Fyrsti haustdagur í dag
Í dag er fyrsti haustdagur. Skítakuldi og bandbrjálað rok. Stinningskaldi væri það sjálfsagt kallað á veðurmáli. Þegar ég var í skólanum áðan féllu fyrstu þrjú snjókornin þetta haustið sem þýðir að veturinn er á næstu grösum. Þegar ég kom heim óð ég í nýföllnum laufum framan við húsið. Þau þyrluðust um í hringi og settu stein í götu mína á leið minni að húsinu. Skömmu eftir að ég kom inn heyrði ég háværan skell á rúðunni:"BAMM!". Garðhúsgögnin höfðu fokið í allar áttir og skellurinn kom þegar garðborðið skall á rúðuna. Svo lá það eftir á hvolfi og sömuleiðis allir garðstólarnir. Einn þeirra hafði meira að segja fokið einhvert lengst inn í garð og lá illa leikinn í trjánum. Plastbrot voru um allt. Þetta er dagurinn sem markar endalok sumars og upphaf hausts.
|