbekknum 5.A sem hefur stofu þarna á ganginum. Alltaf þegar ég kem fram á gang sé ég stóð nemenda úr 5.A með ólæti. Þar má finna Harald, Frikka, Andrés, Gulla, Hemma og stundum fleiri. Þessir menn virðast aldrei þurfa að sækja kennslustundir eins og aðrir siðprúðir skólafélagar þeirra. Oft má sjá Frikka grýta "hacky sack"-bolta í Halla og undantekningalaust er allur hópurinn skellihlæjandi. Mætti ætla að þar væri á ferðinni einhvurskonar leikjanámskeið eða jafnvel fjöllistarhópur en ekki skólapiltar úr Menntaskólanum. Í dag var annað uppi á teningnum þegar ég gekk út úr stofu minni. Engin óhljóð eða hlátrasköll bárust mér til eyrna. Allt var með kyrrum kjörum. "Ha?" hugsaði ég, "5.A í tíma?". Það gat ekki verið að ærslabelgirnir væru farnir að læra eitthvað. Ég leit inn í stofuna þeirra og það var eins og fyrri daginn, enginn þar, 5.A í fríi. En þeir höfðu þó farið eitthvað annað með sín ólæti. Og ég ætla ekkert að afsaka það að ég er oft í fríi, enda fallisti, útskrifaður úr einhverjum fögum og með a.m.k eina eyðu á dag og þess vegna tek ég betur eftir máladeildarskæruliðunum.
Um daginn lagði ég mig niðri í Cösu í einni af mínum fallistaeyðum. Vaknaði ég skyndilega við hávaða mikinn. Viti menn,fjöllistarhópurinn úr 5.A mættur, Frikki með hakkíboltann, Halli með drumbur sem hann barði á, Andrés með banjó, Steindór með munnhörpu, Gulli syngjandi með og hinir í hópnum með afmælisflautur, og allir skellihlæjandi og með afmælishatta. "hrmpf...fjöllistarhópurinn enn eina ferðina" hugsaði ég. Síðan fór ég í hakkí með þeim.

Það hefur alltaf verið svona léttur rígur milli máladeildar og náttúrufræðideildar. Ég hef aldrei haft neina ástæðu til að halda að máladeildin sé eitthvað miklu auðveldari fyrr en núna. Síðustu vikur hef ég orðið vitni að þessu öllu saman. Maður hefur heyrt að þau séu í strembinni latínu en það er án efa bara þjóðsaga. Einu tímarnir sem ég hef séð 5.A mæta í er líffræði. Því hef ég tvisvar orðið vitni að.

Í skáletruðu efnisgreininni er aðeins farið frjálslega með staðreyndir en þó er hún byggð á raunverulegum atburði og lýsir hún máladeild mjög vel.

Ég íhugaði að senda þessa grein í Velvakanda en það hefði verið aðeins of kreisí.